15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

56. mál, norrænt sjónvarpssamstarf

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það eru 10–11 ár liðin síðan Norðurlandaráð fyrst gerði samþykkt um að kanna möguleikana á auknu samstarfi Norðurlanda á sviði hljóðvarps- og sjónvarpsmála. Á þeim tíma sem liðinn er hefur mikið verið rætt um þessi mál á samnorrænum vettvangi og margir hópar tæknimanna, embættismanna og ráðherra um þau fjallað. Nordsat-málið, eins og það er oftast kallað, hefur stundum verið haft í flimtingum og af ýmsum verið talið dæmigert um takmarkaðan áhuga af norrænni samvinnu. Ýmislegt kann að vera rétt í þeirri gagnrýni, þó að ég telji þar margt mælt af ókunnugleika. Hér er um stórmál að ræða fyrir Norðurtöndin, fyrst og fremst í menningarlegu tilliti, en það er jafnframt flókið mál tæknilega séð og allkostnaðarsamt. Inn í það fléttast margvíslegir hagsmunir, m.a. á iðnaðarsviði, því að eðlilegt er að þátttökulöndin, ekki síst þau sem ætlað er að axla meginhluta kostnaðar, hafi hug á að nýta Nordsat-áætlunina, ef af framkvæmd hennar verður, í þágu framleiðsluiðnaðar í heimalöndum sínum í stað þess að flytja megnið af búnaði inn frá öðrum löndum og jafnvel heimshlutum.

Sérstök athugun á þessum iðnaðarpólitíska þætti hófst síðla árs 1978 og segja má að hann sé enn mjög ríkjandi í athugunum og umræðum um Nordsat. Við þetta bætist að þróun á sviði gervihnatta og fjarskipta er afar hröð og menn eru hér að vinna að flóknu samstarfsverkefni í kapphlaupi við örar breytingar á tæknilegum forsendum og um leið varðandi áætlaðan kostnað. Nú stendur yfir tveggja ára athugunartímabil samkvæmt sérstakri samþykkt Norðurlandaráðs á þingi þess í mars 1982. Að henni standa fjögur Norðurlandanna en Danmörk stendur utan við og álengdar í bili. Íslenska ríkisstjórnin samþykkti 20. nóv. 1981 að standa að þessari athugun, sem talið var þá að kostaði okkur 500–600 þús. kr., og er það í samræmi við hlutdeild okkar í öðrum samnorrænum verkefnum á menningarmálasviðinu. Þingflokkur Alþb. samþykkti að styðja þá afstöðu sem ríkisstj. síðan tók og í ríkisstj. lagði ég fram sérstaka bókun í sambandi við afgreiðslu málsins 20. nóv. 1981, þar sem segir m.a.:

„Ég tel eðlilegt að ríkisstjórn Íslands samþykki fyrir sitt leyti þátttöku í ofangreindri athugun og tryggi sér þannig möguleika á að fylgjast með þróun málsins og hafa áhrif á hana eftir því sem föng eru á og talið verður samrýmast okkar hagsmunum í ljósi nánari athugana. Slíka þátttöku verður þó að binda því skilyrði að af hálfu íslenskra stjórnvalda verði strax ráðist í athuganir á áhrifum af hugsanlegri dreifingu útvarps- og sjónvarpsefnis og upplýsingamiðlunar frá samnorrænum gervihnöttum og öðrum hliðstæðum kerfum á útvarp og sjónvarp hérlendis,innlenda dagskrárgerð og kostnað við hana, höfundaréttarleg efni, sem og þá fjölmiðlun í heild sinni sem þessu fylgdi.

Einnig er brýnt að fyrr en seinna liggi fyrir grg. um tækniþróun á þessu sviði tengda við vídeómiðlun og eftirlit og umsjón af hálfu hins opinbera til að tryggja lágmarks neytendavernd. Þá er eðlilegt að kannaðir verði nánar framleiðslumöguleikar á sviði iðnaðar hér innanlands sem tengst gætu þessum málum. Sérstaklega verður þó í tengslum við þetta mál að taka ákvarðanir um að tryggja innlendu sjónvarpi og útvarpi hið fyrsta stórauknar tekjur til að bæta úr því ófremdarástandi sem þessar stofnanir nú búa við tæknilega og varðandi aðstöðu starfsmanna.“

Þetta var tilvitnun í bókun sem lögð var fram í nóv. 1981 af minni hálfu í ríkisstj. Á þessi atriði legg ég enn ríka áherslu um leið og ég ber hér fram fsp. varðandi norrænt sjónvarpssamstarf til hæstv. menntmrh.

Fsp. er svohljóðandi:

Hver er núverandi staða mála varðandi norrænt sjónvarpssamstarf, einkum með tilliti til eftirfarandi:

1. Hafa íslensk stjórnvöld tekið afstöðu til hugmynda um aðild að Telex-þætti Nordsat-kerfisins eða til tilboðs Norðmanna um afnot af Eutelsat-sendingum (ECS) til bráðabirgða?

2. Hvernig er háttað aðild íslenskra stjórnvalda að þeim athugunum sem nú fara fram milli Norðurlandanna varðandi sjónvarpssamstarf?

3. Hvenær gæti þurft að taka skuldbindandi afstöðu um aðild að norrænu sjónvarpssamstarfi og á hvaða stigi yrði málið lagt fyrir Alþingi?