17.10.1983
Neðri deild: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

30. mál, almannatryggingar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann hefur hér flutt, og lít svo á að hann muni fylgja þessu kappsmáli eftir í ríkisstj. Það vekur hins vegar athygli mína, miðað við áhuga hans á síðasta þingi, að hann skuli ekki þegar hafa komið málinu á framfæri í ríkisstj. En í tilefni af þessari fsp., sem ég hef hér lagt fyrir hæstv. ráðh., er greinilegt að hann ætlar að bregðast hart og skjótt við því sem ég hef spurt hann um.

Hins vegar greindi hann ekki frá því hvert væri viðhorf hæstv. heilbr.- og trmrh. í þessum málaflokki, en þetta mál heyrir undir hann eins og kunnugt er vegna þess að fæðingarorlofið er inni í lögum um almannatryggingar.

Vegna þess að ríkisstj. hefur engu að síður gefið hér fyrirheit um að flutt verði á þinginu frv. til l. um breyt. á lögum um fæðingarorlof, þar sem réttur heimavinnandi kvenna verði sérstaklega tekinn inn, geri ég ráð fyrir að tækifæri verði til frekari umr. síðar á þinginu og ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en tel að fsp. hafi skilað þegar nokkrum árangri.