17.11.1983
Sameinað þing: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að fara nokkrum orðum um aðdraganda þeirrar skýrslu sem hér liggur fyrir og þess bráðabirgðasamkomulags sem er verið að gera grein fyrir, en síðan að víkja að efnisatriðum þess.

Það hefur komið fram að þetta mál er mjög gamalt, a.m.k. þriggja ára gamalt eða því sem næst. Strax í upphafi lögðum við Alþfl.-menn áherslu á að haldið yrði á því af festu en á hinn bóginn, vegna þess að mikið væri í húfi, þyrfti að kappkosta að málatilbúnaður væri vandaður og vel rökstuddur. Okkur hefur ævinlega verið það ljóst að við værum að sækja mál á hendur aðila sem væri í viðskiptum við okkur og leitaðist auðvitað við að halda sem fastast fram sínum hagsmunum. Þess vegna yrði að fara fram af vitsmunum í þessu máli og leitast við að ná sem bestum árangri. Við töldum bæði þá og höfum oft minnt á það síðar og minntum fyrrv. hæstv. iðnrh. á það að menn yrðu að leggja sig fram um að ná samningum, það yrði að gera það sem unnt væri til að reyna að ná samningum í þessu máli. Bæði í upphafi og eins oft síðar lögðum við Alþfl.menn í málflutningi okkar áherslu á það að raforkuverðið væri langmikilvægasti þátturinn, enda var smám saman að koma í ljós, eftir því sem leið á málið, að t.d. svonefndar hækkanir í hafi urðu sífellt léttvægari eftir því sem málið var athugað lengur. Upphæðirnar, sem menn gerðu ráð fyrir að geta gert kröfu um, þær fóru stiglækkandi.

Við leituðumst við að styðja við bakið á hæstv. þáv. iðnrh. Hjörleifi Guttormssyni í þessum málatilbúnaði, en það verður að segjast eins og er að það olli okkur miklum vonbrigðum að hvorki gekk né rak hjá hæstv. þáv. iðnrh., það sat allt saman fast. Það var því ljóst að við svo búið varð ekki lengur unað. Við töldum þess vegna ekki annað unnt en að Alþingi tæki málið í sínar hendur til að leitast við að koma því úr þeirri sjálfheldu sem ekki varð annað séð en það væri komið í. Í þá veru stóðum við að flutningi þáltill. um stefnumörkun í þessu máli á s.l vetri. Við töldum að við hefðum ekki efni á því öllu lengur að þetta mál stæði kyrrt, að ekkert gerðist, vegna þess að þær fjárhæðir sem um væri að tefla í raforkuverði væru mjög háar.

Þetta vildi ég segja um aðdraganda málsins. Í annan stað langar mig að víkja fáeinum orðum að tveimur atriðum sem varða sérstaklega Hafnarfjarðarbæ í sambandi við þetta mál.

Í fyrsta lagi hefur það ekki verið efnt enn þá að ganga frá samningum við Hafnarfjarðarbæ varðandi endurskoðun á hlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í svonefndu framleiðslugjaldi. Þetta samkomulag var í rauninni gert 1975, ef ég man rétt, á dögum þáv. iðnrh. Gunnars Thoroddsens og hefur hvorki gengið né rekið þrátt fyrir ítrekuð loforð á undanförnum árum. Nú vil ég beina því til núv. hæstv. iðnrh. að hann gangist í þetta mál og gangi frá því, vegna þess að Hafnarfjarðarbær stóð að þessu samkomulagi og gat ekki vitað annað en að meiningin væri að ganga frá því með eðlilegum og réttum hætti og á kröfu á því að það verði gert.

Í annan stað bar það til tíðinda á síðasta kjörtímabiti að þáv. fjmrh.- og iðnrh. væntanlega tóku saman ákvörðun um það, að draga af álgjaldinu fjárhæðir fyrir kostnaði sem ríkið hafði lagt í, samkvæmt ákvörðun iðnrh., við alls konar athuganir og rannsóknir í sambandi við þann málatilbúnað sem uppi var. Ég tel, og hef gert það áður að umræðuefni hér, að það sé ekki unnt að rukka þannig aðila út í bæ, eins og t.d. Hafnarfjarðarbæ, um kostnað af þessu tagi þegar hann hefur ekkert um það að segja í hversu mikinn kostnað er lagt í þessu sambandi, hvort þar sé skynsamlega að verið eða ekki, og þess vegna geti frádráttur af þessu tagi ekki verið eðlilegur. Nú vil ég beina því til núv. hæstv. iðnrh. og fjmrh. að þeir gangist í það að leiðrétta þessi mistök sem gerð voru á sínum tíma. (Gripið fram í.) Já, ég held að það væri nú skemmtilegra fyrir ráðh. að leiðrétta það heldur en að láta dæma sig í málinu. Og skemmtilegra væri það fyrir ríkið.

