16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

11. mál, launamál

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. en undir það rita auk mín hv. 1. landsk. þm. Kristín S. Kvaran. Í nál. okkar segir svo:

„Fjh.- og viðskn. skiptist í afstöðu sinni til brbl. um launamál. Minni hl. n., fulltrúar Alþb., Alþfl. og BJ, er andvígur frv. og þeim ákvæðum um mannréttindaskerðingu og kauplækkanir sem í því felast. Kjartan Jóhannsson flytur brtt. á sérstöku þskj. og gerir grein fyrir afstöðu sinni í eigin nál. Svavar Gestsson og Kristín S. Kvaran standa að þessu minnihlutaáliti. Samtök um kvennalista eiga ekki fulla aðild að fjh.- og viðskn., en Guðrún Agnarsdóttir sat einn fund sem áheyrnaraðili. Hún og aðrir þm. Samtaka um kvennalista eru andvíg frv. um staðfestingu brbl. um launamál.“

Þannig hljóðar nál. okkar og meginatriði þess er það að við erum andvíg þessu frv. til staðfestingar á brbl. um launamál frá í vor. Fyrir því eru margvíslegar ástæður og ég hef bæði hér á hv. Alþingi og eins á opinberum vettvangi annars staðar gert ítarlega grein fyrir afstöðu Alþbl. í þessu efni. Við teljum að með þessu frv. hafi verkalýðssamtökin í landinu verið svipt mannréttindum, við teljum að með þessu frv. og brbl. í vor hafi kaupgjald verið lækkað í landinu langt niður fyrir það sem samsvarar lækkun þjóðartekna á sama tíma og við teljum að með þessum lögum hafi verkalýðshreyfingin verið beitt harðari tökum en nokkur dæmi eru til um á síðari áratugum; þess vegna erum við ákveðið á móti þessu frv.

1. gr. þess fjatlar um vísitölu og vísitölubætur. Í 1. málsgr. er bannað að greiða verðbætur á laun samkv. svokölluðum Ólafslögum og þar er einnig bannað að reikna út verðbótavísitölu og skýring hefur ekki fengist enn í þessum umr., hvorki frá hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. né frá hæstv. forsrh., á því hvernig á því stendur að ríkisstj. kýs að banna útreikning verðbótavísitölu.

Fyrir því hafa engin rök heyrst enda held ég að þau geti í rauninni fá verið til.

Í 2. málsgr. 1. gr. er gert ráð fyrir því að frá gildistöku þessara laga til 31. maí 1985 sé óheimilt að miða kaup við verðlagshreyfingar, þ.e. sú málsgr. kveður á um það að hvers konar dýrtíðaruppbætur, sem taka mið að verðlagshreyfingum, séu bannaðar. Það hefur ekki komið fram að ríkisstj. eða hæstv. forsrh. líti svo á að þetta ákvæði banni að setja inn í kjarasamninga ákvæði um reglulegar grunnkaupshækkanir sem taka tillit til hugsanlegra verðlagshreyfinga á samningstímanum þannig að ég held að það verði að líta svo á að þrátt fyrir ákvæði 2. málsgr. 1. gr. þá hljóti að vera heimilt að semja um allt slíkt. Ef það er hins vegar ekki heimilt þá er ljóst að verkalýðshreyfingin getur ekki við þessar aðstæður gert samninga til lengri tíma, hún yrði að gera samninga aðeins til skemmri tíma í senn með svipuðum hætti og gerðist á viðreisnarárunum. Það auðvitað hefur veruleg vandkvæði í för með sér að ýmsu leyti eins og menn átta sig á. Það skapar óróleika og erfiðleika í þjóðfélaginu og þýðir það að það verða stöðugt í gangi kjarasamningar til skemmri tíma.

