15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

66. mál, frestun Suðurlínu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. spyr um ástæðuna sem liggi að baki áformum ríkisstj. um að fresta því að ljúka við Suðurlínu þar til á árinu 1985. Sem svar við þessari fyrirspurn hv. þm. er frá því að segja, að það hefur engin ákvörðun verið tekin um að fresta því að ljúka við suðurlínu þar til á árinu 1985.

Hann spyr í öðru lagi hvaða fjárhagsleg rök mæli með slíkri frestun og þarfnast þessi liður ekki svars þar sem forsendur hinnar fyrri fyrirspurnar voru ekki fyrir hendi.

Þá kemur í þriðja lagi þessi spurning hans: Hvert er öryggi í afhendingu á raforku til notenda á Austurlandi á árinu 1984 og 1985 að mati Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins, ef tengingu Suðurlínu verður enn frestað?

Ég hef aflað upplýsinga frá Landsvirkjun og RARIK vegna þessarar fyrirspurnar og segir svo í svari Landsvirkjunar:

Frestun á lúkningu á Suðurlínu til ársins 1985 hefði það í för með sér að búast má við skertu öryggi á afhendingu raforku til notenda á Austurlandi veturinn 1984–1985. Þannig getur alvarleg bilun á Austurlínu frá Kröflu að Hryggstekk við verstu aðstæður þann vetur jafnvel leitt til nokkurs orkuskorts á Austurlandi meðan á viðgerð stendur og þá miðað við óbreytta aflgetu núverandi aflstöðva á Austurlandi frá því sem er í dag.

Um bilunarlíkur er vart hægt að spá, en við staurabrot og aðrar meiri háttar bilanir má reikna með að viðgerð geti tekið 2–6 sólarhringa, allt eftir aðstæðum. Áætlað er að mesta álag á Austurfjörðum veturinn 1984 til 1985 verði 40–45 mw., eftir því hvort loðnubræðslur eru starfræktar eða ekki, þegar rafskautakatlar sem hafa 100% varaafl eru ekki meðtaldir. Samanlögð hámarksaflgeta núverandi stöðva á Austurlandi er: Vatnsaflsstöðvar 13.6 mw. og dísilstöðvar 20.8, samtals 30.4 mw.

Ekki er þó ráðlegt að reikna með ekki meiri samanlagðri aflgetu en 30 mw. að vetri til og skortir því um 10–15 mw. til að hægt sé að anna eftirspurn við verstu aðstæður. Slíkum skorti yrði væntanlega að mæta með skömmtun, en hættu á skorti er að sjálfsögðu hægt að bægja frá með tímanlegri aukningu varaafls á Austurlandi.

Í svari Rafmagnsveitna ríkisins kemur þetta fram: Veturinn 1984–1985 er búist við að hámarksálag á Austurlandi verði 45 mw., fyrir utan rafskautakatla veitnanna á Höfn í Hornafirði og á Seyðisfirði. Álag á þeim verður 6–7 mw. og fyrir þá er fullt varaafl í svartolíukötlum. Ef ekki er gert ráð fyrir loðnubræðslu þegar álag er mest lækkar hámarksálag í 41 mw. Vegna minni afltoppa í línum þegar orkan er framleidd með staðbundnum varaaflsvélum er varaaflsþörfin þó nokkru lægri en hámarksálagið, eða 39–43 mw. eftir því hvort reiknað er með bræðslu eða ekki.

Þar til Suðurlínu verður lokið verður að mæta bilun á byggðalínu með varaafli á Austurlandi. Með því að hafa ávallt lágmarksvatnsforða fyrir Lagarfossvirkjun og Smyrlabjargarárvirkjun má reikna með 9 mw. afköstum hjá þeim í nokkra daga. Tiltækt varaafl í olíustöðvum er um 20 mw. Ef engin afföll verða á vélum vegna bílana og vatn endist má því reikna með því að heildarvaraafl á Austurlandi sé um 29 mw.

Ef Suðurlínu verður ekki lokið fyrir veturinn 1984–1985 og bilun verður t.a.m. á Austurlínu þegar álag er mest verður varaaflsskortur á Austurlandi 10–14 mw., eftir því hvort reiknað er með bræðslu eða ekki. Ef til þess kemur að anna verði raforkuþörf á Austurlandi með þessu varaafli verður raunverulegur skortur þó enn meiri en sem nemur þessum 10–14 mw. Þetta stafar af því, að álag á þeim svæðum sem njóta rafmagns á hverjum tíma eftir að skömmtun er hafin verður hærra en án skömmtunar. Ástæðan er t.d. sú, að öll hitun kemur þá inn á fullum þunga meðan menn eru að reyna að hita upp hús sín, sem kólnað hafa niður meðan afhending var rofin. Slík hækkun á álagi getur valdið yfirálagi á strengjum og spennum og gerir því alla skömmtun mjög erfiða.

Þá er rétt að benda á það, að ef t.d. slæm bilun verður á Austurlínu og aðstæður til viðgerðar verða slæmar getur slík viðgerð tekið jafnvel tvær til þrjár vikur. Við slíkar aðstæður er óvarlegt að reikna með að vatnsforðinn nægi til að halda virkjunum uppi með 9 mw. afköstum. Getur því varaaflsskortur á Austurlandi orðið enn meiri en 10–14 mw. undir þessum kringumstæðum. Af þessum ástæðum og öðrum mjög veigamiklum er ákveðið að ljúka byggingu Suðurlínu á næsta ári.