18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Fyrri hluta þessa árs kom smám saman í ljós að ástand og horfur í efnahagsmálum var enn lakara en ráð hafði verið fyrir gert í þjóðhagsspám í upphafi ársins. Afli á vetrarvertíð var afar tregur og verðbólga hafði færst mjög í aukana. Reyndist hún frá mars til maí á ársgrundvelli 131% . Erlendar skuldir höfðu einnig vaxið umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir. Við þessar aðstæður var mjög brýnt að ríkisstj. yrði mynduð hið fyrsta og róttækar aðgerðir ákveðnar til þess að koma í veg fyrir enn vaxandi verðbólgu, stöðvun atvinnuvega, atvinnuleysi og enn frekari skuldasöfnun erlendis.

Eftir endurteknar viðræður allra stjórnmálaflokka, sem fulltrúa eiga á Alþingi, var mynduð ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. 26. maí s.l. Sú ríkisstj. var ekki síst mynduð til þess að koma þjóðinni út úr þeim gífurlega efnahagsvanda sem við blasti.

Ríkisstj. hefur sett fyrstu aðgerðum sínum í efnahagsmálum eftirtalin markmið: Atvinnuöryggi, hjöðnun verðbólgu, viðunandi jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd og verndun kaupmáttar lægstu launa og lífskjara þeirra sem þyngst framfæri hafa. Aðgerðum í efnahagsmálum er ítarlega lýst í stefnuyfirlýsingu sem dreift hefur verið með ræðu þessari.

Fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum komu til framkvæmda með útgáfu fimm brbl. 27. maí s.l. Megininntak þeirra aðgerða er: Ákveðið var að verðbætur yrðu ekki greiddar á laun á tímabilinu frá og með 1. júní 1983 til og með 31. maí 1985. Hins vegar voru laun hækkuð um 8% 1. júní 1983, nema lágmarkstekjur samkv. kjarasamningum, sem hækkuðu um 10%, og öll laun um 4% 1. okt. s.l. Sömu hækkanir voru með lögum ákveðnar á launum bænda og á fiskverði svo og á bótum lífeyristrygginga. Frekari hækkun launa eða annarra greiðslna er óheimil á tímabilinu frá 25. maí 1983 til 31. jan. 1984. Með lögum er jafnframt aðeins leyfð óhjákvæmileg hækkun verðs eða endurgjalds fyrir vöru eða þjónustu til 31. jan. 1984.

Ákveðin var sérstök kostnaðarhlutdeild í útgerð, sem nemur 29% fiskverðs og kemur ekki til skipta, nema á fiskiskipum sem eru 240 brúttórúmlestir eða minni, þar sem 25% koma ekki til skipta. Lög um Olíusjóð fiskiskipa og olíugjald voru um leið felld úr gildi. Af útfluttum sjávarafurðum var tekinn 10% gengismunur og ráðstafað til útgerðar samkv. ákvörðun ríkisstj.

Ýmsar ráðstafanir voru jafnframt ákveðnar til verndar lífskjörum. Ákveðinn var sérstakur persónuafsláttur frá skatti, 1400 kr. fyrir hvern mann, og sérstakar barnabætur að upphæð 3000 kr. fyrir hvert barn sem er yngra en 7 ára. Uppbætur á lífeyri, tekjutrygging og heimilisuppbætur voru hækkaðar um 5% umfram hinar almennu launahækkanir. Mæðralaun voru tvöfölduð með einu barni og hækkuð um 30% með tveimur börnum og fleiri. 150 millj. kr. umfram fjárveitingar á fjárlögum var varið til jöfnunar og lækkunar á hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis. Heimilað var að fresta greiðslum á allt að 25% af samanlagðri fjárhæð afborgana, verðtryggingarþátta og vaxta verðtryggðra húsnæðislána. Þessar aðgerðir til verndar lífskjörum voru þegar framkvæmdar.

Til þess að skapa atvinnuvegunum starfsgrundvöll og svigrúm til að halda gengi stöðugu, þannig að festa gæti skapast í efnalagslífinu, var gengi íslensku krónunnar jafnframt fellt um 14,6%.

Fyrstu aðgerðir ríkisstj. einkenndust þannig annars vegar af róttækum ráðstöfunum til þess að draga úr verðbólgu og koma í veg fyrir stöðvun atvinnuvega og atvinnuleysi og erlenda skuldasöfnun, en hins vegar af viðleitni til þess að draga úr áhrifum aðgerðanna á afkomu þeirra einstaklinga og heimila sem ætla má að síst þoli skerðingu kaupmáttar.

