16.11.1983
Efri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka það fram hér, að ég er í sjálfu sér ekki meðmælt sérstöku gjaldi á ferðapeninga því að síst af öllu vil ég torvelda landsmönnum að leggjast í ferðalög, skoða heiminn og koma til baka reynslunni ríkari og fróðari um siðu og háttu annarra þjóða. Og þá, fyrst við erum að tala um ferðalög, er rétt að minna á að það er hefð fyrir því hér á landi að menn skoði sig um í heiminum, einkum og sér í lagi á sínum fyrstu fullorðinsárum. Í því sambandi má minna á að upprunaleg merking orðsins heimskur í íslensku er sá sem heima hefur setið. Þannig eru mýmörg rök fyrir því að gera mönnum mögulegt að ferðast til annarra landa.

Á hitt er hins vegar að líta, að þegar jafnilla árar í íslenskum þjóðarbúskap og nú er og margir landsmanna búa við svo kröpp kjör að menn eiga vart til hnífs eða skeiðar teljast ferðalög því miður munaður sem þjóðfélagið sem heild hefur ekki efni á að styrkja. Þjóðarbúskapurinn hefur ekki efni á að afnema þá tekjulind sem hér er um að ræða. Og ef út í það er farið, eins og hv. þm. Magnús H. Magnússon kom inn á hér áðan, að fella niður gjöld og skatta á annað borð, þá tel ég að það hefði verið nær að fella niður gjöld af einhverju því sem telst til lífsnauðsynja í þessu þjóðfélagi. Þeir verst settu hér á landi hafa lítið við niðurfellingu gjalds á ferðamannagjaldeyri að gera. Ég er því mótfallin þessu frv. eins og það liggur fyrir.