16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

11. mál, launamál

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína með þær jákvæðu undirtektir sem hafa komið fram við þær brtt., sem ég flyt hér fyrir hönd okkar Alþfl.-manna, m.a. þær jákvæðu undirtektir sem þetta fékk í rauninni í máli hæstv. forsrh. Hann viðurkenndi að það væri ósanngjarnt og ekki rétt að hafa ákveðna hluta vísitölukerfisins áfram í sambandi, þá hluta sem vörðuðu t.d. tekjuöflun til ríkisins, heimild til þess.

Hann vakti athygli á að hér gæti verið um flókið mál að ræða, og ég efast ekkert um það, ef hann liti á alla þætti vísitölukerfisins, og í annan stað að hér væri einungis um að ræða heimildir til að hækka t.d. bensíngjald miðað við vísitölu. En nú er það svo að þær heimildir hafa verið notaðar að undanförnu, þær heimildir hafa verið notaðar til þess að hækka bensín hér aftur og aftur á sama tíma og kaupgjald hefur nánast staðið í stað.

Þó að hér kunni að vera um að ræða mál sem hafi fleiri þætti, ef við lítum á vísitölukerfið sem slíkt, er það þó verulegt spor að taka á þeim þáttum sem hér er gerð till. um. Og ég vil beina því til hæstv. forsrh. og stuðningsmanna ríkisstj., hvort ekki sé einmitt óhætt að stíga þá þetta spor núna og afnema það misrétti sem í þessu felst á þessu sviði, sýna þannig hug ríkisstj. í þessum efnum og koma með þeim hætti til móts við fólkið í landinu, og að ríkisstj. sitji að þessu leyti við sama borð og fólkið í landinu hefur gert. Þegar menn hafa lýst almennum skilningi á þessu sýnist mér ástæða til þess að þeir sem styðja ríkisstj. hugleiði það alvarlega að stíga þá skrefið til fulls og sýna sanngirni sína með því að stíga þetta takmarkaða skref.

Að því er hinn þáttinn varðar, lágmarkslaunin, kom líka fram skilningur hér í þessum umr. hjá ýmsum þeim sem töluðu á því að orðið væri algjört neyðarástand hjá þeim sem hafa lægst launin og að með framkvæmd brbl. hefðu verið lagðar verulegar byrðar á einmitt það fólk sem hefur allra lægstu tekjurnar, verulegar byrðar sem það getur tæpast eða alls ekki risið lengur undir. Það hefur gerst á sama tíma og menn hafa haft uppi þá stefnumörkun að einmitt þessu fólki yrði af eðlilegum ástæðum að hlífa.

Þess vegna vil ég beina því sérstaklega til þeirra sem styðja ríkisstj. og til ríkisstj. að íhuga nú stuðning við það ákvæði að hér verði þessar lágmarkstekjur hækkaðar, þar til um annað semst, eins og hér er gert ráð fyrir. Hér er verið að gera ráð fyrir því að frjálsir kjarasamningar móti stefnuna til frambúðar í þessum efnum, og sjálfsagt koma ýmsar aðrar leiðir líka til álita, er fram í sækir, til að tryggja hag þessa fólks. Vitna ég þar til ýmiss konar tillöguflutnings okkar í Alþfl. á undanförnum árum. En nú er orðið svo aðkreppt hjá þessu fólki að það er raunverulega brýn þörf á því að rétta því hönd, veita því eitthvert liðsinni nú um sinn yfir háveturinn, fram yfir jólamánuðinn, þannig að það geti komist af með skárri hætti en það getur núna og því sé ekki ætlað lengur að bera þessar byrðar með þeim hætti sem á það hefur verið lagt að undanförnu.

Ég þakka þær undirtektir sem þessar till. hafa fengið og vænti þess að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir taki nú alvarlega til yfirvegunar að stíga þetta skref til fulls og afnema annars vegar það misrétti sem hér á að vera í gildi í vísitölumálunum, afnema það með því að samþykkja brtt. þar að lútandi, sem ég hef hér mælt fyrir, og í annan stað að koma nú lítils háttar til móts við þá sem allra verst eru settir meðal launamanna með því að samþykkja þá brtt. sem hér hefur verið flutt um það efni.