16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

11. mál, launamál

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. hefur áður í þessum umr. gert grein fyrir þeim brtt. sem við jafnaðarmenn flytjum. Ég vil því aðeins nota tækifærið til að árétta það sem mér þykir vera aðalatriði þessa máls.

Tillöguflutningur Alþfl. kemur ekki þeim á óvart sem kynntu sér málflutning hans fyrir kosningar og þær tillögur sem hann lagði fram í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka að kosningum loknum á s.l. vori. Ég vil aðeins rifja það upp að í stefnuyfirlýsingu Alþfl. fyrir kosningar sagði að það vísitölukerfi sem við höfum búið við í höfuðdráttum óbreytt í rúma fjóra áratugi hefði gengið sér til húðar og væri úrelt. Í tillögum okkar í viðræðum við aðra flokka eftir kosningar áréttuðum við þessa stefnu. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Vísitölukerfið í sinni núverandi mynd verði afnumið. Í staðinn komi frjálsir kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins. Gætt verði sérstaklega hagsmuna láglaunafólks.“

Í annan stað voru lagðar fram sérstakar tillögur um aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til þess að rétta hlut þeirra sem við kröppust kjör búa. Þar sagði m.a. á þá leið að hækka skuli sérstaklega lægstu laun fyrir dagvinnu og um það lagðar fram ítarlegar tillögur.

Tillögugerð Alþfl. nú er nákvæmlega í samræmi við þennan málflutning. Við segjum nú það sama og við sögðum fyrir kosningar. Það gamla vísitölukerfi sem við höfum haft reynslu af á fimmta áratug var gengið sér til húðar og fjarri fór því að það tryggði hag launþega. Í umfjötlun hér á þingi hefur það rækilega komið fram í málflutningi annarra flokka að það sjónarmið er mjög útbreitt. Ég rifja upp að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands komst að orði á þá leið í umræðum um stefnuræðu forsrh. að það sem Verkamannasamband Íslands væri að fara fram á væri ekki að fá aftur óbreytt gamla vísitölukerfið heldur samningsréttinn. Aðalatriði þessa máls voru þannig frá upphafi þessi tvö: Afstaða til vísitölukerfisins gamla og afstaðan til frjálsra kjarasamninga.

Ég endurtek: Við lögðum þá stefnu fram strax í upphafi að vísitölukerfið bæri að afnema. Í öðru lagi að um leið væri alveg sjálfsagt og höfuðatriði að frjálsir kjarasamningar færu fram þá þegar, um leið og samningar rynnu út. Í þriðja lagi lögðum við til að um leið og vísitölutenging launa væri afnumin væri gengið hreint til verks og önnur sjálfvirk vísitöluviðmiðun annars staðar í efnahagskerfinu, hvort heldur varðaði skattaálögur, skattlagningu ríkisins eða verðmyndunarkerfið annars staðar eins og t.d. í landbúnaði, afnumin í leiðinni.

Þetta nægir til þess að sýna fram á í fyrsta lagi, að málflutningur Alþfl. hefur verið rökréttur og sjálfum sér samkvæmur frá því fyrir kosningar í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka í umfjöllun málsins hér. Þetta nægir til þess að sýna fram á í annan stað að sú stefna sem við boðuðum, afnám hins gamla vísitöturerfis en um leið að fram skyldu fara frjálsir samningar þá þegar, hún var rétt. Nú hafa aðrir aðilar, líka þeir sem fóru aðra leið, þ.e. meiri hl. hér á þingi, núv. stjórnarflokkar fallist á að nær hefði verið að fara að okkar tillögum strax frá upphafi.

Það er leiðinlegt til þess að vita að stjórnarflokkarnir hafa enn ekki skilið að um leið og hið gamba úrelta vísitölukerfi launa er afnumið, þá ber að fylgja því eftir, stíga skrefið til fulls með því að afnema aðrar sjálfvirkar vísitöluviðmiðanir, hvort heldur varðar skattheimtu ríkisins, opinberra aðila eða annars staðar í verðmyndunarkerfinu. Það bíður enn síns tíma að stjórnarflokkarnir sjái að slík aðgerð er nauðsynleg í beinu rökréttu framhaldi af þeirri tillögu að afnema vísitölukerfið.