Áhrif þessara aðgerða hafa þegar orðið mikil. Eftir lok júlímánaðar hefur verðbólga farið ört hjaðnandi. Framfærsluvísitala, sem nú er reiknuð mánaðarlega, hækkaði um 3.8% á tímabilinu 1. ágúst til 1. okt., sem er nálægt 25% umreiknað til árshraða og bera má saman við 131 frá 1. febr. til 1. maí, einnig reiknað í árshraða, og 118% 1. maí til 1. ágúst. Sýnir þetta glöggt að mjög hefur dregið úr verðbólgu. Vísitala byggingarkostnaðar hefur nú þrjá mánuði í röð hækkað um 22.5% á mánuði, í júlí til september, eða um 30% miðað við heilt ár. Áætlað er að viðskiptahalli verði 2.5% í ár, en var 10% s.l. ár.

Hlutfall erlendra skulda Íslendinga af þjóðartekjum hefur aukist mikið á liðnu ári og á þessu ári. Þetta stafar m.a. af miklum viðskiptahalla 1982, meiri erlendri lántöku en gert var ráð fyrir á því ári og minnkandi þjóðarframleiðslu. Gengislækkun krónunnar og sérstök hækkun á gengi dollarans, en stærsti hluti erlendra skulda þjóðarinnar er skráður í dollurum, valda hér einnig miklu. Áætlað er að erlendar skuldir verði orðnar um 60% vergrar þjóðarframleiðslu í lok þessa árs, en voru um 48% í lok s.l. árs. Erlendar skuldir eru taldar verða 32 milljarðar kr. í árslok 1983 miðað við áætlað meðalgengi þess árs. Greiðslubyrðin, þ.e. hlutfall vaxta og afborgana af útflutningstekjum, er þó enn innan við 22% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og lánstraust er enn viðunandi á erlendum lánamörkuðum. Afar mikilvægt er að erlendar skuldir í hlutfalli við þjóðartekjur aukist ekki frá því sem nú er.

Jafnskjótt og árangur efnahagsaðgerða fór að koma fram í mikilli hjöðnun verðbólgu voru vextir lækkaðir frá 1. sept. s.l. að telja, að meðaltali því sem næst um 7%. Hinn 21. okt. n. k. munu vextir lækka enn og þá sem næst um 3%. Lækkun afurðalánavaxta hefur ekki enn verið ákveðin. Lánskjaravísitala hækkaði 1. okt. s.l. um aðeins 1.4%. Ríkisstj. ákvað ennfremur, að höfðu samráði við forsvarsmenn útflutningsatvinnuveganna, að afurðalán vegna útflutnings verði að nýju bundin við gengi erlends gjaldeyris og með 9.5% vöxtum frá 21. sept. s.l. Með þessum vaxtalækkunum léttist mjög greiðslubyrði atvinnuvega og einstaklinga.

Við þessar nauðsynlegu aðgerðir gegn verðbólgu og erlendri skuldasöfnun hefur kaupmáttur tekna almennings óhjákvæmilega dregist saman. Þjóðhagsstofnun áætlar að kaupmáttur kauptaxta verði að meðaltali 18% lægri 1983 en 1982 og 22% lægri á síðasta fjórðungi þessa árs en á sama tíma í fyrra. Hins vegar er talið að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi skerst minna, eða að meðaltali um tæplega 13% á mann frá meðaltali s.l. árs.

Í sambandi við skerðingu kaupmáttar er rétt að hafa eftirgreind atriði í huga:

1. Þjóðarframleiðsla á hvern mann verður 9–10% minni 1983 en 1981.

2. Viðskiptahalli hefur verið mjög mikill undanfarin ár, eða 10% af þjóðarframleiðslu 1982 og 5% 1981. Lífskjörin verða að miðast við það að jafnvægi náist á þessu sviði.

3. Í hjöðnun verðbólgu felst veruleg kjarabót, ekki síst þar sem hún felur í sér öruggari atvinnu.

Hinn 1. okt. s.l. hækkuðu laun og fiskverð um 4%. Með samstilltum aðgerðum tókst jafnframt að halda hækkun búvöruverðs innan þeirra marka, nema hækkun á nýju kjöti, sem varð 14–15% vegna árshækkunar á kostnaði við slátrun. Staða atvinnuvega er almennt talin viðunandi, ef frá eru taldar nokkrar greinar innan sjávarútvegs, en þar er við sérstök vandamál að etja.

