15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Fyrirspyrjandi:

(Steingrímur J. Sigfússon): Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. þessa til hæstv. utanrrh., sem er á þskj. 20 í X. tölulið, vegna þess orðróms sem gengið hefur og fengið hefur byr undir báða vængi með loðnum svörum m.a. hæstv. utanrrh. í fjölmiðlum undanfarið um að til standi að reisa hernaðarmannvirki á Norðausturlandi og Vestfjörðum.

Ég tel brýnt að þing og þjóð fái skilyrðislaust og undanbragaðlaust svör um það, hvaða áform eru uppi hjá bandaríska hernum og hjá hæstv. ríkisstj. varðandi þetta. Það er ljóst að hér er um stórmál að ræða sem varðað getur öryggi þjóðarinnar og þá alveg sérstaklega þess fólks sem er ætlað að búa í nábýli við væntanleg mannvirki. Það er því sanngjörn krafa að almenningi gefist kostur á að kynna sér hvers eðlis slík mannvirki eiga að vera og hvaða hlutverki þau eiga að gegna í hernaðarneti Bandaríkjamanna áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé í hróplegu ósamræmi við vaxandi áhuga almennings á afvopnun og friði að fara nú að auka hér vígbúnað og flækja okkur Íslendinga enn frekar í hernaðarnet stórveldanna en orðið er. Því veit ég og að margir munu hlusta grannt eftir þeim svörum sem hér verða gefin. Og sökum vaxandi áhuga og vaxandi þekkingar almennings á þessum málum er ljóst að sakleysislegt yfirbragð og meinlaust nafn á mannvirkjum mun ekki villa mönnum sýn, ef meira býr að baki. Af sömu ástæðu kann það og að reynast hernámsöflunum erfiðara en þau hafa ætlað að lauma nýjum hernaðarmannvirkjum inn í landið í skjóli aronskunnar.

Hæstv. utanrrh. hefur margoft látið hafa eftir sér í fjölmiðlum, að því er virðist að óathuguðu máli, að við Íslendingar gætum haft not af þessum ratsjám. Síðan kemur í ljós að fyrst nú er verið að skipa nefnd til að kanna málið og aðspurðir segjast starfsmenn Flugmálastjórnar og Landhelgisgæslu engar upplýsingar hafa um tæknilega útfærslu búnaðar í þessum stöðvum. Séu þó slíkar upplýsingar forsenda þess að segja af eða á um hugsanleg not okkar af þeim. Og ég spyr: Er þetta nú ekki að láta tilganginn helga meðalið? En það sem auðvitað skiptir öllu máli hér er að fá því svarað hvort eða hvernig þessar stöðvar eiga að tengjast kjarnorkuvígbúnaðarneti Bandaríkjamanna. Það er slíkt stórmál að allt annað hverfur í skuggann.

Hið virta tímarit Aviation Week & space Technology skýrði frá því 11. maí 1981 að B-52 og arftaka hennar B- 1b sprengjuþotunum sé ætlað að fljúga í árásarferðum sínum til Varsjárbandalagsríkjanna norður yfir Kanada og Grænland og svo ýmist í lágflugi rétt fyrir norðan Ísland niður yfir Skandinavíu eða í háflugi norðar. AWACS-ratsjárflugvélarnar gegna lykilhlutverki við leiðsögn vélanna og vörn þeirra og það er óhjákvæmilegt að spyrja, hvort það sé tilviljun að á sama tíma og verið er að þróa þessa áætlun vestan hafs ber hæstv. utanrrh. og þáverandi formaður Sjálfstfl. upp í Varðarferð kröfuna um nýjar ratsjárstöðvar.

Það er ljóst að meðaldrægar kjarnorkueldflaugar eins og þær sem almenningur í Evrópu mótmælir um þessar mundir og eldflaugar eins og þær sem við vorum öll sammála um í umr. hér á Alþingi í gær að aldrei kæmi til greina að hafa á Ístandi verða hér engu að síður í loftunum umhverfis okkur. Þær sprengjuflugvélar flotans sem hafa meðaldrægar Cruise-kjarnorkueldflaugar innanborðs þurfa að komast í um það bil 2 500 km fjarlægð frá skotmarki sínu áður en þær geta sleppt sínum flaugum. Nú vill svo til, að ef dreginn er hringur með miðpunkti á Kólaskaga og 2 500 km radíus liggur hann rétt um Ísland. Möguleikar Sovétmanna til varna eru sömuleiðis háðir langdrægi þeirra flugvéla sem væntanlega kæmu einnig frá Kótaskaga. Það vill svo til að þær komast lengst til móts við slíka innrás suður á móts við Ísland. Þetta þýðir m.ö.o. að átakasvæði þessara aðila getur orðið yfir eða í nánd við landið. Það er ljóst að í ljósi þessara upplýsinga eru umræður bandarískra hernaðarsérfræðinga þegar á árinu 1977 um nauðsyn þess að hafa hér AWACS-vélar og tengja þær endurnýjuðu neti ratsjárstöðva á jörðu niðri mjög athyglisverðar.

Í des. s.l. hóf B-52 sprengjuflugvélin að æfa flug frá Bandaríkjunum og út yfir Norður-Atlantshafið. Það er ljóst að tilkoma flugvéla sem geta borið meðaldrægar kjarnorkuflaugar og skotið þeim á loft í allt að 2 500 km fjarlægð frá skotmarki sínu er ný og voveifleg ógnun séð frá sjónarhóli sovétmanna og þeir eiga þann einan kost á átakatímum að skjóta flugvélarnar niður og granda öllum búnaði sem þeim tengist áður en flugvélarnar sleppa skeytum sínum, þ.e. í loftinu yfir eða suður af Íslandi. Af þessum sökum er tilkoma B-52 og síðar B-1 b sprengjuflugvélanna og alls þess búnaðar sem þeim tengist sem án efa eru AWACS-flugvélarnar og að öllum líkindum ratsjárstöðvar á jörðu niðri ... (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég vil gjarnan fá að ljúka máli mínu nú og það dragist frá ræðutímanum síðar. Ég á stutt eftir. (Forseti: Það verður orðið við því, en ég vil benda hv. þm. á að það er varla til skiptanna sem eftir verður.) Ég þakka forseta velvild.

Við skulum hafa í huga í þessu sambandi að það þarf svo sem ekki ófriðartíma til. Þessar vélar hafa, eins og ég sagði áðan, þegar hafið æfingaflug, sem eykur taugaveiklun á spennutímum og býður heim mannlegum eða tæknilegum mistökum.

Herra forseti. Það skiptir því öllu máli að fá því svarað hvort þessar nýju ratsjárstöðvar, sem hér eru til umræðu, eigi að verða, eins og margt bendir til því miður, hlekkur í þessari nýju árásarkeðju Bandaríkjamanna og umræða um allt annað hlýtur að hverfa í skuggann. Eiga þessar stöðvar að tengjast svonefndu JTIDS-kerfi sem inniheldur m.a. AWACS-flugvélarnar bandarísku og Nimrod-þotur Breta? Ef ekki, eiga þær þá að tengjast t.d. DEW-línunni eða NADGE-línunni í Evrópu eða á að láta sér nægja að tengja þær við sjálfvirkan símsvara?