21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

45. mál, Norræni fjárfestingarbankinn

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mál sem hér um ræðir varðandi aukningu á framlögum Íslands til Norræna fjárfestingabankans hefur fengið samhljóða meðferð í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Hið sama gildir um frv. til l. um aukna hlutdeild Íslands í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þessi mál voru afgreidd samhljóða frá 2. umr. í hv. deild og án þess að kæmi til umr. um málið.

Nú hefur það hins vegar spurst inn í þingsalina, að einn af hæstv. núv. ráðh., þ.e. hæstv. fjmrh., sé ósamþykkur efni þessara frv. og áhöld séu um hvort hæstv. fjmrh. fellst á að tryggja í fjárlagafrv. og fjárlögum nægilega fjármuni til að staðfesta þær skuldbindingar Íslands sem gert er ráð fyrir í þessum tveimur frv., um Norræna fjárfestingabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem ég hygg að sé á dagskrá líka hér á eftir.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. viðskrh.: Er samstaða um það í ríkisstj. að tryggja þá fjármuni sem gert er ráð fyrir í þessum tveimur frv., sem ég leyfi mér að spyrja um í senn þó aðeins sé annað þeirra á dagskrá?