16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

11. mál, launamál

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að kvennalistinn á ekki fulla aðild að fjh.- og viðskn. Nd. og getur því ekki staðið að nál. Ég mun því lýsa yfir afstöðu okkar hér. Ég vil ítreka eindregna afstöðu kvennalistans gegn þessu frv. um launamál. Við erum og höfum verið allt frá því í maí á þessu ári andvígar þeirri skerðingu verðbóta á laun sem boðuð var í brbl. og nú er enn lögð til í frv. því sem hér er til 2. umr. Við samþykkjum þó að það hafi verið nauðsynlegt að grípa til einhverra breytinga á verðbótakerfinu s.l. vor samhliða öðrum aðgerðum í efnahagsmálum en við vildum fara aðra leið en þá sem hér hefur verið valin.

Við töldum og teljum það enn meginatriði í slíkum efnahagsaðgerðum að vernda kjör hinna læstlaunuðu en í þeim hópi eru konur fjölmennar. Í þeim tilgangi bárum við fram tillögur um verðbætur á laun sem við álítum að nýtast mundu best þeim sem lægst eru launaðir. Hafi verið þörf fyrir slíkar tillögur s.l. vor þá er brýn nauðsyn fyrir þær nú þegar verulega er farið að þrengja að á mörgum heimilum og víða er komið í hreint óefni. Við heyrum iðulega talað um að það sé ekkert fé til skiptanna. Þess vegna þurfi að sækja fé til launþega til að fjármagna ríkisreksturinn. Þó held ég að allir viti að það eru víðar til peningar á Íslandi en í launaumslögum. Það þarf ekki annað en lesa fjárl. og líta í kringum sig í þjóðfélaginu til að sjá að víða leynast vænir sauðir og peningarennsli er greiðlegt til umdeilanlegra stofnana og framkvæmda. Þar má líka sjá að forgangsröðun miðast ekki við það að styðja lítilmagnann eða þá manngildið. Hún miðast fyrst og fremst við auðgildið og hinn sterka.

Ég held að almenningur hafi verið samþykkur því að brýna nauðsyn hafi borið til að ná tökum á verðbólgunni og sýnt ótvíræðan vilja til að sameinast um það að vinna sig út úr þeim efnahagslegu ógöngum sem við blöstu. En ég er jafnframt sannfærð um það að þótt goggunarröðin við vatnsból launanna sé í býsna föstum skorðum þá er hún ekki óhagganleg og réttlætiskennd manna er það sterk að það sjá flestir og viðurkenna að byrðunum verður að skipta þannig að hver beri sem hann þolir. Það var í þeim anda sem við gerðum okkar tillögur í vor og fengum Þjóðhagsstofnun til að reikna út töluleg gildi þeirra. Vil ég rekja þær hér til íhugunar fyrir þm.

Meðallaun allra launþega í maí s.l., þ.e. Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna, voru samkv. taxta 12 230 kr. Við lögðum til að 20% af meðallaunum, þ.e. 2 446 kr., kæmu sem föst krónutala í verðbætur ofan á meðallaun og öll laun þar fyrir neðan. Síðan kæmi helmingur þeirrar krónutölu ofan á næsta fjórðung launa þar fyrir ofan en engar verðbætur í efsta fjórðungi launastigans. Þessi till. felur í sér skerðingu verðbóta á hærri laun en veitir meira en fullar verðbætur þeim sem standa í lægstu þrepum launastigans. Samkv. þessari till. hefðu og myndu 80% félaga í ASÍ og rösklega 60% allra launþega hafa notið fullra verðbóta. Heildarupphæð þessara verðbóta í júnímánuði s.l., ef þær hefðu verið greiddar, var áætluð um 170–260 millj. kr.

Til samanburðar má nefna að verðbætur samkv. brbl. ríkisstj. eru taldar hafa numið 180 millj. kr. í júnímánuði. Heildarupphæð greiddra verðbóta hefði því verið mjög sambærileg við ráðstöfun ríkisstj. en dreifing fjárins hefði verið mun réttlátari ef okkar tillögum hefði verið fylgt. sú ráðstöfun, sem ríkisstj. valdi, þ.e. að greiða 8% verðbætur upp allan launastigann, hefur ekki bara viðhaldið heldur aukið verulega þann launamismun sem þegar er allt of mikill í okkar þjóðfétagi. Á sama tíma og launin hafa þannig næstum staðið í stað hafa orðið miklar verðhækkanir á nauðsynjavöru og er nú svo komið að lægstu launin rétt duga fyrir matvælum vísitölufjölskyldunnar til mánaðarins hvað þá öðrum kostnaði. Þarna eru rangir aðilar að borga brúsann okkur getur ekki verið sama hvað það kostar að varðveita atvinnuöryggi og ráða niðurlögum verðbólgunnar. Það er deginum ljósara að lágmarkslaunin verða að hækka með einhverjum hætti og hefðu líklega náð því einmitt að verða um 15 þús. kr. á mánuði ef okkar tillögum hefði verið fylgt. Því styður kvennalistinn þá brtt. Alþfl. að lögbinda lágmarkslaun fyrir fulla dagvinnu sem nemur a.m.k. 15 þús. kr. á mánuði þangað til öðruvísi er um samið.

Það er ekki bara ósanngjörn heldur líka óraunsæ og næstum óþekkt aðgerð að lögbinda svo vísitöluhækkanir á laun eins og hér hefur verið gert en leyfa jafnframt jafnmiklar og gegndarlausar verðhækkanir án nokkurrar bindingar. Ég vil enn fremur koma því hér á framfæri að Kvennalistinn var og er eindregið á móti þeirri mannréttindaskerðingu sem afnám samningsréttar er. Það var kominn tími til að þessum réttindum væri skilað. Þó er það hryggilegt, að þessi réttindi fela nú í sér svo takmarkað svigrúm til launahækkana sem raun ber vitni.

Það hryggir mig enn fremur að ég efast í hjarta mínu um það að umr. á þinginu og í þjóðfétaginu hafi í raun haft þau áhrif eða ráðið því að þessum rétti var skilað. Mig grunar að þarna sé miklu fremur um vísvítuð stjórnbrögð að ræða. Svo vona ég að áframhaldandi ferð þessa frv. um þingið nái að milda það og gera það mannúðlegra en að öðrum kosti nái það ekki fram að ganga.

Ég hef lokið máli mínu.