Ríkisstj. hefur ákveðið að gengi íslensku krónunnar verði fyrst um sinn haldið stöðugu. Gjaldskrár opinberra fyrirtækja verða óbreyttar a.m.k. fram til 31. jan. n.k. Með vísan til þess árangurs, sem þegar hefur náðst, má telja öruggt að verðbólga á síðasta fjórðungi þessa árs verði komin niður í eða niður fyrir 30% þegar verðbreytingar síðustu þriggja mánaða eru umreiknaðar til 12 mánaða.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1983 var stefnt að jafnvægi í ríkisfjármálum. óhjákvæmilegur samdráttur í innflutningi og veltu hefur hins vegar skert tekjur ríkissjóðs á sama tíma og útgjöld hafa aukist með verðbólgu. Útgjöld vegna þeirra mildandi aðgerða, sem ég hef lýst, námu um 450 millj. kr.

Horfur eru á því, að rekstrarhalli ríkissjóðs í árslok geti numið 800–900 millj. kr. og greiðsluhalli verði um 1000–1200 millj. kr. Þessi vandi verður ekki leystur á annan hátt en með lántöku.

Því miður virðist stefna í töluverða lánsfjárþörf ríkissjóðs á næsta ári. Þetta stafar m.a. af því sem þegar hefur verið rakið, en jafnframt hafa útgjöld ríkisins á undanförnum árum aukist verulega vegna nýrra verkefna, m.a. félagslegrar þjónustu. stefnt verður að því að leysa þennan vanda með innlendri fjáröflun og verða reyndar ýmsar nýjar leiðir í því sambandi. M.a. er í undirbúningi ný útgáfa af gengistengdum skuldabréfum, sem verða boðin til sölu innanlands ásamt venjubundnum spariskírteinum. Auk þess verða gefin út sérstök skuldabréf, sem tengjast tilteknum verkefnum, eins og væntanlegt skuldabréfaútboð vegna húsnæðislána. Með þessum hætti og fleiri ráðstöfunum verður stuðlað að því, að þau markmið náist sem ríkisstj. hefur sett sér varðandi erlendar lántökur á næsta ári. Tilhögun innlendrar fjáröflunar verður skýrð nánar í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun.

Í fjárlagafrv. er stefnt að því, að skattbyrði heimilanna af tekju- og eignarskatti verði að tiltölu ekki þyngri en á árinu 1983.

Vegna hinnar erfiðu stöðu ríkissjóðs og til þess að draga úr viðskiptahalla verður ekki hjá því komist, að umsvif hins opinbera dragist allmikið saman á árinu 1984. Þannig er ráðgert að draga úr opinberum framkvæmdum um 8–9%. Framlög ríkissjóðs til fjárfestingarlánasjóða eru ýmist alveg lögð niður eða þau takmörkuð. Byggingaráformum á ýmsum sviðum er slegið á frest og dregið úr byggingarhraða annars staðar. Verður ekki undan þessu vikist eigi ríkisstj. að geta staðið við loforð í húsnæðismálum, sem njóta forgangs.

Samneysluútgjöld á vegum ríkisins eru talin dragast saman um 3% árið 1984 miðað við áætlun 1983. Þannig er reynt að gæta ráðdeildar og aðhalds í ríkisrekstrinum.

Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1984 mun fljótlega verða lögð fyrir Alþingi. Í henni verður lögð rík áhersla á aukna innlenda fjáröflun og bætt jafnvægi á lánamarkaði innanlands, þannig að stöðva megi söfnun skulda erlendis. Síðustu áætlanir Seðlabankans benda til þess að erlend lántaka í ár verði um 5600 millj. kr. Til þess að skuldirnar aukist ekki sem hluti af þjóðarframleiðslu á næsta ári má erlend lántaka þá ekki verða yfir 4000 millj. kr., sé miðað við áætlað meðalgengi ársins í ár. Á áætluðu gengi 1984 verður samsvarandi upphæð 4500 millj. kr. Þar sem framboði fjármagns á innlendum lánamarkaði eru takmörk sett má af þessu ljóst vera að svigrúm ríkissjóðs, opinberra fyrirtækja og atvinnuveganna til lántöku verður mjög takmarkað.

Verðbólga undanfarandi ára hefur leikið atvinnuvegina grátt. Áætlanir hafa farið úr skorðum, rekstrarfé hefur skerst og greiðslubyrði vegna fjármagnskostnaðar verið gífurleg. Aflabrestur hefur haft mikil áhrif á þjóðarhag, en útgerðinni og sjómönnum hefur hann að sjálfsögðu orðið þyngstur í skauti. Áætlaður samdráttur afla árin 1982 og 1983 nemur um 16% frá árinu 1981.

