15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin og þér, herra forseti, þolinmæði í minn garð. Það hefði verið fróðlegt fyrir framsóknarmenn á Norðurlandi eystra að heyra ræðu leiðtoga síns, hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar. Þeir héldu kjördæmisþing nýverið og mótmæltu þar harðlega öllum áformum um þetta, en ég fékk ekki betur heyrt hér áðan en maðurinn væri sokkinn upp í krika í aronskuna, eða hvað átti ræða hans annars að þýða?

Ég hef beðið þingverði, herra forseti, að dreifa ljósritum úr tveimur fræðigreinum, sem vonandi skýra það mál er ég vék hér að áðan. Þessi rit eru International Defence Review, 3. hefti frá 1980 og Aviaton Week & Space Technology frá 11. maí 1981.

Hæstv. utanrrh. talaði um það áðan að umferð flugvéla Varsjárbandalagsins hefði aukist hér í grennd við landið. Ég vil spyrja hann: Skyldi sú aukning standa í einhverju sambandi við æfingaflug B-52 sprengiflugvélanna sem ég minntist hér á áðan? Til viðbótar því sem ég nefndi og Svavar Gestsson, hv. 3. þm. Reykv., taldi upp hafa ýmis stjórnmálasamtök mótmælt uppbyggingu þessara radarstöðva, t.d. kjördæmisþing framsóknarmanna á Norðurlandi eystra og kjördæmisþing Alþb. í sama kjördæmi. En það sem ég held að menn verði að átta sig hér á er það að landradarstöðvar, og þó alveg sérstaklega ratsjárflugvélar eins og AWACS-vélarnar og þeir flugvellir og sá búnaður sem þeim tengist, eru og hljóta að verða alger forgangsskotmörk í átökum. Það vildi ég leiða menn í sannleikann um hér áðan með ræðu minni. Owen Wilkins, sem vinnur hjá SlPRI friðarrannsóknarstofnuninni í Stokkhólmi hefur orðað þetta svo, að NADGE ratsjárstöðvar og flugvellir fyrir AWACS-þotur væru svona u.þ.b. hættulegustu staðir í heimi á átakatímum — að Murmansk einni undanskilinni.