21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

45. mál, Norræni fjárfestingarbankinn

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég bar fram fsp. mína til hæstv. ráðh. til að það væri alveg skýrt fyrir þd. hver væri afstaða hæstv. ríkisstj. í málinu áður en það fengi frekari meðferð. Ég vil hins vegar spyrja enn í tilefni af þeim svörum sem hér eru komin.

Báðir ráðh. fullyrða að Seðlabankinn muni greiða fyrir þessa hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem gerir ráð fyrir að hann hækki úr 43.5 millj. SDR í 59.6 millj. SDR. Ég hefði haldið að það væri venja að ríkissjóður ábyrgðist greiðslur af þessum toga. Og vil spyrja að því, hvort það er ekki rétt hjá mér að í fjárlagafrv. hæstv: ríkisstj. hafi beinlínis verið gert ráð fyrir því, þegar frá því var gengið á sínum tíma og þegar það var lagt fyrir þingið, að ríkissjóður greiddi þessa hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er nokkuð sérkennilegt ef Seðlabankinn á að annast greiðslur af þessum toga án ábyrgðar ríkisstj. við atgreiðslu fjárlaga. Ég held því að nauðsynlegt sé að fá hér fram hvort ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum greiðslum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar frá fjárlagafrv. var gengið og hvort ekki er óvenjulegt að Seðlabankinn annist slíkar greiðslur fyrir Íslands hönd.