16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

39. mál, Landsvirkjun

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. talaði hér áðan í umr. og hafði óskað eftir því að henni yrði frestað s.l. mánudag til þess að afla sér fyllri gagna. Og hann kom hér í ræðustólinn fyrr í dag til að flytja uppskeruna og koma á framfæri því sem hann taldi vera leiðréttingu eða áréttingu varðandi sitt mál s.l. mánudag og taldi sig hrekja með því staðhæfingu sem ég mat ranga úr hans máli í umr. s.l. mánudag.

Það er nú ástæða til að víkja nokkuð nánar að því og ýmsu fleira í máti hæstv. ráðh. Ég ætla ekki að reyna að feta í slóð hans í sambandi við gífuryrði eður útúrsnúninga í sambandi við það mikilsverða mál sem hér er, því að ég tel mig á engan hátt mann til þess að etja kappi við hann í þeirri íþrótt, og verða menn að verða af skemmtun í þá átt af minni hálfu. En ég tel nauðsynlegt að taka hér fyrir nokkra þætti úr máli hæstv. ráðh. Ég hlýt í upphafi að lýsa þungum áhyggjum yfir hugarástandi hans og upplýsingum eða öttu heldur skorti á upplýsingum í því brýna máli sem hér er til umr. og tengist því frv. sem hér er rætt um, breytingu á lögum um Landsvirkjun.

Hæstv. ráðh. vitnaði hér til umsagnar sem lesa mátti út úr hans máli að kæmi frá Landsvirkjun í sambandi við hvaða áhrif þetta frv. hefði á orkuverð til stóriðju, ef að lögum yrði. Og hann endurtók staðhæfingar af því tagi og bar Landsvirkjun fyrir, ef ég hef tekið rétt eftir, að orkuverð til stóriðju hérlendis yrði um 26 Bandaríkjamill ef frv. yrði lögfest. Þessi staðhæfing ráðh. ber vott um furðulegt skilningsleysi á eðli þess frv. sem hér er til umr., en markmiðið með því er að fá lögfesta ákveðna stefnu varðandi lágmarkshlutfall á verði til stóriðju með tilliti til verðlagningar til almenningsveitna. Ég endurtek því það, sem ég sagði við upphaf umr., að frv. felur í sér öðru fremur neytendavernd, verndun fyrir innlenda notendur gegn afarkostum í ætt við þá sem almenningsveitum og notendum þeirra hafa verið búnir með orkusölusamningum um stóriðju á liðnum árum. Frv. er ætlað að marka almenna stefnu í þessa veru og gilda um frambúðarsamninga sem gerðir yrðu um orkusölu til stórnotenda til viðbótar við þau ákvæði sem þegar er að finna í lögum um Landsvirkjun. Vegna þess hins vegar að við búum við ókjarasamninga í sambandi við slík viðskipti þótti okkur flm. eðlilegt að setja sérstakt ákvæði til bráðabirgða inn í frv. sem kvæði á um hversu með skyldi fara varðandi þá samninga sem nú eru til endurskoðunar. Þar er kveðið á um að taka skuli mið af ákvæðum laganna við endurskoðun þessara samninga. Svo virðist sem hæstv. ráðh. noti núverandi gjaldskrá Landsvirkjunar sem grundvöll þegar hann er að reikna út áhrif af frv. þessu ef að lögum verður.

Gjaldskrá Landsvirkjunar er nánast reglugerðarmál. Hún er yfirfarin og staðfest síðan af iðnrn. eftir gjaldskrárbreytingar hverju sinni og er því ekki neinn fastur punktur í mati á þessum málum, eins og halda mætti af málflutningi hæstv. ráðh. Ég vil reyna að upplýsa hann, lýsa inn í það myrkur skilningsleysis sem virðist vera, reyna að draga ögn frá hans sálarglugga ef mögulegt er, með því að greina honum og öðrum hv. þdm. frá því hvaða áhrif þetta frv. hefði haft á gjaldskrár Landsvirkjunar á síðasta ári og á þessu ári, ef farið hefði verið eftir ákvæði þessa frv. um 65% lágmarkshlutfall á verði stóriðjufyrirtækja í hlutfalli við verð til almenningsveitna. Þær upplýsingar hef ég fengið í dag frá Landsvirkjun og þær eru þessar:

