15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vísa því á bug að orð mín áðan um hugsanlegt notagildi ratsjárstöðvar lýsi ákveðnum stuðningi við byggingu þeirra. Ég tók skýrt fram að afstaða hefði ekki verið tekin til þess í þingflokki framsóknarmanna, enda ekki legið fyrir nægar upplýsingar.

Ég vísa líka því á bug að í því felist aronska, eins og sagt var, að nota sér tilvist slíkra stöðva ef til kemur. Ég vek athygli á að ratsjárstöðin í Keflavík er notuð til að leiðbeina flugumferð um suðvesturhluta landsins. Vilja menn afþakka það og neita því? Og ég vek athygli á að ratsjárstöðin í Keflavík hefur frá því í fyrra verið notuð til að leiðbeina flugvélum inn á Reykjavíkurflugvöll. Vilja menn afþakka það? Ég er sannfærður um að afstýrt hefði verið alvarlegu slysi ef hún hefði verið notuð fyrr.

Út af stöðinni á Gufuskálum get ég upplýst að varnarliðið mun hafa haft áhuga á að leggja þá stöð niður. En því hefur verið harðlega mótmælt af íslenskum aðilum og fullyrt að þá væri íslenski fiskiskipaflotinn og skipaflotinn almennt í mjög erfiðri aðstöðu kringum Ísland. Því hafa, hygg ég, stjórnvöld lagst gegn því að þessi stöð yrði lögð niður. Ég leyfi mér að halda því fram að meðan við erum í Atlantshafsbandalaginu höfum við fullan rétt til að nota í okkar þágu þau mannvirki sem Atlantshafsbandalagið reisir hér á landi.