16.11.1983
Efri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé sameiginlegt áhugamál allra flokka að efla innlenda sparifjármyndun og ég hygg að enginn geti haft neitt á móti því, eins og málum er nú háttað og vitað að erlend lántaka er mjög víðtæk, að reynt sé til hins ýtrasta að selja skuldabréf á innlendum markaði til þess að sem mest fé fáist innanlands til þeirra hluta sem afla þarf fjár til. Af þessu leiðir að afstaða manna hlýtur atmennt að vera jákvæð til frv. af þessu tagi.

Afstaða okkar sem skipum minni hl. fjh.- og viðskn. er að því leyti tvímælalaust jákvæð að við viljum ekki standa gegn því að hæstv. fjmrh. fái heimild til að selja nýjar tegundir ríkisskuldabréfa, ef það getur gott af sér leitt. Hitt er annað mál, að það eru nokkur óvissuatriði tengd þessu máli sem hafa kannske ekki fengið nægilega umræðu hér í þinginu.

Í fyrsta lagi eru áreiðanlega fleiri en ég sem átta sig ekki almennilega á því með hvaða hætti hæstv. fjmrh. ætlar að selja víxla samkv. tilboðum, eins og kveðið er á um í 2. mgr. 2. gr., hvort hann hefur þá kannske hugsað sér að selja víxlana með mismunandi miklum afföllum, eins og stundum er gert, eða hvort hann getur jafnvel hugsað sér að tilboðin komi öll fram á sama tíma, eins og þegar um uppboð er að ræða, og menn bjóði til skiptis í ríkisvíxlana og sá hreppi hnossið sem hæst býður. Orðalagið á 2. mgr. 2. gr. býður upp á að menn vetti fyrir sér þessum fyrirætlunum í þessum dúr, en kannske er það eitthvað allt annað sem hæstv. fjmrh. hefur í huga og væri þá gott ef hann upplýsti menn um það.

Vissulega er það von okkar allra að hæstv. fjmrh. geti selt skuldabréf án þess að þurfa að kosta of miklu til. Í því sambandi má vissulega minna á að ríkissjóður hefur stundum gefið út skuldabréf sem hafa verið með slíkum kjörum að jafna mætti til verutegra affalla, eins og t.d. þegar spariskírteinalán voru gefin út á sínum tíma með fullri verðtryggingu og 7% vöxtum. Það voru kjör sem mér þóttu á sínum tíma allt of girnileg og allt of glæsileg til að það næði nokkurri átt að bjóða slíkt á almennum markaði, enda runnu þessi bréf venjulegast út á nokkrum klukkutímum þegar þau voru til sölu.

Í þessu tilviki er svolítið annað uppi á teningnum, vegna þess að nú ætlar hæstv. fjmrh. að bjóða skuldabréf til sölu með þeim kjörum að þau verði gengistryggð. Mér hefur skilist að það ætti að reyna að telja almenningi trú um að ef hann keypti gengistryggð bréf væri verið að bjóða honum einhver alveg sérstök kjör, miklu betri kjör en áður hefðu verið í boði með sölu svokallaðra spariskírteina á almennum markaði. Ef einhver stendur enn í þeirri trú að gengistryggð bréf bjóði upp á betri kjör en verðtryggð bréf vildi ég mega koma hér með nokkrar upplýsingar sem sanna hið gagnstæða. Ég minntist á þetta við 1. umr. málsins og vakti þá athygli á því að almenna reynslan hér á landi væri sú að gengistrygging væri að sjálfsögðu miklu smátækari en verðtrygging og reynslan hefði sýnt það um langt skeið og þess vegna skildi ég ekki almennilega hvernig á því stæði að mönnum dytti í hug að bjóða fólki skuldabréf með gengistryggingu þegar fólk gæti líka keypt bréf með verðtryggingu. Ég heyrði þá að ekki voru allir vissir um að ég færi með rétt mál. Mér þykir því hlýða nú við 2. umr. málsins að gefa frekari upplýsingar um þessa hlið þess.

Ef flett er upp í Hagtölum mánaðarins og athugað hvað gengisvísitala hefur hreyfst mikið á árabilinu 1972—1980 munu menn sjá að gengisvísitalan sem er miðuð við meðalverð gjaldeyris hefur hækkað 6.4 sinnum á þessu tímabili. Vísitalan 1980 var 6.4 sinnum hærri en 1972. En ef aftur á móti er litið á lánskjaravísitöluna á sama tímabili, þá var hún 14.3 sinnum hærri 1980 en 1972. Hún hafði hækkað miklu örar á þessu átta ára tímabili en gengi erlends gjaldeyris. Þetta kemur ekkert á óvart. Svona hefur þetta verið í marga áratugi hér á landi.

