15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

389. mál, málefni El Salvador á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi gerði grein fyrir fsp. sinni, en hún hljóðaði svo:

„Ef til afgreiðslu kemur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna tillaga varðandi málefni El Salvador sem í efnisatriðum er hliðstæð ályktun allsherjarþingsins á s.l. ári, mun þá afstaða Íslands til slíkrar tillögu verða óbreytt frá því sem var á síðasta allsherjarþingi?"

Það er óhætt að segja að þetta er allóvenjuleg fsp., en ég skal samt leitast við að svara henni og get gert það með þeim hætti að segja, að ef forsendur eru þær sömu og þegar umrædd tillaga var til afgreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna mun Ísland nú aftur samþykkja hana. Hins vegar hefur engin hliðstæð tillaga enn komið fram á yfirstandandi allsherjarþingi og því ekki vitað um texta slíkrar tillögu ef fram kæmi.

Það ætti að vera óþarfi að láta þess getið, að kannað er í hverju einstöku tilviki hverjar eru forsendur tillögu og aðstæður á þeim tíma sem tillaga er flutt áður en afstaða er til hennar tekin.