15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég stend fyrst og fremst upp út af umsögn hæstv. forsrh. um að það standi til að Gufuskálastöðin verði lögð niður og að íslenskir aðilar hafi mótmælt því. Ég hef áhuga fyrir því að vita hverjir þeir íslensku aðilar eru sem hafa mótmælt því. Það hefur verið vitað þó nokkuð lengi að Gufuskálastöðin mundi verða lögð niður, en þjónusta hennar mundi samt verða áfram. Við höfum séð það, Snæfellingar, að smátt og smátt hefur það verið að ske á Gufuskálum, sem stefnir að við Stokksnes og Keflavíkurflugvöll, að fólki í tengslum við stöðina hefur verið að fækka. Áður voru kannske 50 menn í tengslum við stöðina, en eru núna líkast til 20–30. Stöðin veitir þó enn þá sömu þjónustu. En ég hafði fréttir um að þetta hernaðarmannvirki muni verða flutt til Keflavíkur, þannig að lóranþjónustu hersins muni verða haldið áfram, og í framhaldi af því að þessi þjónusta ætti sér stað frá Keflavík yrðu notuð gervitungl.

Hv. þm. Friðrik Sophusson spurði mig um áðan hvernig ég vildi meta þjónustu Lóranstöðvarinnar á Gufuskálum gagnvart fiskiskipaflotanum á Íslandi og fannst ég gera lítið úr henni. Ég bendi á að um það leyti sem verið var að byggja upp Lóranstöðina á Gufuskálum höfðu fleiri aðilar áhuga fyrir því að koma upp svipuðu þjónustukerfi og lóraninn er hér við Ísland. Þá stóð Decca-kerfið til boða. Ég er ekki í neinum vafa um að ef Lóranstöðin hefði ekki komið hér upp á vegum hersins hefði annað hvort lóran komið upp á vegum okkar Íslendinga sjálfra eða Decca-kerfi. Við þurftum því ekkert að vera upp á það komnir að þiggja þessa þjónustu frá ameríska hernum.

Í sambandi við sem hv. 4. þm. Austurl. sagði hér áðan um fjölda manna á þessum stöðvum varð ég alveg hissa. Menn sem fylgjast gjörla með þessum málum ættu að gera sér grein fyrir því hvað raunverulega hefur verið að gerast. Vitaskuld hefur ekkert verið að gerast annað en það, að aukin sjálfvirkni hefur verið tekin í notkun. Hvort núna eru 10 menn við svona stöð eða 220 eða 110, eins og hv. þm. nefndi, breytir engu um eðli þeirra. Þetta eru nákvæmlega sömu hernaðarmannvirkin og þau voru þá. Að engu leyti hafa þau breyst.