Að því er varðar síðan aðrar tillögur um kaupmáttartryggingu lægstu launa vil ég segja örfá orð. Í 2. mgr. 1. gr. frv. um launamál segir svo um sjálfvirka vísitölutengingu launa:

„Frá gildistöku þessara laga til 31. maí 1985 er óheimilt að ákveða að kaup, laun, þóknun, ákvæðisvinnutaxti eða nokkurt annað endurgjald fyrir unnin störf eða nokkrar starfstengdar greiðslur skuli fylgja breytingum vísitölu eða annars hliðstæðs mælikvarða á einn eða annan hátt.“

Þetta orðatag, „annar hliðstæður mælikvarði á einn eða annan hátt“, vekur ýmsar spurningar. Þótt menn séu því sammála að vísitölukerfið, eins og það var áður, var hluti af sjálfvirku verðbólgukerfi og hafði gengið sér til húðar, þá er ekki þar með sagt að menn fallist á að binda það með lögum fram í tímann að aðilar vinnumarkaðarins megi ekki undir neinum kringumstæðum semja um eitthvert annað fyrirkomulag kaupmáttartryggingar lægstu launa, ef mönnum sýnist við þá samningagerð að það sé ekki sjálfvirkur verðbólguvaldur. Þetta orðalag er þess eðlis, að það þarfnast nákvæmrar skoðunar. Ég hef orðið þess var að lögfróðir menn og samningavanir eru á engan hátt á einu máli um það, hvernig þetta beri að túlka. T.d. gæti þetta varðað ýmsar tilraunir til að setja ákveðnar tryggingar fyrir varðveislu kaupmáttar lægstu launa, sem ekki færu upp allan launaskalann.

Að lokum eitt varðandi tillögu okkar um lágmarkslaun. Ég vil vekja athygli á því að þessi till. hefur gildistíma þangað til samningar takast. Í öðru lagi nær hún til tiltölulega mjög lítils hluta launþega. Að okkar mati er hér kannske um að ræða 6–7% launþega í heild. Hvers vegna er þessi till. flutt? Jú, hún er flutt með vísan til þess neyðarréttar sem m.a. hv. 1. þm. Suðurl. hefur lagt til grundvallar allri afstöðu sinni í málinu. Við segjum: Úr því að ríkisstj. fór hina röngu leið í upphafi að heimila ekki frjálsa kjarasamninga, þá er nú svo komið að þessi hluti launþega, sem hefur orðið að taka á sig að fullu hinar þyngstu byrðar í viðureigninni við verðbólguna, býr nú við algert neyðarástand. Í krafti þess neyðarréttar teljum við nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að grípa til þessara ráða. Hér er ekki verið að leggja til að þessi kauphækkun fari upp allan launaskalann. Hér er einungis verið að reyna að rétta hlut þeirra sem kröppust kjörin hafa.

Hæstv. forsrh. spurði: Er þetta í samræmi við greiðslugetu atvinnuvega? Það kann að vera álitamál. En ég vil vekja athygli á því, að stjórnarliðar hafa ítrekað haldið því fram að efnahagsaðgerðir þeirra og þó einkum og sér í lagi gengisfellingin á s.l vori hafi rétt hlut íslenskra samkeppnisaðila í samkeppni við innflutning. M.ö.o. að innlendur iðnaður, hlutdeild iðnaðar á innanlandsmarkaði hafi batnað og hagur fyrirtækja í íslenskum iðnaði hafi batnað. Mjög marga af þeim láglaunamönnum sem búa nú orðið við óþolandi bág kjör er að finna innan iðnaðarins.

Í annan stað er þá að finna líka innan verslunarinnar. En ég tók sérstaklega eftir að því hefur verið haldið fram að í tíð fyrrv. ríkisstj. hafi þannig verið haldið á málum að hlutur innflutningsverslunar og verslunarinnar í heild hafi batnað hugsanlega óeðlilega mikið. Ég tel því að meginatriðið sé þetta, að tillaga um lágmarkslaun nú þangað til kjarasamningar takast hafi stoð í þeim neyðarrétti sem stjórnarliðar sjálfir hafa lagt til grundvallar aðgerðum sínum.