Heildartekjur Landsvirkjunar á s.l. ári af sölu til almenningsveitna voru 382.7 millj. kr., en af íslenska álverinu voru innheimtar 108.2 millj. kr. á árinu 1982. Þetta eru megintekjur Landsvirkjunar á þessu ári. Auðvitað væri hægt að taka inn í þetta heildartekjurnar, Áburðarverksmiðjuna og Járnblendifélagið að auki, en hér er litið á þessa tvo stóru þætti, yfirgnæfandi þætti, almenningsveitur og ÍSAL. Ef lágmarkshlutfallið 65% hefði verið gildandi í þessari orkusölu hefðu almenningsveiturnar ekki átt að greiða 382.7 millj. kr., heldur 276.8 millj. og ÍSAL átti að greiða í staðinn fyrir 108.2 millj. kr. 214.1 millj. Þarna hefði orðið stórfelld tekjutilfærsla á milli almenningsveitna til lækkunar og til hækkunar hjá ÍSAL. Reiknað í aurum var meðalverðið til almenningsveitna á síðasta ári 34.6 aurar eða 25 Bandaríkjamill, umreiknað miðað við meðalgengi Bandaríkjadals á síðasta ári kr. 12,50. En miðað við þessa tekjutilfærslu hefði verðið lækkað til almenningsveitna niður í 25 aura eða um það bil slétt 20 Bandaríkjamill til almenningsveitna. Hjá ÍSAL var meðalverðið á síðasta ári 8.2 aurar eða 6.5 mill samningsbundið, en hefði orðið, ef þetta frv. hefði verið lög á liðnu ári, ekki 8.2 aurar heldur 16.3 aurar og 13 mill. Þetta er árið 1982, miðað við óbreyttar tekjur Landsvirkjunar, eins og þær urðu á því ári.

Á þessu ári, sem skammt lifir af, hefur Landsvirkjun áætlað sínar heildartekjur og gerir ráð fyrir að af almenningsveitum fáist 1176.3 millj. kr., en hefðu átt að lækka í 883.1 millj. kr. ef ákvæði frv. hefðu verið lög. ÍSAL er áætlað að greiði 244.7 millj., en hefði átt að greiða með þessari viðmiðun 537.9 millj. kr. Í aurum talið á kwst. greiða almenningsveitur að meðaltali í ár 86.11 aura fyrir kwst. eða 34.4 mill. En þetta hefði átt að lækka samkv. lágmarkshlutfallinu í 64.65 aura eða 25.9 mills. ÍSAL greiðir hins vegar áætlað á þessu ári 19.12 aura fyrir kwst. eða 7.6 mill. Vegna áhrifa af bráðabirgðasamkomulaginu frá 23. sept. hækkar meðalverðið aðeins, eða úr 6.5 í 7.6 mill, en hefði átt samkvæmt tilfærslunni sem fylgt hefði 65% lágmarkshlutfallinu að hækka í 42 aura eða 16.8 mill. Þetta eru áætlanir Landsvirkjunar, niðurstaðan af mati á því hvernig tekjur Landsvirkjunar hefðu skipst í fyrra og skiptust í ár miðað við áætlaðar tekjur. Svo kemur hæstv. iðnrh. hér í stólinn til að árétta það sem hann kallar leiðréttingu á því sem ég vefengdi hér s.l. mánudag og segir við hv. þm.: Ef ákvæði þessa frv. hefðu lagagildi sætum við hér uppi með orkuverð til stóriðju upp á 26 mill, sem væri gersamlega ósamkeppnisfært. Þetta leyfir hæstv. ráðh. sér að bera á borð fyrir þm. til að hræða menn frá fylgi við frv. sem felur í sér neytendavernd fyrir íslenskan almenning og íslenskan atvinnurekstur, eins og fram er dregið hér í því máli sem ég hef flutt og reyndar má skýrt lesa út úr frv. sjálfu.

