14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

39. mál, Landsvirkjun

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þessa sérkennilega frv. til l., þar sem lagt er til að orkuverð til stóriðju verði nú ákveðið með lögum.

Ég hefði nú haldið að hv. fyrri flm. ætti að þekkja það vel til innandyra í þessum málum að hann ætti að sjá í hendi sinni, að eins og nú standa sakir a.m.k. er með öllu útilokað að setja um það lög í landinu hvaða hlutfall eigi þarna að ríkja. Og ég verð að segja það, að fátt hefur mér komið eins á óvart og slík till.-gerð nú. Þessi mál koma vafalaust til umr. undir betri skilyrðum alveg á næstunni, þegar ég mun flytja hér skýrslu um bráðabirgðasamningsgerð við Alusuisse vegna ÍSAL, þar sem þessi mál verða áreiðanlega rakin ítarlega.

Landsvirkjun hefur reiknað út að þessi ákvörðun þýddi nú milli 26 og 27 mill, ekki eins og hv. flm. reiknar hér út á öðrum stað minnir mig rúm 20 mill –20.2 ef ég man rétt. Það er auðvitað æskileg þróun að geta náð slíkum orkusölusamningum, og við verðum að setja markið hátt í þessum efnum, það er rétt, en að slá því föstu með lögum að það skuli vera lágmark til stóriðju. slík till.-gerð er með ólíkindum, og það af hálfu fyrrv. hæstv. iðnrh. eftir þá reynslu sem hann hafði af því hversu létt var fyrir um að fá hækkað orkuverðið til þess arna. Og ef við hugsum nú til fyrirtækisins í meirihlutaeign okkar, Járnblendifélagsins, þá tekur nú fyrst í hnúkana að mínum dómi, án þess að ég hér og nú hafi tök á því að gefa yfirlýsingar um að hvaða orkuverði í þeim samningum né heldur öðrum ég fyrir mitt leyti stefni. Slíkt væri óforsjálni í mesta máta á þessu stigi málsins.

En hv. flm. veit miklu meira um stöðu samninga vegna Járnblendifélagsins en maður skyldi halda af slíkri og þvílíkri till.-gerð eins og hér gefur að líta. Honum er áreiðanlega fullkunnugt um það. að hinir nýju aðilar — hugsanlegu aðilar — að Járnblendifélaginu mundu aldrei við þessu líta ef fest yrði í lög slíkt orkuverð á Íslandi.

Ég vil geta þess hér, af því að hann lét í ljós að hér töluðu menn um samninga við Sumitomo og Elkem sem eitthvað nýtt fyrirbrigði, að ég tók það fram skýrum stöfum í svari mínu við fsp. hér á dögunum að hv. fyrrv. iðnrh. hefði vikist undir þessa málaleitan sameignaraðila okkar, Elkem, um samningaumleitanir við Sumitomo. Ég hef ekki falsað neitt í þessu falli. Samningar vegna Járnblendifélagsins eru ákaflega örðugir, það skal ég játa, og þeir mega ekki verða okkur fjötur um fót í samningunum við Alusuisse vegna ÍSAL. Ég skal ekkert um það dæma núna hvernig til tekst, það hafa farið fram undirbúningsviðræður vegna Járnblendifélagsins og formlegur samningafundur verður um málið í lok þessa mánaðar í Bandaríkjunum, þar sem fulltrúar Elkem, okkar og Sumitomo munu hittast til að ræða þessi mál.

Við eigum eftir mikið verk óunnið í skipulagi í orkumálum okkar og við eigum eftir að taka ákvörðun um á hvaða verði við í framtíðinni getum boðið orkuna okkar. Og það þurfum við að gera alveg á næstunni. Ég bind enn miklar vonir við að orka okkar sé samkeppnisfær á heimsmarkaði. Það er þó of snemmt að fullyrða neitt um það meðan öll þessi mál eru í deiglunni, eins og nú standa sakir. En það er sannfæring mín að slíkt uppátæki sem það að taka með lögum ákvörðun um orkuverð til stóriðju með þessum hætti mundi geta orðið okkur óyfirstíganlegur þröskuldur, til að mynda svo ég taki dæmið af fyrirtæki okkar Járnblendifélaginu í Hvalfirði. Þar eru gífurlegir hagsmunir í boði, og okkur er hin brýnasta nauðsyn á að finna lausn á þessu máli sé þess nokkur kostur, annars blasir við okkur að loka þessu fyrirtæki.

Auðvitað er þetta allt örðugt og átaksillt af því að við vorum á sínum tíma ekki forsjálli en það að takast þarna á herðar aðaláhættu af rekstri þess fyrirtækis. Það er allt of seint að fara að ræða tildrög þess nú. Þetta var stefna Alþb. á árunum 1971–1974 og hún var tekin upp af Sjálfstfl. sem settist að þessum málum í framhaldi af því, um yfir 50% eignaraðild Íslendinga að slíku fyrirtæki. Við berum ábyrgð á þessu. En ég þarf ekkert að taka það fram hér og nú, sem lesa má í gömlum þskj., að ekki var það að mínu geðslagi þegar þetta varð ofan á. En of seint er að iðrast eftir dauðann og nú er að reyna að finna bestu fangráðin til þess að rétta þetta fyrirtæki við. Ég er hreint ekki úrkula vonar um það. En við getum hætt strax ef við ætlum að taka upp á slíku og þvílíku sem hér er lagt til. Því hlýt ég að leggjast mjög eindregið gegn slíkri lagasetningu. Við skulum vona að framtíðin verði okkur hliðholl að þessu leyti og að við getum stefnt upp fyrir slík mörk, sem hér er verið að leggja til að binda í lögum, en það er áreiðanlega ekki komið að þeirri stundu nú, fjarri því.