Afkoma atvinnuveganna var orðin mjög ótrygg á s.l. vori og horfur í atvinnumálum því ískyggilegar. Ríkisstj. hefur atvinnuöryggi efst á stefnuskrá sinni. Því voru samhliða aðgerðum gegn verðbólgu gerðar ráðstafanir til að treysta rekstrargrundvöll atvinnuveganna eins og rakið hefur verið.

Um einstakar atvinnugreinar skal eftirfarandi tekið fram: Áhersla verður lögð á að ná hámarksafrakstri fiskistofna með hagkvæmum hætti. Í því skyni verða hafrannsóknir bættar með markvissri nýtingu þess fjár sem til þeirra er varið og með endurskoðun á rekstri hafrannsóknaskipa.

Stefnt verður að aukinni hagkvæmni við fiskveiðar. Fjárfesting verður takmörkuð, en aðgerðir til orkusparnaðar á fiskiskipum verða auknar. Sérstök áhersla verður lögð á gæði sjávarafurða á öllum sviðum veiða og vinnslu. Í nánu samráði við aðila atvinnugreinarinnar mun sjútvrn. áfram beita sér fyrir víðtækri kynningar- og fræðslustarfsemi um gæði sjávarafurða. Lög og reglur um Framleiðslueftirlit ríkisins verða endurskoðuð, m.a. með það í huga að ábyrgð framleiðenda og útflytjenda á framleiðslunni verði aukin. Verðlagning sjávarafurða fari eftir gæðum.

Erfitt árferði og markaðsaðstæður hafa haft slæm áhrif á afkomu í landbúnaði. Því var m.a. veitt aðstoð úr ríkissjóði vegna harðindanna á norðanverðu landinu s.l. vor.

Söluskattur af vélum og tækjum til landbúnaðar var felldur niður og nokkru af niðurgreiðslufé varið til lækkunar á áburðarverði til bænda í ár. Þessar aðgerðir leiddu jafnframt til þess, að búvöruverð til neytenda hækkaði minna en annars hefði orðið.

Aðlögun landbúnaðarframleiðslunnar að markaðsaðstæðum verður haldið áfram. Í því skyni verður leitast við að efla greinar eins og iðnaðarframleiðslu úr landbúnaðarafurðum, loðdýrarækt og fiskeldi, sem telja má víst að geti orðið mjög arðbærar og öflugar útflutningsgreinar. Slíkur rekstur getur orðið og á að verða til þess að styrkja byggð og auka atvinnutækifæri í dreifbýlinu en draga jafnframt úr framleiðslu þar sem markaðserfiðleikar eru.

Eftir aðgerðirnar í efnahagsmálum hefur fjárhagsafkoma iðnfyrirtækja farið batnandi. Í heild er gert ráð fyrir að iðnaðarframleiðsla standi sem næst í stað á þessu ári, en útflutningsframleiðsla iðnaðarvöru aukist um 5%.

Þau opinberu framkvæmdaáform sem fyrir liggja á sviði iðnaðar verða endurskoðuð vandlega og gengið úr skugga um að um arðbærar framkvæmdir sé að ræða.

Til þess að tryggja sem best samræmi milli markaðar fyrir orku og virkjunarframkvæmda fer fram endurmat á öllum áætlunum um orkuöflun.

Framkvæmdir við kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði geta hafist á miðju ári 1984, ef Alþingi samþykkir. Framkvæmdir við byggingu steinullarverksmiðju á Sauðárkróki munu væntanlega hefjast í byrjun næsta árs.

Þótt búast megi við eftirspurnarsamdrætti í vissum greinum iðnaðar, einkum þeim er tengjast byggingariðnaði, er gert ráð fyrir nokkurri aukningu iðnaðarframleiðslu árið 1984 og sömuleiðis nokkurri aukningu útflutnings.

Tekist hefur, eins og kunnugt er, að ná samkomulagi við svissneska álfélagið um endurskoðun á aðalsamningi þess og íslenska ríkisins um álbræðsluna í Straumsvík. Til bráðabirgða hefur náðst samkomulag um hækkun raforkuverðs í 10/1000 úr Bandaríkjadal eða 10 mills á kwst. Að því er stefnt að endurskoðun samningsins ljúki fyrir 1. apríl n. k., þannig að unnt verði að afgreiða á því Alþingi sem nú situr frv. til l. um breytingar á aðalsamningnum.

Eins og fram kemur í brbl. um verðlagsmál er aðeins heimiluð sú hækkun á vörum og þjónustu til 31. jan. n.k. sem nauðsynleg er til að standa undir óhjákvæmilegum kostnaðarhækkunum. Eftir það er gert ráð fyrir að draga úr opinberum afskiptum, þannig að neytendur og atvinnulífið njóti hagkvæmni frjálsrar verðmyndunar þar sem samkeppni er næg. Jafnframt er að því stefnt að sveitarfélög ákveði sjálf gjaldskrá þjónustufyrirtækja sinna. Áfram verður þó fylgst með verðlagningu opinberra fyrirtækja, sem og annarra. Einnig verður verðkönnunum beitt í ríkara mæli og upplýsingastarfsemi Verðlagsstofnunar um verðlag aukin.