Það er einkennilegur hugur, sem býr að baki þvílíkum útúrsnúningi, og ætla ég ekki að fara að elta ólar við niðurlagið á ræðu ráðh. sem best er að menn lesi sér til skemmtunar í þingtíðindum, þegar það birtist þar. Þetta er sá þáttur sem snýr að efnislegu mati hæstv. ráðh. á þessu frv. og hann vitnar í álitsgerð sérfræðinganna, rafmagnsveitustjóra ríkisins, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar og fleiri glöggra manna og segir: Jú, að vísu hafa þeir sett á blað að 65% hið minnsta megi teljast eðlilegt lágmarkshlutfall af verði stóriðju sem hluta af verði til almenningsveitna. En orðrétt segir ráðh.:

„Samkv. skýrslunni er hér um að ræða það sem höfundar hennar töldu hæfilegt sem meðalhlutfall yfir langan tíma. Það er af þeim sökum vafasamt að lögfesta þetta hlutfall, þannig að það gildi á hverjum tíma óháð öðrum verðsveiflum sem orkuverð til almenningsveitna kann að taka.“

Hverjir eiga að bera þessar verðsveiflur, sem hæstv. ráðh. er að víkja hér að, verðsveiflur í orkuverði til almenningsveitna, eins og hæstv. ráðh. orðar það? Hann kveður í rauninni upp dóminn sjálfur. Það eru ekki stórnotendurnir sem eiga að taka á sig verðsveiflur, væntanlega óvæntar verðsveiflur, sem við vissulega höfum séð hér á liðnum áratug vegna stórhækkana á olíuverði tvívegis, það eru ekki stórnotendurnir sem eiga að bera það, heldur eru það almenningsveitur í landinu, almennir notendur og íslenskur atvinnurekstur. Það er viðhorfið sem fram kemur hjá hæstv. ráðh. Hann frábiður sér lagasetningu af þessu tagi, ég man nú ekki hvaða orð hann notaði um frv. í lokin. (Iðnrh.: Óbermi.) Óbermi segir hæstv. ráðh. Það er einkunnin sem hann gefur frv. sem ætlað er að vera vernd fyrir íslenskan almenning, fyrir íslenska notendur gegn samningum við stórnotendur, sem hafa í reynd þróast þannig að Íslendingar hafa mátt greiða í sívaxandi mæli niður orkuna til þessara notenda sem taka meira en helminginn af orkusölu Landsvirkjunar. Ég eftirlæt hv. þm. að dæma um málflutning af þessu tagi. En það er alveg greinilegt að hæstv. ráðh. vill umfram allt afstýra því að sett verði lög af þessu tagi og það er alveg greinilegt hvers vegna hann frábiður sér það. Vegna þess að þá séum við ekki lengur samkeppnisfærir um orkusölu til stóriðju í landinu. Hverjir eru það, hæstv. iðnrh., sem eiga að bera umframkostnaðinn af orkusölunni til stóriðjufyrirtækja? Hverjir eru það sem eiga að greiða niður orkuna til þeirra? samningana sem hæstv. ráðh. telur að eigi að vera nánast allra meina bót í íslensku atvinnulífi og lesa má um í Morgunblaðinu, ég get vitnað til þess þótt síðar verði, að svona samninga eigi að gera nánast hvað sem það kosti, hversu lítið sem er að hafa upp úr orkusölunni, þá eigum við að gera slíka samninga. Þetta var ritað í Morgunblaðið fyrir nokkrum vikum í forustugrein.

Hæstv. ráðh. sá svo ástæðu til að fara ofan í saumana á mínu máli og reyndi að fara allt niður í smáatriði. Og af því að hann sá ástæðu til þess, þá skal ég gera það aðeins líka, bara til þess að menn átti sig á við hvað hæstv. ráðh. leggur sig niður í sínum málflutningi. Hann taldi sig þurfa að leiðrétta „að núverandi meðalverð Landsvirkjunar til almenningsveitna, sem miðast við 3500 stunda nýtingartíma, er 111.8 aurar á kwst. en ekki 117.1 eyrir á kwst. eins og stendur í grg. með frv., og er það villa eins og fleira í þeirri grg." Þetta staðhæfir hæstv. ráðh. Ég bið hann um að átta sig á því sem stendur í aths. við 1. gr. frv., að miðað er við 5000 stunda nýtingartíma en ekki 5300 stunda nýtingartíma, og í þeirri gjaldskrá Landsvirkjunar sem í gildi er og fylgir með sem fskj. má lesa hvert verðið er fyrir 5000 stunda nýtingartíma, ef hæstv. ráðh. fengist til að setja upp gleraugun og rýna aðeins í það fskj. Þetta er aðeins dæmi um það á hvaða stigi þessi málflutningur er.

