16.11.1983
Efri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég ætla að geyma mér til síðari tíma að ræða við hæstv. fjmrh. um afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Ég hygg að það sé miklu skynsamlegra fyrir okkur að ræða þau mál þegar tölur liggja fyrir um hvernig útkoman hefur verið á þessu ári. En ég minni hann nú samt á það, að í grein sem ég ritaði um þessi mál í júnímánuði s.l. benti ég á að afkoma ríkissjóðs var í maílok, þegar stjórnin sem sat á undan þeirri sem nú situr fór frá, síst lakari, þótt um halla væri að ræða á skuldasöfnun hjá Seðlabankanum eins og svo oft áður, en meðaltaltalið undanfarin tíu ár. Það sem kannske villti mönnum sýn var að afkoman var sérstaklega góð á árunum 1980–1982. Þá var verulegur afgangur. Ef menn eru að miða við hallalausan rekstur eða rekstur sem stendur í járnum hefði ekki verið þörf á að hafa afkomuna jafnhagstæða í maílok og hún hafði verið þrjú undanfarin ár.

Afkoman á árinu 1982 var á þann veg, að afgangur nam um 850 millj. kr. þegar upp var staðið. Ég hygg að sú upphæð sé á verðgildi ársins 1983 töluvert mikið á annað þúsund millj. Ég hef þá tilfinningu fyrir þessum hlutum, þó að það eigi að sjálfsögðu eftir að koma í ljós, að ef frá eru dregnar ákvarðanir núv. ríkisstj., ýmist um minnkun tekna vegna þess að tekjustofnar hafa verið felldir niður eða aukningu útgjalda vegna þess að ákvarðanir hafa verið teknar t.d. um auknar niðurgreiðslur og annað það sem ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um á seinustu vikum og mánuðum frá því að hún tók við, sé ekki fjarri lagi að rekstur ríkissjóðs standi í járnum á þessu ári. En þetta er auðvitað atriði sem við getum betur rökrætt þegar tölur liggja fyrir.

Þegar menn tala um það, eins og hæstv. fjmrh. gerði hér áðan, að orðið hafi mjög verutegur samdráttur í innflutningstekjum og af því stafi vandi ríkissjóðs, þá er það auðvitað alveg hárrétt. Þetta er kjarni málsins. En auðvitað er rétt að hafa líka í huga að þegar við sömdum fjárlög haustið 1982 höfðum við þetta í huga. Við gerðum ráð fyrir mjög verulegum samdrætti í innflutningstekjum og raunar í söluskattstekjum miðað við annað. Það var miðað við forsendutöluna 42%, þegar fjárlögin voru gerð og samþykkt, en forsendutölur varðandi söluskatt og innflutning voru miklu lægri, sennilega einhvers staðar í kringum 30%. Þannig var þegar við gerð fjárlaganna tekið tillit til þessa.

Það er ekki tími nú og ekki eðlilegt að ræða frekar um afkomumál ríkissjóðs. Ég er ekki að segja að þessar 40–50 millj., sem ríkissjóður missir með afnámi þessa gjalds, séu sú stóra upphæð sem öllu veltir, en þetta er ein af upphæðunum sem veldur því, að ég hygg, að ríkissjóður kemur út með tapi á þessu ári.