Haldið verður áfram að tryggja sem hagstæðasta markaði erlendis fyrir íslenskar framleiðsluvörur, m.a. með virkri þátttöku í samstarfi Evrópuþjóða um fríverslun og sérstökum samningum við þær markaðsþjóðir sem ekki eru aðilar að því samstarfi. Vegna þýðingar utanríkisviðskipta fyrir Ísland er átíðandi að afþjóðaviðskipti séu frjáls og staðið sé gegn hvers konar óeðlilegum hömlum og verndarráðstöfunum sem torvelda þau.

Ég mun nú víkja að málefnum annarra ráðuneyta en ráðuneyta atvinnuveganna.

Gert er ráð fyrir því, að vegaframkvæmdir á næsta ári verði u.þ.b. 2.2% þjóðarframleiðslu eða svipað og í ár. Þetta er heldur lægra en ráðgert er í langtímaáætlun um vegamál. Hins vegar er þess vænst, að með auknum útboðum við nýbyggingu vega reynist unnt að framkvæma að mestu þau verk sem langtímaáætlunin gerir ráð fyrir.

Vegna erfiðrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs og viðleitni til að takmarka lántökur erlendis hlýtur óhjákvæmilega að verða nokkur samdráttur á næsta ári í framkvæmdum á ýmsum sviðum samgöngumála.

Frá því að þessi ríkisstj. var mynduð hefur verið lagt kapp á að finna leiðir til lausnar á vandamálum húsbyggjenda. Gert er ráð fyrir því, að Byggingarsjóður verkamanna og Byggingarsjóður ríkisins fái á fjárl. árið 1984 og á lánsfjáráætlun samtals 16 hundruð milljónir kr. til útlána á næsta ári. Í ár er samsvarandi upphæð 718 millj. kr. Hér er því um að ræða nokkru meira en tvöföldun á framlagi hins opinbera til húsnæðismála. Með þessu hækka öll lán frá og með næstu áramótum um 50%. Verða lánin þá nálægt helmingur af verði vísitöluíbúðar.

Ýmsar aðrar aðgerðir til hagsbóta fyrir húsbyggjendur hafa einnig verið ákveðnar, eins og t.d. að flýta afgreiðslu lána og lengja þau. Hið sama gildir um þá sem kaupa eldri íbúðir.

Auk þess ákvað ríkisstj. að afla fjármagns til þess að aðstoða þá sem hafa verið að byggja undanfarin 2–3 ár. Verða lán til þeirra hækkuð um 50%. Er ráðgert að verja í þessu skyni 250 millj. kr. Þá hefur ríkisstj. samið við viðskiptabanka um sameiningu lána og lengingu í átta ár fyrir þessa sömu aðila, auk þeirrar frestunar á greiðslu vaxta og álborgana sem fyrr er getið.

Til þess að fylgjast sem best með atvinnuþróun hefur verið ákveðið að efla vinnumáladeild félmrn. Auk þess sem upplýsingasöfnun um skráð atvinnuleysi verður aukin og bætt er gert ráð fyrir því að stjórnvöld og aðrir, sem á slíku þurfa að halda, fái í tæka tíð vísbendingu um framboð og eftirspurn á vinnumarkaði.

Unnið verður að því að heilsugæsla samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu komist sem allra fyrst á um allt land. Vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í fjárveitingum verður þó sérstök áhersla lögð á að ljúka þeim framkvæmdum sem þegar hafa verið hafnar, en nýjum framkvæmdum frestað um hríð.

Áhersla verður lögð á að lög um málefni aldraðra, sem gildi tóku í ársbyrjun 1983, komi, eftir því sem tök eru á, til framkvæmda á næsta ári.

Í því skyni að auka aðhald í sjúkrahúsarekstri mun verða ítarlega kannað fyrir endanlega gerð fjárlaga ársins 1984 hvaða sjúkrahús verða tekin beint inn á fjárlög á næsta ári.

Leitað er leiða til þess að veita sömu þjónustu í heilbrigðiskerfinu með minni tilkostnaði. Á næstu mánuðum munu niðurstöður þessara athugana koma fram.

