16.11.1983
Efri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur það færst talsvert í aukana að ríkissjóður gefi út ríkistryggð skuldabréf og noti fjármagnið sem þannig hefur fengist til hinna margvíslegustu framkvæmda. Það fór nú einu sinni svo fyrir franska ríkinu að það hafði gengið svo langt á þessari braut að það þurfti að gefa út ríkistryggð skuldabréf til að greiða hin ríkistryggðu skuldabréfin. Ég tel þessa stefnu ríkissjóðs ekki rétta í grundvallaratriðum. Hún er á móti þeirri réttlætiskennd sem ég tel mig bera í brjósti gagnvart því hvernig fólk getur ávaxtað fjármuni sína.

Á undanförnum árum hefur það gerst, að ríkissjóður hefur verið í beinni samkeppni við bankakerfið með útgáfu ríkistryggðra skuldabréfa. Fólk hefur haft mun meiri hagnað af því að kaupa þessi ríkistryggðu skuldabréf en að leggja fjármagn sitt í banka. Þetta er auðvitað öfugþróun. Ég er sannfærður um það, samkv. upplýsingum sem ég hef frá þeim mönnum sem m.a. selja þessi bréf, að hér hafi átt sér stað meiri fjármagnstilfærsla í þjóðfélaginu en dæmi eru til um. Þeir segja mér að það sé tiltölulega fámennur hópur sem kaupi mest af þessum bréfum. Það er verslað með þessi bréf á ýmsan hátt. Og þessi bréf hafa gert það að verkum, vegna þess hve góð kjör hafa verið á þeim, að hinir efnaðri hafa orðið efnameiri. Þ.e. það eru aðeins peningamennirnir sem hafa haft ráð á því að notfæra sér það að kaupa þessi bréf. (Fjmrh.: Bankarnir.) Bankarnir hafa keypt þau líka. Ég vil þess vegna eindregið vara við þessari aðferð sem fjáröflun fyrir ríkissjóð. Ég tel þetta ekki vera rétt.

Það væri mjög fróðlegt fyrir hv. dm. að fá um það eitthvert yfirlit frá fjmrn. og ef hæstv. fjmrh. gæti beitt sér fyrir því að fá yfirlit um upphæðir óinnleystra skuldabréfa ríkissjóðs, hvað þar eru á ferðinni miklar fjárhæðir sem ríkissjóður á eftir að innleysa og yfirleitt hvernig ríkissjóður ætlar sér að gera það á næstu árum. Það kæmi mér ekki á óvart þótt staðan væri slík, að ríkissjóður yrði að gefa út flokk ríkistryggðra skuldabréfa til að geta greitt þau skuldabréf sem ríkissjóður hefur þegar gefið út. Þá er þetta orðinn vítahringur sem ekki nokkur leið er að eiga þátt í.

Virðulegi forseti. Ég vildi koma þessu innskoti hér að þó að af tvennu illu sé skárra að taka lán á innlendum markaði, ef það er hægt, frekar en erlendum, þá tel ég þessa ríkisskuldabréfaútgáfu ranga stefnu í grundvallaratriðum. Nú er ég ekki að leggja mat á það í þessum orðum mínum hvert þeir peningar eiga að renna sem ríkissjóður ætlar nú að afla.