Nú kunna menn kannske að segja að ég hafi tekið ár þegar sérstaklega stendur á og nær hefði verið að taka tvö seinustu ár, þegar dollarinn hefur hækkað svo gríðarlega í verði sem raun ber vitni. Og það er alveg rétt, að þessi hlutföll eru önnur seinustu tvö árin, vegna þess að dollarinn hefur hækkað afbrigðilega mikið í verði á undanförnum tveimur árum. Sennilega verður að leita langt til jafnaðar um svo stórfelldar breytingar á helstu gjaldmiðlum þjóða heims, eins og orðið hafa nú á seinustu tveimur árum. En vegna þess að dollarinn er langmikilvægasta mynteiningin, sem við Íslendingar notfærum okkur, vegur hann mjög þungt í meðalgenginu. Þetta hefur auðvitað sín áhrif. Gengisbreytingar hafa orðið hlutfallslega miklu meiri seinustu tvö árin en áður var. En samt sem áður, jafnvel þó að við tökum þetta afbrigðilega tímabil, seinustu tvö árin, er staðreynd að lánskjaravísitalan hefur eftir sem áður vinninginn. Á tímabilinu 1980–1982 hækkaði gengisbreytingarvísitala úr 184.5 stigum í 407.3, en lánskjaravísitala hækkaði úr 164 stigum í 373 stig. Gengisbreytingarvísitalan var 2.21 stigi hærri við lok tímabilsins en við upphaf þess, en lánskjaravísitalan var 2.27 stigum hærri við lok tímabilsins en upphaf þess. Þarna skeikar ekki miklu, þessar tvær vísitölur eru nokkurn veginn alveg samhliða á þessu tveggja ára tímabili, en þó hefur lánskjaravísitalan vinninginn. Og ef við þá tækjum tímabilið frá 1972–1982, 10 ára tímabil, eins og er auðvitað eðlilegt að gera þegar verið er að ræða um langtímalán, þarf enginn að efast um að það er auðvitað verðtryggingin, þessi venjulega innlenda verðtrygging, lánskjaravísitalan, sem hefur margfaldlega vinninginn.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég skildi satt að segja ekki og skil ekki enn, hvaða happadráttur það á að heita fyrir sparifjáreigendur í landinu eða væntanlega sparendur að geta nú keypt skuldabréf með gengistryggingu, því að þeir mega fylgjast illa með ef þeir gera sér ekki grein fyrir því að það eru miklu lakari kjör en í boði hafa verið.

En þetta er kannske ekki aðalatriði mátsins. Aðalatriði málsins er það sem vikið er að í áliti minni hl. fjh.og viðskn., sem ég vil hér gera nánari grein fyrir. Það hefur nefnilega komið í ljós við umr. um þetta mál, að fé það sem hér um ræðir á að ganga til Byggingarsjóðs ríkisins til þess að honum verði kleift að uppfylla gefin fyrirheit um viðbótarlán til húsbyggjenda. Hæstv. fjmrh. hefur endurtekið sagt, að takist ekki að selja þessi skuldabréf verði húsbyggjendur að bíta í það súra epli að það séu ekki fjármunir fyrir hendi og það verði því ekki veitt nein viðbótarlán eins og búið var að lofa. Ég er ansi hræddur um að það hafi hríslast heldur betur kalt vatn niður eftir bakinu á ýmsum húsbyggjandanum sem hafði treyst á að eitthvað væri að marka það sem hæstv. núv. ríkisstj. lét frá sér fara í þessum efnum og þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið mundu standast í raun og það væri ekki bara sölumennska hæstv. fjmrh. sem réð úrslitum um hvort mönnum yrði bjargað með fjármál sín nú fyrir jólin, heldur væri það klárt og kvitt að menn fengju þessi viðbótarlán, sem munu nema helmingi af áður veittum lánum. Ég hygg satt að segja, miðað við þær yfirlýsingar sem hæstv. félmrh. hefur gefið, að það sé ætlunin af hans hálfu að svo verði, en yfirlýsingar hæstv. fjmrh. hafa ekki verið samhljóða yfirlýsingum hæstv. félmrh. Þar hefur hvað rekist á annars horn. Því teljum við, sem skipum minni hl. fjh.og viðskn., óhjákvæmilegt að taka af allan vafa um að það eigi að greiða þetta fé út. Við höfum því flutt brtt. sem fram kemur í nál. á þskj. 112, þar sem segir skýrt og ákveðið:

„Það fé, sem fæst með sölu skuldabréfa, sbr. 1. og 2. málsgr. þessarar greinar, skal endurlánað húsbyggjendum sem viðbótarlán úr Byggingarsjóði ríkisins.“

Það á sem sagt ekki að vera háð sölumennskuhæfileikum hæstv. fjmrh. hvort af þessu verður. Það skal gera þetta. Og við bendum á ráðið til þess:

„Seðlabanki Íslands skal lána Byggingarsjóði ríkisins þessa upphæð, 200 millj. kr., til bráðabirgða. Takist ekki að selja skuldabréf samkv. frv. þessu eins og ráðgert er, skal bráðabirgðalán Seðlabankans gert upp með innlendri fjáröflun ríkissjóðs á árinu 1984.“

Auðvitað kemur það ekki í ljós fyrr en undir jól hvernig til tekst með þessa skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs, hvort hún gefur ríkissjóði verulegt fjármagn eða ekki, en lánin þarf að greiða út þegar á næstu dögum og vikum. Það má ekki lengur dragast og húsbyggjendur geta ekki lengur beðið eftir því. Því er augljóst mál að Alþingi verður að taka af skarið í þessum efnum. Það verður að slá því föstu hvers húsbyggjendur mega vænta.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vænti þess mjög fastlega að allir hv. þdm. geti stutt þessa brtt., sem gengur alls ekki í berhögg við stefnu núv. ríkisstj., er staðfesting á stefnu hennar og er alveg sérstakur stuðningur við margítrekuð ummæli hæstv. félmrh.