15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

394. mál, bankaútubú

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af því sem kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda og svo hv. varaþm. Árna Gunnarssonar, þá vil ég vekja athygli á því að það er starfandi nefnd sem endurskoðar nú bankalöggjöfina og ég á von á að hún ljúki störfum innan skamms tíma. Þá gefst þm. tækifæri á því að ræða með hvaða hætti þeir telja að þessum málum verði best komið í framtíðinni.

Ég get upplýst það hér, að ég hef ritað þeim bönkum bréf sem heyra til viðskrn., en það eru ekki allir bankarnir, eins og þm. er kunnugt, og óskað eftir því að frekari verksamningar verði ekki gerðir um byggingar á vegum þessara stofnana.

Hv. varaþm. Árni Gunnarsson vék sérstaklega að Seðlabankabyggingunni, en umr. fóru hér fram fyrir nokkru um þáltill. sem hér var flutt þess efnis að frekari framkvæmdir en verksamningar segðu til um yrðu stöðvaðar. Það eru að sjálfsögðu ekki í gangi neinar aðrar framkvæmdir en verksamningar segja til um. Mér vitanlega stendur ekki til að gera einhverja slíka viðbótarverksamninga.

Ég get tekið undir það sem þessi hv. þm. hafa sagt í sambandi við byggingar og fjárfestingar hjá peningastofnunum. Hitt liggur ljóst fyrir að það eru ekki aðeins stjórnendur þessara stofnana, heldur eru það ýmsir viðskiptamenn sem hafa gert kröfur til þeirra og sveitarstjórnir sent ályktanir. Það er t.d. ekki nema vika síðan mér barst beiðni um útibú og undirskriftir voru frá stórum hluta íbúa þess byggðarlags. Þannig hjálpast allt að í þessum efnum.

Ég hef ekkert farið dult með það sjálfur, að þessi útibúaskömmtun er mér ekki að skapi. Ég hef unnið að því að reyna að finna fyrirkomulag sem gerði kröfu til viðskiptastofnananna í sambandi við fjárfestingar, hvort heldur væri í sambandi við þær skrifstofur sem fyrir eru eða nýjar skrifstofur, þannig að hvort tveggja sé krafa um ákveðna eiginfjárstöðu miðað við niðurstöðu efnahagsreiknings, svo og hitt, hversu hátt hlutfall af eigin fé viðkomandi stofnunar sé heimilt að hafa í fjárfestingu. Ég held að þetta sé það skynsamlegasta sem hægt væri að gera.

En ég vík svo líka að því, að ég er sannfærður um að það vandamál sem við höfum verið að glíma við stafar e.t.v. að einhverju leyti af því að málefni bankanna heyra ekki undir eitt og sama rn., þannig að hér er um að ræða þrjá leyfisveitendur en ekki einn. Það er ljóst að með nýrri bankalöggjöf verður þessu breytt og þó menn treystist ekki til að finna skynsamlega reglu til að starfa eftir verði a.m.k. veiting útibúa í höndum eins og sama ráðh. Það held ég að sé það skynsamlegasta.

Ég vildi láta þessa getið út af þeim fsp. sem hér komu fram og ég vænti þess að þegar þessum umr. lýkur hér á Alþingi, — en mér sýnist í dagskránni að við eigum enn einn fsp.-tíma eftir í sambandi við þessa hluti — verði þessi mál a.m.k. komin þannig og þetta hafi leitt til þess að skynsamlegri vinnubrögð verði upp tekin.