2. gr. frv. þessa fjallar svo um það að það er bannað að frjálsir kjarasamningar eru bannaðir. Það er meginákvæði 3. málsgr. 2. gr. og ríkisstj. sá sig nauðbeygða til þess að koma til móts við stjórnarandstöðuna og verkalýðshreyfinguna í þessu efni með því að leggja til að samningabannið yrði stytt úr 8 mánuðum í 6. Ástæðan til þess að ríkisstj. kaus að flytja þessa brtt. er vitaskuld fyrst og fremst sú að hún áttaði sig á því að hún hafði ekki öruggan meiri hl. fyrir því að samningabannið næði fram að ganga með þeim hætti sem það var upphaflega sett inn í lögin. Ríkisstj. gafst upp fyrir þessari staðreynd og kaus því að stytta samningabannið eins og hér hefur verið gerð brtt. um sem er flutt af hæstv. ríkisstj. og meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. hefur tekið undir.

Þessi brtt. er með þeim hætti að í henni eru í raun og veru þrjú efnisatriði þó að tvö skipti þar mestu máli, þ.e. að samningabannið er stytt þannig að það fellur niður um leið og brbl. hafa verið staðfest en í öðru lagi er í þessari sömu brtt. gert ráð fyrir því að hækkanir, sem samið var um fyrir 25. maí s.l., falli niður í kjarasamningum og að samningar, sem eru til lengri tíma en þess dags að brbl. taka gildi, skuli vera lausir. Þannig er í þessum brtt. ríkisstj. því miður grautað saman alveg óskyldum atriðum og þess vegna er ekki kostur á því að taka afstöðu til þess í einni atkvgr. hvort menn eru á því að stytta samningabannstímann eða ekki. Vitaskuld erum við þm. Alþb., á því að stytta þennan tíma en vegna þess að ríkisstj. kýs að draga þarna inn önnur atriði þá er ekki kostur á því að taka þátt í atkvgr. um þetta mál að mínu mati.

Eðlilegast hefði verið að fella alveg niður 3. mgr. 2. gr. sem bannar kjarasamninga þannig að bannið hefði algerlega verið tekið út. Í stað þess ákveður ríkisstj. að láta bannið gilda sem sé í 6 mánuði aftur í tímann eins og það hefur gert en stytta það úr 8 mánuðum í 6. Vegna þess hvernig þetta er í pottinn búið þá er, eins og ég sagði, ekki kostur á því að greiða atkv. um styttingu samningabannsins út af fyrir sig — því miður. Og í fjh.- og viðskn. Nd. bentum við á þann möguleika að stytting samningabannsins yrði tekin út úr og málefnið, sem snýr að lengri kjarasamningum, yrði afgreitt sérstaklega en fulltrúar stjórnarflokkanna í fjh.- og viðskn. voru ekki tilbúnir til þess að koma til móts við þetta sjónarmið stjórnarandstöðunnar.

Eins og ég gat um áðan, herra forseti, þá er það ljóst að Alþb. er á móti brbl. ríkisstj. um launamál og við munum greiða atkv. á móti 1. gr. frv. eins og hún kemur frá ríkisstj. Við munum hins vegar, að því er varðar síðari hluta frv. og sérstaklega þessar brtt., sitja hjá vegna þess hvernig í pottinn er búið að útilokað er að taka á hinu sjálfstæða efnisatriði sem lýtur að styttingu samningabannsins en við munum síðan að lokum greiða atkv. á móti frv. í heild þegar það verður borið upp til staðfestingar.

Herra forseti. Hv. 1. þm. suðurl. kaus að fara hér út í almennar umr. um forsendur þessa frv. þegar hann mælti fyrir nál. sínu. Ég tel enga ástæðu til þess að svara þeim efnisatriðum sem hann kom með í sínu máli vegna þess að þeim hefur þegar verið svarað í þessari umr. sem stóð hér í 6 daga í hv. Nd. og það er ekki þörf á því að hefja þá umr. á ný. Þess vegna læt ég máli mínu lokið eftir að hafa gert grein fyrir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn.