15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

394. mál, bankaútubú

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Þessi fsp. lýtur að afturköllun á leyfum til þeirra útibúaafgreiðslna sem ekki hafa hafið starfsemi. Þykir mér því rétt að gera grein fyrir hvernig þau mál standa nú.

Tvö þessara útibúa hófu starfsemi vegna yfirtöku banka á starfandi sparisjóðum. Starfsemi þeirra er því í fullum gangi eins og var áður en leyfið var veitt. Auk þess hafa fjórar aðrar afgreiðslur verið opnaðar. Áætlað er að tvær afgreiðslur opni á næstu vikum, en ein á fyrri hluta næsta árs, og um tvær afgreiðslur liggja engar áætlanir fyrir. Afturköllun á leyfum til þessara útibúa og afgreiðslna á sér ekki stoð í lögum. Skiptir engu þótt ekki liggi fyrir í tveimur tilvikum hvenær ráðgert er að starfsemi hefjist. Leyfisveitingar af því tagi sem hér um ræðir eru ívilnandi stjórnarathafnir, þ.e. stjórnarathafnir er veita leyfishafa réttindi sem hann hafði ekki áður. Í íslenskum rétti er það aðalreglan að stjórnvöldum sé það eigi í sjálfsvald sett hvort þau afturkalli að óbreyttum aðstæðum ívilnandi stjórnarathafnir nema slíkt sé sérstaklega heimilað í lögum. Hvorugt þeirra skilyrða sem heimila afturköllun, breyttar aðstæður eða lagaheimild, eru til staðar.

Svar mitt til hv. fyrirspyrjanda er því að mig sem ráðh. bankamála brestur lögum samkv. heimild til að afturkalla þau leyfi sem veitt voru í tíð fyrrv. ríkisstj. til að opna ný bankaútibú eða bankaafgreiðslur.