15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

56. mál, norrænt sjónvarpssamstarf

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spurði hvort nota ætti þann frest sem boðinn hefði verið til frekari athugunar málsins. Ég skýrði frá því í minni ræðu, að ráðuneytisstjóri menntmrn. mundi koma við í Stokkhólmi og ræða við aðila þar út af þessu máli. Sjálfsagt er að fylgjast með þróun þessa máls og hafna ekki möguleikum sem kunna að vera okkur hagstæðir. En ég vil undirstrika það að eins og málið hefur staðið og eins og það stendur nú, þá er ekki grundvöllur, þá eru ekki nægilegar upplýsingar til að taka ákvarðanir af skynsemi um það að taka þátt í þessu. Það liggur ekkert fyrir um það hvernig kostnaður muni skiptast og fjölmörg mikilvæg atriði eru alls ekki nógu ljós, þannig að það er ekki hægt að láta setja sér mjög skamman frest og taka ákvörðun um það af skyndingu. Það hljótum við að sjá þegar við athugum hve allt þetta mál hefur verið ótrúlega lengi í umfjöllun s.l. áratug.

Það lítur út fyrir nú að Norðmenn hefji sendingar til olíuborpattanna á næsta sumri, svo að ljóst er að það atriði kemur miklu, miklu fyrr til framkvæmda heldur en Tele-x áætlun Svía. Undirbúningsþátturinn í Tete-x kemur ekki til framkvæmda fyrr en 1986. Og ekki hefur verið tekin nein afstaða til hinnar endanlegu Nordsat-áætlunar, því að það liggur ekki einu sinni fyrir hvort Tele-x eða eitthvað annað verður lagt til grundvallar. Þannig stendur það mál. En ég vil einungis víkja aftur að ECS-hnettinum eða þeirri leið sem Norðmenn munu að lokum velja til þess að koma sendingum sínum norður fyrir olíuborpallana. Það gæti alveg eins verið önnur leið sem þeir veldu að lokum. Ef af því verður að Íslendingar taki sendingar frá þeirri rás hér niður þá er auðvitað alveg ljóst að ýmis kostnaðaratriði þarf að skilgreina þegar þar að kemur og áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Það eru þá í fyrsta lagi einhvers konar leigugjöld, sem ég vona að yrðu ekki mikil, til eigenda hnattarins. Í öðru lagi gjald til rétthafa efnisins, sem í því tilviki væri m.a. norska ríkisútvarpið, og svo til eigenda höfundarréttarins. Þetta eru atriði sem hafa áhrif á kostnað okkar af þessu. Ég hef fram undir þetta haldið að þarna kynni að vera hagstæð leið og nokkuð fljótleg fyrir okkur, en hún mundi vitanlega ekki fela í sér allt það sem Nordsat-kerfið fæli í sér.

Ég vil bæta aðeins við, af því að báðar þessar aðferðir eru á undirbúningsstigi, ECS á sumri komanda eða næsta ári og svo Tele-x hnötturinn, að hvort tveggja mundi útheimta einhvers konar kapalkerfi ef við ætluðum að fá dagskrána í heild sinni. Og þá þykir mér eðlilegt að leiða hugann að því hvort við stöndum ekki andspænis því hvort sem er, innan ekki mjög langs tíma, að það hljóti að koma víðtækari kapalkerfi í landinu, ekki einungis vegna sjónvarps, heldur ýmiss konar annarrar þjónustu, annarrar upplýsingaþjónustu, tölvunotkunar, boðmiðlunar o.s. frv., sem þjóðir eru í vaxandi mæli að færa sér í nyt, bæði í fræðslu- og atvinnuskyni. Það kann því svo að fara að allir þeir hagsmunir haldist í hendur innan fárra ára. Þetta er atriði sem ég tel vert að hafa í huga.