16.11.1983
Efri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en mótmælt því sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði hér, að það hefði verið ótímabært að fella niður þann skatt sem hér um ræðir og er aukaskattur á íslenska ferðamenn. Ég reikna með að það sé rétt hjá honum að eflaust hefðu ekki orðið neinir erfiðleikar á því fyrir fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. hæstv. fjmrh. að fá þetta gjald framlengt. En ég vil segja að það var ekki stefna þessarar ríkisstj. að framlengja þennan skatt. Það var tímabært að fella hann niður vegna þeirra tímamóta að það var ársþing Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og á þeim tímamótum var talið rétt að Ísland gengi í hóp þeirra þjóða sem undirrituðu þann sáttmála og ekki höfðu neinar undanþágur sérstaklega frá afþjóðastofnunum, þannig að Íslendingar gætu verið einu sinni eins og allir aðrir, en ekki alltaf sér á báti á þessum þingum og fundum. Þessi tímamót voru notuð, enda þessi skattur mjög ósanngjarn í alla staði. Ég tók það fram hér þegar ég lagði fram frv., en þetta er stjfrv., að ferðamenn sem hingað koma sæju tvöfaldan gjaldeyri. Annar heitir ferðamannagjaldeyrir, sem þeir fá ekki að nota, og hins vegar þegar þeir fara úr landi og skipta peningum skilja þeir ekki heldur hvers vegna þeirra hlutur er skertur miðað við þann skilning sem þeir leggja í það sem þeir lesa.

Í annan stað er það rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að ekki var tekinn upp annar skattur í staðinn. Það var farið í það að reyna að draga saman í ríkisútgjöldum. Ekki veit ég hver árangurinn verður þegar upp er staðið, en það verður allavega unnið að því. Ég vona að við getum mætt tekjutapi af þessum skatti með þeim samdrætti sem þegar í stað var hafinn.

Ég verð nú að segja alveg eins og er að rökin eða rökleysan sem fram koma í þeirri fullyrðingu að íslenskir ferðamenn skuli hundeltir alla leið til útlanda til að ná af þeim söluskatti meðan þeir eru í hvíldarfríi annars staðar er einhver sú furðulegasta fullyrðing sem ég hef nokkurn tíma heyrt, að íslenskir ferðamenn eigi að borga þennan aukaskatt vegna þess að þeir njóti forgangs í söluskatti meðan þeir dvelja í öðrum löndum, greiði ekki söluskattinn hér heima meðan þeir eru í öðrum löndum. Ég get þá huggað hv. 3. þm. Norðurl. v. hvað þetta varðar. Það er nokkurt jafnvægi í því hvað margir erlendir ferðamenn koma hingað og íslenskir ferðast til útlanda. Hinir erlendu ferðamenn borga þá söluskatt af því sem þeir njóta hér á meðan, ef það felst einhver huggun í því fyrir hv. þm.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. segir að líklega verði ríkissjóður rekinn með tapi út þetta ár. Sem fyrrv. hæstv. fjmrh. á hann að vita að það verður ekki hjá því komist að ríkissjóður verði rekinn með tapi út þetta ár þegar allir sjóðir, bókstaflega allir sjóðir, voru tómir í apríl/maí. Fjármagn sem átti að duga út allt árið 1983 var búið vegna þess að fjárlögin sjálf voru byggð á röngum forsendum. Það er því ekki vegna þess að ferðagjaldeyririnn sem slíkur væri felldur niður að ríkissjóður er rekinn með tapi. Það gæti hugsanlega orðið meira tap vegna þess að ríkissjóður er ekki lengur rekinn með síendurteknum erlendum lántökum til að standa undir venjulegum innflutningi til þess að ná ríkissjóðstekjum, gervitekjum. Fyrrv. hæstv. fjmrh. veit að það var komið hátt á annað þús. millj. kr. yfirdráttur í Seðlabanka Íslands 26. maí, þegar ríkissjóður er tekinn út. Þannig er alveg rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að ríkissjóður er rekinn með tapi. Annað væri óeðlilegt. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þegar ný ríkisstj. tekur við þvílíku búi sem þarna var tekið við komi hún því öllu í jafnvægi um leið og hún sest í stólana.

Hitt er annað mál, að ég er ekki að kenna fyrrv. hæstv. fjmrh. um nokkurn skapaðan hlut hvað þetta varðar. Þetta er það ástand í þjóðfélaginu sem hefur skapast og hvorki hann né aðrir ráðherrar réðu við. (Gripið fram í: Óstjórn.) Ég skal ekkert um það dæma, en allavega er þetta vandi sem fyrrv. hæstv. fjmrh. var að glíma við og ég hef tekið að mér að glíma við tímabundið. Ég er alls ekki í minni vanda en hann var í á sínum tíma.

En ég vil samt sem áður efast um þá fullyrðingu, sem kemur fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að þessi ráðstöfun, að fella niður ferðagjaldeyri, verði til þess að verulega minni gjaldeyrir verði seldur á síðustu mánuðum ársins. Það getur verið ef hann á eingöngu við ferðagjaldeyri. Það segir sig sjálft að alltaf er minna selt af ferðagjaldeyri síðustu mánuði ársins en aðra mánuði vegna þess að fólk ferðast minna yfir jólamánuðina og það á minni peninga til að nota í ferðalög vegna jólainnkaupa og ýmislegs annars. En yfirleitt er miklu meiri gjaldeyrissala síðustu mánuði ársins en aðra mánuði vegna jólainnkaupa verslunarfyrirtækja.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fjh.- og viðskn. skjóta og góða afgreiðslu á þessu máli.