15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

394. mál, bankaútubú

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það hefur verið rætt mikið um það að undanförnu hversu miklar fjárfestingar eru af hálfu bankanna í landinu, og sérstaklega hefur Seðlabankabyggingin farið í taugarnar á mönnum. Sumir hv. þm. töluðu jafnvel eins og Seðlabankinn þyrfti lítið sem ekkert húsnæði og einn þm. hélt því fram að honum dygði eins og eitt horn í bókasafninu í Þverholti þar sem þeir eru með myndarlegt bókasafn og listmuni.

Hins vegar hafa menn ekki haft eins miklar áhyggjur af því hversu margar og dýrar og flottar byggingar eru reistar hér um allt höfuðborgarsvæðið og út um alla landsbyggðina fyrir viðskiptabankana. Þeir peningar sem hafa farið fil þess eru auðvitað miklu meiri að vöxtum heldur en nokkurn tíma á eftir að fara í Seðlabankann. Og athugasemdir af þessu tagi og langanir hinna ýmsu þm. til að stöðva Seðlabankabygginguna koma allt of seint. Af hverju gerðu þessir sömu aðilar ekki athugasemdir um þetta fyrir eins og fimm árum? Eða þegar hinir sömu aðilar höfðu viss tök á þáv. ríkisstj.? Það er einkennilegt að þurfa alltaf að koma of seint, sleppa tækifærinu þegar þeir hafa það og byrja svo að veina til þess að skamma þá sem við völd sitja.

Herra forseti. S.l. liðlega tuttugu ár hefur sparifé landsmanna í viðskiptabönkunum dregist mjög saman. (Forseti hringir.) Herra forseti. Þetta er nú býsna stutt. (Forseti: Já, það eru aðeins tvær mín. og þær eru nú orðnar röskar.) Ég skal vera mjög fljótur með afganginn, en ég vonast til þess að ég megi samt taka til máls aftur. Sparifé landsmanna hefur dregist saman, kannske eitthvað nálægt helmingi síðan 1961, en á sama tíma hefur bankakerfið þanist út og sífellt er verið að smíða hér bankaútibú út um allt til þess að slást um það sparifé sem sífellt fer minnkandi.

Herra forseti. Tíminn er liðinn. Ég hefði gjarnan viljað ræða svolítið meira um þessa hluti við ykkur hér, en ég fagna því að það er þó komið í yfirlýsingu ráðh. að bankarnir verði settir undir eitt ráðuneyti, séu ekki í viðskrn., landbrn. og í iðnrn., en það var einmitt úr iðnrn. sem síðasta bankaútibúið kom.