En víkjum þá að stöðu málsins nú eða þessari skýrslu iðnrh. og því bráðabirgðasamkomulagi sem hér er til kynningar og umr.

Ég vil segja það fyrst að það verður að teljast mjög jákvætt að skriður sé kominn á þetta mál sem staðið hefur fast svo lengi sem raun ber vitni. Eigi að meta þetta bráðabirgðasamkomulag, hversu viðunandi það sé, hlýtur það að fara fyrst og fremst eftir framhaldi málsins. Hér er um bráðabirgðasamkomulag að ræða þar sem gert er ráð fyrir frekari samningaumleitunum. Og niðurstaðan ræðst náttúrlega ekki endanlega fyrr en sést fyrir endann á samkomulaginu. Við Alþfl.-menn teljum að það hafi verið eftir atvikum skynsamlega staðið að því að fá niðurstöðu í þessu máli. Við teljum að það hafi eftir atvikum verið skynsamlegt að leita eftir niðurstöðu í skattamálunum með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Þarf ekki að fjölyrða um það. Við teljum líka að það hafi verið rétt að taka möguleikana á stækkun og á breyttri eignaraðild á dagskrá. Með þessu bráðabirgðasamkomulagi er það tekið á dagskrá sem einn liðurinn sem sé til umfjöllunar, á dagskrá sem hluti af framhaldssamkomulagi eða sem hluti af endurskoðun samningsins hvort heldur sem er. Það var óviturlegt að halda þessu utan dagskrár, þetta kemur auðvitað inn í myndina, og hvort af verður fer eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni að öðru leyti.

Hitt verður auðvitað að segjast eins og er, að það veldur nokkrum vonbrigðum að ekki skyldi fást hærra bráðabirgðaverð en þessi 9.5 mill eða svo á raforkunni, þar til um annað semdist. Þetta er minni hækkun en maður hafði gert sér vonir um. En samningarnir sjálfir eru sem sagt eftir og ég vil leggja áherslu á að þeim verði hraðað eftir föngum og reynt eftir föngum að halda þá stundaskrá sem upp var sett í bráðabirgðasamkomulaginu. Ég geri þetta sérstaklega að umtalsefni vegna þess að hæstv. iðnrh. var með svolítinn slökunartón í þessu í sinni kynningarræðu hér á skýrslunni, taldi að það gæti orðið erfitt að halda stundaskrána, en ég vænti þess að hann geri allt sem í hans valdi stendur til þess að hún verði haldin, því tíminn er peningar í þessu efni.

Síðan má spyrja: Á hvað á þá að leggja áherslu í þessum samningum? Ég tel að það sé eins og áður tvennt fyrir utan þessi hliðaratriði sem hafa verið nefnd. Það er fyrst og fremst raforkuverðið og einföldun á framleiðslugjaldinu, endurskoðun á framleiðslugjaldinu. En ákvæðin um þetta efni í bráðabirgðasamkomulaginu eru mjög óljós að mínum dómi, þau eru ekki stefnumarkandi. Það vantar í rauninni að hér fari fram stefnumarkandi umræður um það hvernig þessu verði best fyrir komið.

Að því er framleiðslugjaldið varðar standa menn í rauninni frammi fyrir tveimur meginvalkostum. Annars vegar að hafa framleiðslugjaldið óháð afkomu fyrirtækisins, eins og ég held að upprunalega hafi vakað fyrir Íslendingum þegar framleiðslugjaldið var ákveðið á sínum tíma. En síðan komu inn ákvæði á síðari stigum samninganna um að framleiðslugjaldið og skattlagning Ísals væri háð afkomu fyrirtækisins. Þetta dæmi verða menn að sjálfsögðu að gera upp, hvort þeir telja skynsamlegra að framleiðslugjaldið sé háð afkomunni eða sé óháð afkomunni. Varðandi stefnumörkun um þetta efni fyndist mér gott að fram kæmi af hálfu hæstv. iðnrh. hverjum augum hann lítur þetta mál, eða hvort hann telji ekki nauðsynlegt að um þetta fari fram sérstök umræða.

Sama má í rauninni segja um raforkuverðið. Í grundvallaratriðum má segja að menn standi frammi fyrir því að velja þar um tvo meginvalkosti. Annars vegar fast verð með öruggri afhendingu eða öruggri sölu, þ.e. nokkuð fastar tekjur, en það þýðir væntanlega að menn fái tiltölulega lægra verð fyrir raforkuna heldur en ef sá kostur væri valinn að verðið stæði í hlutfatli við afkomu í áliðnaði eða við álverð. Um þetta atriði hafa heldur ekki farið fram neinar verulegar umr. og ég hefði haft ánægju af því að heyra viðhorf hæstv. iðnrh. að því er þessi atriði varðar.