Í athugun er hvort draga megi úr útgjöldum ríkissjóðs vegna lífeyris- og sjúkratrygginga með skipulagsbreytingu á Tryggingastofnun ríkisins og sjúkrasamlögum landsins. Þetta tengist sérstaklega þeirri viðleitni að færa meginhluta sjúkrastofnana beint inn á fjárlög. Umsvif sjúkratrygginga Tryggingastofnunar ríkisins minnka þá að sama skapi og fyrirkomulag sjúkrasamlaga þarf því að endurskoðast.

Með hliðsjón af mikilvægi fjölskyldunnar sem grunneiningar í þjóðfélaginu verður í skólastarfi lögð áhersla á að auka tengslin við fjölskyldulíf og á samheldni og samveru foreldra og barna. Einnig verður lögð áhersla á virkari tengsl skóla og atvinnulífs. Í því sambandi má nefna aukna fræðslu um tölvunotkun.

Áformuð er breytt og skýrari verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga í skólamálum, m.a. þannig að ýmis afmörkuð verkefni í fræðslumálum verði færð til sveitarfélaga. Jafnframt er unnið að frv. um skólakostnað.

Í menningarmálum vill ríkisstj. örva frjálsa og sjálfstæða listsköpun og annað menningarstarf og efla höfuðmenningarstofnanir þjóðarinnar.

Í fjölmiðlamálum verður unnið að auknu frjálsræði á sviði útvarps og sjónvarps.

Vegna hins þrönga fjárhags ríkissjóðs er í samstarfi við skóla og aðrar menningarstofnanir stefnt að aðhaldi í rekstri og framkvæmdum, en þó þannig, að ekki skerði fræðslu- og menningarstarf eða rannsóknir sem eru nauðsynlegir þættir fyrir lífvænlega byggð í landinu.

Að dóms- og kirkjumálum verður unnið með hefðbundnum hætti.

Gert er ráð fyrir breytingu á lögum um dómvexti, þannig að ákvæðin verði skýlaus.

Áformað er að lögfesta skýrari reglur um skyldur, ábyrgð og vinnubrögð fasteignasala, enda eru hagsmunir almennings í viðskiptum á þessu sviði geysimiklir.

Breyting á umferðarlögum varðandi skráningu bifreiða er ráðgerð svo og endurskoðun á reglum um skoðun bifreiða til sparnaðar og hagræðis. Endurskoðun á umferðarlögunum er jafnframt í undirbúningi.

Unnið er að heildarendurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála, sem er orðin mjög tímabær, og tillagna er einnig að vænta um breyt. á lögum um meðferð einkamála í héraði.

Á sviði kirkjumála er gert ráð fyrir að endurflytja frv. til l. um kirkjusókn, safnaðarfundi o.fl.

Í utanríkismálum leggur ríkisstj. höfuðáherslu á varðveislu sjálfstæðis landsins og hvers kyns gæslu hagsmuna okkar gagnvart öðrum ríkjum. Hún vill m.a. taka þátt í að efla norræna samvinnu svo og starf Sameinuðu þjóðanna til eflingar friði, mannúð og mannréttindum.

Því miður er ástand alþjóðamála enn ótryggt. Það er skoðun ríkisstj., að öryggi og sjálfstæði Íslands verði best tryggt með aðild að Atlantshafsbandalaginu og samstarfi við Bandaríkin á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 og viðbótarsamkomulags frá 1974. Jafnframt vill ríkisstj. leggja lið raunsærri viðleitni til gagnkvæmrar alhliða afvopnunar undir öruggu eftirliti. Brýnt er að árangur náist á því sviði í næstu framtíð.

Fullgildingu Íslands á hafréttarsáttmálanum verður hraðað og hvatt til þess að hann taki gildi sem fyrst. Í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstj. og vilja Alþingis verður einnig áfram unnið að því að tryggja frekar hafsbotnsréttindi Íslands í suðri og á Reykjaneshrygg og sporna gegn laxveiðum í hafinu sem andstæðar eru hagsmunum okkar.

Jarðvegsframkvæmdir í sambandi við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli eru hafnar á grundvelli 10 millj. kr. lántökuheimildar Alþingis svo og samnings við Bandaríkin frá 5. júlí s.l. Stefnt er að því að framkvæmdir við 2. áfanga, sem er fokheld bygging, hefjist næsta vor, að fenginni lánsfjárheimild Alþingis.

Stjórn landsmála felst ekki eingöngu í því að beita þeim tækjum sem stjórnvöld ráða yfir á líðandi stundu, heldur einnig í því að bæta sjálft stjórn- og hagkerfið. Því ákvað ríkisstj. að beita sér fyrir umtalsverðum breytingum á stjórnkerfinu.

