15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var greinilega ekki vanþörf á því að inna hv. talsmenn Framsóknarflokksins eftir afstöðu í þessu máli.

Það hefur komið fram að hv. 1. þm. Norðurl. e. biður menn að fara varlega varðandi þau hernaðarmannvirki sem hér er verið að ræða um. Ég held að það sé alveg rétt, sem hér hefur verið bent á, að þessi mannvirki eru auðvitað aðeins hluti af heildarviðbúnaði Bandaríkjamanna á Íslandi. Það er ekki ætlun Alþb, að slíta þetta úr neinu samhengi. Við erum hér hins vegar í fsp.-tíma — ég segi þetta í tilefni af orðum hv. þm. Árna Gunnarssonar — að spyrja um þetta tiltekna atriði. Við erum ekki að slíta það úr neinu samhengi við annað og undirstrikum að auðvitað verður að horfa á allt í heild. flotáhöfn í Helguvík, flugskýli og radarstöðvar. Allt eru þetta greinar á meiði hernaðarviðbúnaðar Bandaríkjamanna hér á landi.

En í tilefni af orðum hv. þm. Árna Gunnarssonar vil ég að það komi hér skýrt fram að umr. um radarstöðvar fór aldrei fram í fráfarandi ríkisstj. og það komu engir pappírar um þau mál inn á borð þeirrar ríkisstj. né heldur, trúi ég, til þess utanrrh. sem þá var. Ég hygg að þetta mál hafi í raun og veru fyrst borið að eftir að hæstv. núv. utanrrh. tók við störfum.

Í umr. um þetta mál hefur hæstv. utanrrh. borið því við að nauðsynlegt væri fyrir sjálfstæða þjóð að fylgjast með flugi og fjarskiptum og m.a. siglingum umhverfis landið. Það er rétt. En sjálfstæð þjóð kostar því til sem þarf til að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi. Það felst m.a. í því að reka flugumferðareftirlit af hvaða tagi sem er, fjarskipti með þeim hætti sem talið er nauðsynlegt og landhelgisgæslu sem er fullburðug til að gæta okkar landhelgi. Þjóð sem vill heita sjálfstæð þjóð gætir þessara grundvallaratriða og hún leggur fram þá fjármuni sem þarf í því efni. Alþb. er að sjálfsögðu reiðubúið að leggja fram sína krafta í því efni að kosta fjármunum til á þessum sviðum. Þetta er spurning um pólitískan vilja og það hefur aldrei staðið á Alþb. að leggja fram sinn stuðning í þeim efnum.

Hins vegar hafa hér verið aðrir aðilar, herra forseti, sem hafa talið sæmandi fyrir þessa þjóð að leita til útlendinga með jafnsjálfsagða þætti nútímasamfélags og fjarskipti, flugumferðarstjórn og landhelgisgæslu. Það vill hæstv. núv. utanrrh, gera á sama tíma og hann hefur við orð nauðsyn þess að treysta sjálfstæði þessarar þjóðar.