15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þetta er að vísu víðtækt mál sem hér er byrjað að ræða og þarf náttúrlega lengri tíma en eina, tvær mínútur til að gera upp hug sinn gagnvart einstökum atriðum þess og í víðu samhengi. En ég er í hópi þeirra manna sem telja ráðlegt að fara hægt í því að auka umsvif hersins og hernaðarmannvirkja í landinu. Nú er ég stuðningsmaður þessarar ríkisstj. og vil henni allt hið besta og einmitt þess vegna mundi ég vilja leggja það til-og mun gera það innan míns hóps þegar þar að kemur — að farið verði með gát í sambandi við þetta mál. Því að ef það er hugmyndin og áform hersins að fara fram á það að Íslendingar heimili nýjar radarstöðvar, byggingu nýrra radarstöðva í landinu, þá er alveg ljóst að það verður til þess að vekja hér upp stórfelldar deilur, deilur sem munu m.a. vafalaust snerta stjórnarflokkana báða tvo.

Og ég er ekki viss um að það verði til þess að auðvelda aðra landsstjórn ef svo þarf að fara.

Þess vegna vil ég að það komi skýrt hér fram að við framsóknarmenn í Norðurl. e. höfum hugleitt þetta mál, við höfum rætt það í okkar hópi, og þar hefur komið fram mjög mikil andstaða gegn því að leyft verði að byggja nýjar radarstöðvar í landinu, þ. á m. á Norðurlandi. Þess vegna tel ég, og segi það fyrst og fremst við samherja mína og samstarfsmenn í mínum flokki og innan ríkisstj., hyggilegra að fara með gát í þessu máli.