15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég held að þetta mál liggi ekki nægilega ljóst fyrir til þess að ástæða sé fyrir menn að lýsa afstöðu sinni til þess. Ég vildi aðeins rifja það upp, að á árunum 1954–55 voru reistar hér á landi fjórar ratsjárstöðvar á vegum bandaríska hersins, ein í Sandgerði, sem hefur starfað alla tíð síðan, önnur á Vestfjörðum, sem var lögð niður fyrir nokkru, ég man ekki fyrir hvað löngu, á Norð-austurlandi, á Heiðarfjalli á Langanesi, var ein stöð og sú fjórða á Stokksnesi við Hornafjörð. Ég held ég fari rétt með það, að í þessum stöðvum hafi samtals starfað rúmlega 400 Bandaríkjamenn, líklega 4–500 Bandaríkjamenn samtals, eða 110 manns í hverri stöð. Það voru lagðar niður tvær stöðvar, á Vestfjörðum og á Langanesi, þannig að eftir eru þá líklega um 220 Bandaríkjamenn í þeim tveimur stöðvum sem eru starfræktar nú.

Ég hef skilið það svo, að þær stöðvar sem nú er verið að tala um að reisa séu liður í kerfi sem verði þannig að það verði fjórar stöðvar, ef af þessu yrði, og í hverri stöð væru um 10–15 Íslendingar, þ.e. 40–60 Íslendingar mundu starfrækja þessar stöðvar. Í dag eru tvær stöðvar reknar af Bandaríkjamönnum með 220 Bandaríkjamönnum. Ég fæ því ekki séð að það sé um að ræða útfærslu á hernaðarkerfi með þeim aðgerðum sem hér er verið að tala um, eftir breytinguna verða um 40–60 Íslendingar við störf í þessum stöðvum í stað 220 Bandaríkjamanna sem starfa í þeim tveimur stöðvum sem nú eru starfræktar. Mér sýnist því að ef þetta er rétt, sem ég hef verið að ræða nú, sé málið hugsað á þennan hátt, vafasamt að hér sé um að ræða útfærslu á því kerfi sem nú er við lýði, hvað þá sem áður var.