15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

66. mál, frestun Suðurlínu

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hér kom frá hæstv. ráðh. um að ljúka skuli lagningu Suðurlínu á árinu 1984, en áður höfðu komið fram staðhæfingar um hið gagnstæða uppi hafðar í málgögnum ríkisstj. um það leyti sem fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hafði verið fram lögð og ekkert það í þeirri áætlun sem sýndi að lagning línunnar væri ráðin á komandi ári.

Mér kom satt að segja mjög á óvart ef það hefði átt að verða niðurstaðan og hæstv. ráðh. hefði fallist á að ekki yrði lokið við þetta mannvirki hið fyrsta og hef ég þegar gagnrýnt þá ákvörðun hans að fresta tengingu línunnar á þessu ári.

Nú hefur það hins vegar gerst, og ég treysti því að þar standi ríkisstj. að baki þannig að ekki verði breyting á, að frá þessari frestun á komandi ári hefur verið horfið og lúkning línunnar ráðin. Þetta eru góð tíðindi fyrir Austfirðinga, en ekki eingöngu fyrir þá því að hér á allt landið í hlut. Lokun á byggðalínuhringnum er stórfellt öryggisatriði fyrir nánast landsmenn alla, þó að það komi nokkuð misjafnlega við sögu í einstökum landshlutum. Hefði verið hið mesta óráð að draga þessa framkvæmd, ekki aðeins út frá öryggissjónarmiði heldur einnig frá fjárhagssjónarmiði, og var óráð að ljúka ekki tengingu línunnar fyrir þennan vetur, eins og stefnt hafði verið að af fráfarandi ríkisstj.

Ég þakka hæstv. ráðh. yfirlýsingu hans og vænti að hún sé á þeim grunni reist að ekki verði frá þessu horfið.