17.10.1983
Neðri deild: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

30. mál, almannatryggingar

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar nr. 71 frá 1971, með síðari breytingum, eða nánar tiltekið frv. til l. um breyt. á l. um fæðingarorlof.

Þetta litla frv. felur það eitt í sér að lagt er til að komið verði frekar til móts við foreldra fleirbura og fæðingarorlof lengt þegar um fleiri en tvö börn er að ræða. Það má ljóst vera að fleirburafæðingu fylgir verulegur kostnaðarauki fyrir fjölskyldu og að sjálfsögðu þeim mun meiri sem börnin eru fleiri. Reynslan hefur því sýnt að nauðsynlegt er að lengja fæðingarorlof nokkuð þegar börnin eru fleiri en tvö, líka vegna þess að því fleiri sem börnin eru því minni eru þau að jafnaði við fæðingu og þurfa gjarnan meiri umönnunar við.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta. Í núgildandi lögum er einungis ákvæði um að fæðingarorlof skuli lengjast um einn mánuð séu börnin fleiri en eitt. En hér er lagt til að það lengist um mánuð fyrir hvert barn sem fæðist umfram eitt. Kostnaðarauki fyrir ríkissjóð mun vera mjög lítill í þessum tilvikum, en lenging fæðingarorlofs í þessum tilvikum er vafalaust til hagsbóta fyrir þær fjölskyldur sem fá svo óvæntan viðauka við fjölskyldur sínar.

Ég vil leggja til, herra forseti, að þetta má fari til hv. heilbr.- og trn.