Markmiðið er að einfalda opinbera stjórnsýslu, bæta hagstjórn og samræma ákvarðanir í opinberri fjárfestingu, draga úr ríkisumsvifum og efla eftirlit löggjafarvalds með framkvæmdavaldi.

Skipulag peninga- og lánastofnana er mikilvægur þáttur efnahagsmála. Brýnt er að tryggja aukna arðgjöf framkvæmdafjár.

Ríkisstj. hefur skipað nefndir til að vinna að athugun á tillögugerð um þessi málefni og er ráðgert að þegar á þessu þingi komi fram lagafrv. um sum þeirra.

Ég mun nú gera grein fyrir horfum 1984 og þeim markmiðum sem ríkisstj. telur rétt að setja sér fyrir næsta ár. Er jafnframt vísað til Þjóðhagsáætlunar, sem dreift hefur verið til þm.

Botnfiskafli er áætlaður sá sami á árinu 1984 og spáð er 1983 eða frá 300–320 þús. lestir af þorski og svipað af öðrum botnfiski. Gert er ráð fyrir því að loðnuafli geti orðið 400 þúsund lestir 1984. Þetta er vitaskuld spá sem háð er verulegri óvissu, því að fiskifræðingar hafa ekki enn getað aflað nauðsynlegra gagna. Þó er vitað að loðnustofninn er vaxandi.

Líklegt virðist að viðskiptakjör batni á þessu ári um 3.5%. Vegna erfiðleika á fiskmörkuðum er gert ráð fyrir því að viðskiptakjör batni ekki frekar á næsta ári. Nauðsyntegur samdráttur þjóðarútgjalda mun valda því, að þjóðarframleiðsla kann að dragast saman um 22.5%. Landsframleiðslan minnkar þó væntanlega minna eða um 1.5%. Flest bendir til þess, að þar með verði botni náð í þeim öldudal sem þjóðarbúið hefur verið í um tveggja ára skeið og grundvöllur myndist að nýju bataskeiði. Á þessum meginforsendum byggir ríkisstj. ákvörðun um markmið í efnahagsmálum á næsta ári. Þau eru þessi:

1. Ríkisstj. telur mikilvægt að verðbólga í lok næsta árs verði orðin sem næst því sem er í viðskiptalöndum okkar. Því hefur verið ákveðið sem markmið, að verðbólga í lok ársins 1984 verði undir 10% á ársgrundvelli.

2. Áhersla er jafnframt á það lögð að erlendar skuldir þjóðarinnar aukist ekki í hlutfalli við þjóðarframleiðslu, en lækki fremur á þann mælikvarða.

3. Ríkisstj. mun áfram leggja áherslu á aðhald og sparnað í ríkisrekstri. Þess verður þó gætt að ekki verði skerf sú félagslega þjónusta sem nauðsynleg er til þess að tryggja jöfnuð og öryggi þegnanna í landinu.

4. Í peningamálum verður jafnframt gætt aðhalds, en þó þannig, að ekki leiði til stöðvunar atvinnuvega og atvinnuleysis.

5. Vextir verða lækkaðir eins hratt og hjöðnun verðbólgu leyfir og ættu því miðað við ofangreint markmið að verða komnir niður undir 10% í lok næsta árs. Að því er stefnt að raunvextir verði jákvæðir og þannig verði stuðlað að auknum sparnaði.

Í fyrsta lið um efnahagsmál í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. segir:

„Festa verði sköpuð með raunhæfri gengisstefnu, sem ásamt aðhaldssamri fjármála- og peningastefnu myndi umgjörð ákvarðana í efnahagslífinu.“

Í samræmi við þetta stefnir ríkisstj. að sem mestri festu í gengismálunum á næsta ári. Seðlabankinn mun því halda gengi krónunnar sem stöðugustu á næsta ári, innan markanna 5% til hvorrar áttar, eftir því sem nánar verður ákveðið. Slík gengisstefna er að sjálfsögðu háð ýmiss konar óvissu, sérstaklega vegna breytinga á gengi gjaldmiðla erlendis og annarra breytinga á ytri skilyrðum þjóðarbúsins. En frá viðnámi við innlendri verðbólgu verður ekki hvikað og verður sú stefna einnig studd með aðhaldi á öðrum sviðum hagstjórnar.

Ég vil nota tækifærið og vísa algjörlega á bug fullyrðingu þess efnis, að gengisfelling sé á næsta ári. Það er alrangt.

Innan þessa ramma, sem nú hefur verið lýst, er gert ráð fyrir að efnahagslíf landsins þróist, m.a. samningar vinnuveitenda og launþega um kaup og kjör. Ekki er þess að vænta að gengið verði fellt til þess að koma til móts við óraunhæfa samninga eða samningum breytt með opinberum aðgerðum.