Hæstv. ráðh. vék að verðlagsþróun hér á orku á liðnum áratug. Um það má margt segja og það er alveg greinilegt að hann taldi að verðið hefði verið almennt allt of lágt, hann tók undir þann málflutning Landsvirkjunar. Það er alveg rétt að á föstu verðlagi reiknað hefur verið mikil sveifla í þessu verði og það fór býsna langt niður fyrir það sem eftir á að hyggja a.m.k. sýndist skynsamlegt. En ég held að hæstv. ráðh. ætti að athuga á hvaða skeiði það var, hverjir fóru með völdin í landinu þegar verðið hjá Landsvirkjun almennt, sjálfsagt ekki aðeins til stóriðjunnar, heldur jafnvel til almenningsveitna, en þó alveg sérstaklega til stóriðjunnar að sjálfsögðu, hefur verið allt of lágt allan tímann. Það var á árunum 1974–1978. (Iðnrh.: Mér er fullkunnugt um það.) Já, það hefði nú kannske verið ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh. að rifja það upp í sínu máli.

Hæstv. ráðh. stendur í því nú að láta endurskoða orkusölusamninga við Íslenska álfélagið og við Elkem vegna Íslenska járnblendifélagsins. Maður skyldi nú gera ráð fyrir að ráðh. legði sig fram um að byggja upp rök og málflutning til að geta sótt rétt okkar Íslendinga í slíkum samningum, til þess að hafa rök fyrir því að fá leiðréttingu á þessum samningum, sem skili Íslendingum a.m.k. framleiðslukostnaðarverði fyrir orkuna á núverandi samningi, svo að linna megi því ástandi að íslenskur almenningur, heimili og atvinnurekstur séu að greiða með þessum rekstri. En hvað gerist? Nei, hæstv. ráð. er ekki að bera fram rök fyrir íslenskan málstað. Hann er hér að safna í kistuna fyrir Alusuisse, kistuna sem verður opnuð á næstu samningafundum og reitt þar fram af hálfu gagnaðilans hver séu Íslendinga eigin orð og rök í þessu máli. Ég skal ekki þreyta hæstv. ráðh. á þessum degi eða ganga hér á tíma hv. d. mjög til þess að rekja dæmi úr málflutningi hæstv. ráðh., en þar væri af mörgu að taka úr hans tiltölulega stutta máli í umr. áðan. En ég tek hér eitt dæmi, eitt mjög lýsandi dæmi og bæti kannske öðru við, við skulum hafa þau tvö.

Hæstv. ráðh. segir í sínu máli að meðalverð til álvera í heiminum muni vera nálægt 17 mill. Orðrétt tilvitnað: „Meðalorkuverð til álvera í heiminum er nú talið vera um 17–18 mill," segir ráðh., „ef ekki er tekið tillit til þeirra álvera sem hefur verið lokað vegna hás orkuverðs“ og fer síðan að rekja dæmi. Þessar upplýsingar, sem hæstv. ráðh. er að bera hér fram, eru sóttar í a.m.k. hálfs árs gamla skýrslu frá CRU-fyrirtækinu, bresku ráðgjafarfyrirtæki sem tók það til athugunar á síðasta ári hver þróun hefði orðið á meðalorkuverði til álvera í heiminum í kreppunni á undanförnum misserum, og þeir komu með tölu á þessu bili, og er þá tekið tillit til samdráttar í áliðnaði, tímabundins samdráttar. Svo kemur hæstv. iðnrh. hér með þessar upplýsingar, sem eru gersamlega úreltar, og segir að nú sé staðan þessi.

Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar til að bera hér fram um það hvert sé meðalverð á þeim forsendum sem þarna eru lagðar fyrir þessu mati. Þetta meðalverð var í hinum vestræna heimi eða utan Austur-Evrópu og Kína 22.2 mill á árinu 1981. Ég hygg að nú, þegar iðnaðurinn er blómstrandi og farnar eru af stað þær verksmiðjur sem lokað hafði verið og gert er ráð fyrir á annað borð að verði settar í rekstur, svo og aukin framleiðsla, sem dregið hafði verið úr hjá öðrum álverum, þá sé þetta meðalverð ekki mikið undir því sem það var á árinu 1981, þ.e. nálægt 22 mill. Og til þess að sýna hvernig hæstv. ráðh. byggir þetta upp, þá fer hann að vefengja og gagnrýna það sem sagt er um þróun álverðs í grg. með þessu frv. og vitnar þar til og segir:

„Gefið er upp í grg. verðið 27.3 mill á svæði orkuveitunnar BPA í Bandaríkjunum. Þetta orkuverð er ekki komið til framkvæmda enn og telja má sennilegt að það valdi samdrætti í áliðnaði á svæðinu ef ekki komi til aðgerðir.“

Þið heyrið tóninn í hæstv. ráðh. Í fyrsta lagi, þetta orkuverð sé ekki komið til framkvæmda á svæðinu, og það megi reikna með því að það verði samdráttur í áliðnaðinum á svæðinu ef ekki komi til mildandi aðgerðir. Ég heyri alveg greinilega hverjir það eru sem hvísla í eyra hæstv. ráðh. og ég verð að leitast við að ráða honum heilt, því að ég vil aðstoða hann við að ná íslenskum rétti í því stóra máli sem hann ber nú ábyrgð á. En þá verður hann að gá betur að sér en hér er gert. Og ég vil ekki trúa honum til þess að vera að koma hér fram fyrir Alþingi með rangar upplýsingar eins og hann þó viðhefur hér. Það hlýtur að vera að hann hafi slæman ráðgjafa. (Gripið fram í: Hverjir hvísla í eyru ráðh.?) Ja, það er best að hann upplýsi það sjálfur. En hann virðist ekki fylgjast með skrifum um þessi þýðingarmiklu mál, aðgengilegum skrifum um þessi mál og virðist ekki heldur hafa lagt eyra við máli mínu hér s.l mánudag, þar sem ég gat um hvað gerst hefði hjá BPA-veitunni 1. nóv. s.l Þar var ákveðið orkuverðið 26.8 mill. Talan 27.3 mill, sem hafði verið til umr., varð ekki niðurstaðan, heldur 26.8 mill, skeikar litlu og var hækkað formlega úr 24.5 mill og hafði í fyrra verið rösklega 19 mill. Þetta er veita sem selur 18.2 terawattstundir til áliðnaðar í Bandaríkjunum, 4–5 sinnum meira magn en Íslendingar framleiða í heild, sem renna frá þessari orkuveitu til álvera í Bandaríkjunum. Og áliðnaðurinn setti auðvitað á hinn mesta þrýsting til að hindra þessa hækkun, bar sig illa og aumlega og sagði: Ja, guð minn góður, við verðum bara að loka, við ráðum ekkert við þetta. Þeir höfðu knúið fram í byrjun ársins sérstakan samning tímabundinn um 6 mánaða skeið eða til 1. nóv. um kaup á afgangsorku, sem ekki hefði verið nýtt ella, yfir þennan stutta tíma á 11.2 mill og auðvitað vildu þeir reyna að fá slíkan samning áfram. En ekki var léð máls á því. Þvert á móti var orkuverðið hækkað þarna um nær 10%, öll afsláttarákvæðin numin úr gildi, hert á kaupskylduákvæðum og refsiákvæðum, ef ekki yrði um kaupskyldu að ræða. Lokuðu ekki álverin? Drógu þau ekki úr framleiðslu sinni? Nei, þau fóru af stað á fullu á þessu svæði, þau sem á annað borð stóð til að reka.

Ég get veitt hæstv. ráðh. aðgang að upplýsingum um þessi efni og ég hugsa raunar að ef hann má vera að því að staldra við í sínu ráðuneyti, þá geri hann e.t.v. fundið það einhvers staðar þar, því að ég trúi ekki öðru en það sé safnað gögnum í iðnrn. um þróun þessara mála, jafnbrennandi og þau eru fyrir okkur. Og svo kom hann með söguna frá Noregi, sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson hefur sérhæft sig í, og fór í alveg sérstakan leiðangur á þessu ári til að leita að rökum fyrir undanslætti í álmálinu vegna þess hvernig staðan sé í Noregi. En ég lofaði að fara ekki út í mjög mörg dæmi og ég ætla að geyma mér að fara ofan í það mál.

Hæstv. ráðh. vefengdi hins vegar ekki það sem stendur í þessari grg. um stefnumörkun Norðmanna um orkusölu til stóriðju, um verðlagningu á orku til stóriðju, 20 mill verðtryggt héðan í frá. Þeir hafa lært af reynslunni. Það væri ástæða til að óska þess að íslensk stjórnvöld og hæstv. iðnrh. reyndu að læra af reynslunni.