Það væri líka ástæða til að gera þriðja atriðið að sérstöku umræðuefni hér, en það varðar reyndar raforkuverðið líka. Við Íslendingar erum skuldbundnir til að selja þessum aðilum, Ísal og Grundartangaverksmiðjunni, svo og svo mikið af rafmagni. Lagt hefur verið í óheyrilega mikinn kostnað á undanförnum árum við að auka öryggi á afhendingu á rafmagni, m.a. til að leitast við að standa við skuldbindingar af þessu tagi. Það hlýtur að vera matsatriði hvernig gjaldskrá er upp byggð, hvort það geti ekki verið allt eins skynsamlegt að taka meiri áhættu í þessum efnum og vera þá frekar tilbúinn til að taka á sig einhverjar sektir þegar út af ber, að geta skorið niður raforkuafhendinguna til þessara aðila og taka þá frekar á sig sektir en að leggja í mjög miklar fjárfestingar til að auka öryggið. Ég vek athygli á þessu vegna þess að það eru áreiðanlega einhver mörk þarna sem þarf að velja, sem skynsamlegt er að velja. Um þetta held ég að væri hollt að færu fram umræður einmitt á þessu stigi meðan samningaumleitanir eru í gangi um þetta atriði.

Um verðlagningu orkunnar er sagt í þessu bráðabirgðasamkomulagi að ætlun aðilanna sé að verðið á samningsbundnu rafmagni verði verðtryggt með viðmiðun við tiltekinn grundvöll, þannig að verðið muni taka breytingum til hækkunar eða lækkunar með hliðsjón af viðmiðunargrundvellinum. Og einnig að upphaflegt samningstímabil í endurskoðuðum rafmagnssamningi verði 15 ár. Auðvitað verða að vera einhver verðtryggingarákvæði, en það er lítið gefið til kynna hvers konar verðtryggingu hér sé um að ræða. Og þau geta nú verið næsta aum þessi verðtryggingarákvæði, vegna þess að í rauninni hafa verið verðtryggingarákvæði í þessum samningi sem í gildi hefur verið frá 1975. En þau hafa bara ekki reynst okkur betur en þetta. Ég legg vitaskuld áherslu á að leitast verði við að finna sem einfaldastan og bestan verðtryggingargrundvöll eða viðmiðunargrundvöll varðandi verð, en ég held að það sé mjög hæpið að gera ekki ráð fyrir endurskoðunarákvæðum. Við höfum rekið okkur á það núna aftur og aftur, í tvígang á seinustu 12 til 15 árum, eftir því hvernig reiknað er, að þeir samningar sem við höfðum gert um raforkuverðið dugðu ekki. Jafnvel þó menn hafi sjálfsagt talið 1975 að þeir væru að gera góða samninga með nægilega góðum verðtryggingarákvæðum hefur það ekki reynst svo. Ég held að bara þetta eitt sýni okkar að það sé nauðsynlegt að hafa endurskoðunarákvæði að því er rafmagnsverðið varðar. Það geta komið upp margvísleg tilvik í veröldinni, það geta komið upp svo margvíslegar aðstæður í veröldinni, í viðskiptaheiminum að það er nauðsynlegt og eðlilegt að hafa endurskoðunarákvæði. Ég held að það verði menn að hafa í huga við þá vinnu sem fram undan er.

Það er oft verið að hnýta í þann samning sem gerður var á sínum tíma og það má kannske segja að ég hafi gert það með þeim ummælum sem ég hef hér viðhaft um nauðsyn þess að ná fram breytingum á raforkuverðinu og í íhugunum og hugleiðingum um hvers konar breytingar þar mættu eiga sér stað. En ég tel samt rangt að halda því fram að sá samningur sem gerður var á sínum tíma hafi verið lélegur eða slæmur. Ég vil ítreka það enn og aftur vegna þess að að allri grundvallargerð var þessi samningur og er mjög góður og á honum hafa Íslendingar getað byggt kröfugerð sína fram að þessu. Það sem menn sáu ekki fyrir þá var orkuverðsþróunin, það var verðbólgan í heiminum, það var staða dollarans gagnvart öðrum myntum og þar fram eftir götunum. Og það eru einmitt þessi atriði sem verður þess vegna að leg ja megináherslu á að fá endurskoðuð.

Ég vil að lokum, herra forseti, hvetja hæstv. iðnrh. til að halda fast á þessu máli af okkar hálfu. Við vitum það að nú er málið í hans höndum og hann verður að halda á okkar málstað. Ég hef sagt það hér áður að mér finnst rangt þegar menn eru að kenna gagnaðilanum um að ekki náist nægilega góðir samningar. Ég tel að það sé fyrst og fremst undir málatilbúnaði okkar sjálfra komið. Við eigum við sjálfa okkur að fást um það að ná fram viðunandi samningum. Þess vegna hvet ég hæstv. iðnrh. til að standa sig nú vel í þessu máli, halda því fram af festu og skynsemi fyrir hönd okkar Íslendinga.