Í þessu sambandi er jafnframt nauðsynlegt að hafa í huga að svigrúm til þess að takast á við erfiðleika eða skakkaföll er mjög lítið vegna mikilla erlendra skulda. Það einstigi, sem fara verður út úr efnahagserfiðleikum þjóðarinnar, verður því að feta með varúð.

Miðað við þann góða árangur sem þegar hefur náðst í hjöðnun verðbólgu telur ríkisstj. ofangreind markmið raunhæf. Ef forsendur þjóðhagsáætlunar 1984 standast er hvorki nauðsynlegt né eðlilegt að skerða kaupmátt frekar en orðið er á síðustu mánuðum þessa árs. Nú er viðfangsefnið að leggja grundvöll að framförum. Launahlutföll hljóta hins vegar að ráðast í kjarasamningum. Ég vona að jöfnun kjara verði höfð að leiðarljósi í væntanlegum samningum.

Ríkisstj. mun áfram leggja áherslu á gott samráð við aðila vinnumarkaðarins um þróun efnahags- og þjóðmála. Samráðsfundir hafa verið haldnir í sumar og haust og m.a. hefur verið tekið upp það nýmæli að kveðja saman til fundar efnahagssérfræðinga allra aðila ásamt sérfræðingum ríkisstj. og Þjóðhagsstofnunar. Hefur sú nýbreytni mælst vel fyrir. Þessu mun fram haldið og áhersla á það lögð að aðilar vinnumarkaðarins geti fylgst náið með allri þróun mála.

Góðir Íslendingar. Við stöndum frammi fyrir miklum erfiðleikum og út úr þeim erfiðleikum verðum við að vinna okkur fyrst og fremst með aukinni framleiðslu og hagvexti, en án þess að til verðbólgu komi að nýju. Í því skyni mun ríkisstj. leggja áherslu á hagkvæma fjárfestingu og hagræðingu á öllum sviðum, bæði hins opinbera og atvinnuveganna. Ríkisstj. mun kappkosta að styðja nýjar og álitlegar framleiðslugreinar, bæði stórar og smáar.

Í þessu sambandi verður að sjálfsögðu fyrst og fremst byggt á framtaki einstaklinganna, sem við eðlilegar aðstæður í efnahagslífi eiga að geta gert öruggari áætlanir en verið hefur. Lögð verður áhersla á að virkja rannsókna- og þjónustustofnanir hins opinbera til þess að veita þá þjónustu sem þær mega í þessu skyni.

Þegar ríkisstj. tók við völdum blasti við stöðvun atvinnuvega og atvinnuleysi og reyndar var sjálft efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í mikilli hættu vegna hraðvaxandi verðbólgu og erlendrar skuldasöfnunar. Með róttækum og samstilltum aðgerðum hefur tekist að bjarga þjóðinni frá þessum voða. Vegna mjög erfiðrar stöðu atvinnuveganna eftir verðbólgu undanfarinna ára hafa launþegar orðið að bera miklar byrðar af þessu átaki, enda má segja að þeir hafi ekki síst átt til nokkurs að vinna, atvinnuöryggis.

Mikill árangur hefur náðst. Verðbólga mun í lok ársins verða komin niður fyrir 30%, fjármagnskostnaður fer ört lækkandi, atvinnuvegirnir eru alltraustir og atvinna næg. Þannig hefur verið brotið í blað í íslensku efnahagslífi.

Með staðfestu og aðgæslu á næsta ári má tryggja þann mikla árangur, sem hefur náðst, og koma verðbólgunni niður undir það sem er í helstu viðskiptalöndum okkar. Til þess að það megi takast hefur ríkisstj. mótað nýja stefnu í efnahagsmálum með því að ákveða umgjörð sem aðilum vinnumarkaðarins og atvinnuvegunum og einstaklingunum er ætlað að starfa innan án íhlutunar ríkisvaldsins.

Því verður aldrei neitað, að fyrir þjóð sem svo mjög er háð óviðráðanlegum duttlungum náttúrunnar og þróun efnahagsmála í umheiminum sem við Íslendingar geta ætíð verið hættur á næsta leiti. Til þess að geta brugðist við slíku og tryggt lífskjörin er nauðsynlegt að efnahagslífið sé heilbrigt og markvisst að því unnið að auka framleiðsluna og hagvöxtinn. Þannig verða lífskjörin og mannlífið sjálft bætt, því að auður þessa lands og hugvit einstaklinganna er næsta óþrjótandi og ber ríkulegan ávöxt ef rétt skilyrði eru sköpuð.