18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á komandi vori munum við Íslendingar minnast þess, að 40 ár eru liðin frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi. Þá sögðu vitrir menn að lýðveldisstofnunin væri tilraun. Og enn eftir 40 ár er lýðveldi á Íslandi í raun og veru tilraun — tilraun fámennrar þjóðar til að lifa og starfa í eigin landi, sjá sjálfri sér farborða og hafa með höndum forsjá sinna mála. Ef þessi tilraun á að takast skiptir mestu máli að við Íslendingar styrkjum þær þrjár höfuðstoðir sem lýðveldið byggist á: efnahagslegt sjálfstæði, menningarlegt sjálfstæði og stjórnarfarslegt sjálfstæði.

Auðvitað værum við vanþakklát ef við gerðum okkur ekki grein fyrir því, að mikið hefur áunnist á þessum 40 árum, sem eru að líða. Ég held samt sem áður, að sjaldan höfum við verið jafnnálægt því og á s.l. vori að tefla þessum árangri í hættu og stefna efnahagslegu sjálfstæði okkar í voða. Í kosningabaráttunni á s.l. vori var mönnum að vísu ljóst að mikill vandi var okkur á höndum, en þó reyndust vandamálin enn geigvænlegri þegar að stjórnarmyndun kom eftir kosningar en menn höfðu jafnvel álitið í hita baráttunnar fyrir kosningar.

Sú vinstri stjórnarstefna sem ríkt hafði í nærfellt fimm ár hafði leitt til þess, að enginn afrakstur sást eftir eitt mesta góðæri sem við Íslendingar höfum notið, árin 1980 og 1981, og þegar ytri skilyrðin versnuðu á árinu 1982 og áfram á þessu ári fór í raun og veru flest úr böndum.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum sjálfum gætti samt sem áður ekki þess raunsæis sem nauðsynlegt var til þess að ráðast gegn erfiðleikunum og ráða við vandamálin.

Ljóst var að Alþb. hafði í raun gefist upp, vildi ekki viðurkenna staðreyndir og flúið vandamálin sem það hafði átt mestan þátt í að skapa. Alþfl. sýndi þó viðleitni, en skorti kjark þegar að úrslitastundu var komið vegna þess klofnings sem varð í liði hans eftir stofnun Bandalags jafnaðarmanna. Bandalagið og Kvennalistinn létu hvorki mikið til sín taka né höfðu frumkvæði, sem e.t.v. var ekki heldur von að gerðist eins og í pottinn var búið.

Eins og kunnugt er slitnaði tvívegis upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstfl. og Framsfl. Ágreiningurinn snerist ekki um hvort taka ætti kaupgjaldsvísitöluna úr sambandi, heldur um hitt, hvort samningsrétturinn skyldi afnuminn um tíma eða ekki. Við sjálfstæðismenn töldum óhætt að samningsrétturinn yrði frjáls og að framkvæma bæri aðgerðir ríkisstj. í trausti þess að aðilar vinnumarkaðarins tækju fullt tillit til ríkjandi aðstæðna. Framsfl. taldi óhjákvæmilegt að lögbinda samninga um skeið og sú málamiðlun varð milli þessara flokka að lögbinding skyldi standa í sjö mánuði.

Nú virðast launþegasamtökin ætla að gera þetta að meginmáli gegn ríkisstj. Ég vil í þessu sambandi minna á í fyrsta lagi, að verkalýðsfélög sögðu samningum ekki upp fyrr en frá og með 1. sept. svo hér er aðeins í raun um fimm mánaða tímabil að ræða. Nú eru rúmir þrír mánuðir eftir af því. Oft hafa kjarasamningar tekið lengri tíma og því tímabært að hefja þá. Í öðru lagi hafa verkalýðsfélög og vinnuveitendur fulla heimild til þess að semja um öll önnur atriði kjarasamninga en kaupgjaldsliðina.

Í umræðum um kjaramálin að undanförnu hefur heyrst sú röksemd, að skerðing samningsréttar hér í nokkra mánuði væri sambærileg við afnám mannréttinda í Póllandi. Ég vil ekki leggja nafn Guðs við hégóma, en Guð hjálpi því fólki sem þannig talar. Og hvílíkt skilningsleysi á högum og kjörum verkamanna í Póllandi, sem hafa verið rændir öllum mannréttindum. Þeir sem þannig tala ættu að bregða sér til Póllands og kynnast ástandinu þar af eigin raun.

Hvað vísitölubindingu launa snertir, sem óheimil er um tveggja ára skeið, hefur reynslan sýnt að hún hefur ekki orðið launþegum sá bjarghringur sem ætlast var til í upphafi, heldur til skaða þeim jafnt og þjóðinni í heild.

Ég held að það hafi verið Lúðvík Jósepsson sem sagði eitt sinn að það væri auðvitað ekkert vit í því að laun hækkuðu á Íslandi vegna þess að kaffiverð hefði hækkað á heimsmarkaði í kjölfar uppskerubrests í Brasilíu. Það sjá auðvitað allir hversu fáránlegt það er. Með sama hætti er auðvitað ekki hægt að hækka fiskverð hér heima nema fiskverð hækki á mörkuðum okkar erlendis eða aukin framleiðni verði í vinnslu. Ef við annars vegar hækkum laun hér innanlands vegna þess að innfluttar vörur hækka og hins vegar án þess að útflutningsvörur okkar hækki í verði eða aukin framleiðni eigi sér stað, þá erum við einungis að blekkja okkur. Afleiðingin verður gengislækkun og óstöðvandi verðbólga í landinu, en uppi standa slyppir og snauðir launþegar almennt og þá ekki síst hinir lægst launuðu.

Nú er sagt að aðgerðir ríkisstj. hafi leitt til þess að kjaraskerðing hafi verið mikil á þessu ári. Við skulum vissulega gera okkur grein fyrir því, að veruleg kjaraskerðing hefur átt sér stað. Menn nefna 13–18% kjaraskerðingu, allt eftir því hvort um rauntekjur eða kauptaxta er að ræða. En þá skulum við líka átta okkur á því, að þjóðartekjur á mann hafa lækkað um 11% frá árinu 1981. Það ár blés byrlega í öllum okkar þjóðarbúskap vegna hagkvæmra ytri aðstæðna, en samt sem áður eyddum við um efni fram svo að viðskiptahallinn nam 5% af þjóðarframleiðslu og þessi halli óx á s.l. ári upp í 10% af þjóðarframleiðslu.

Þegar svo var komið að erlendar skuldir, sem við höfðum hleypt okkur í, voru komnar upp í 60% af þjóðarframleiðslu og gerðu kröfu til þess að nær fjórða hver króna okkar færi í greiðslu afborgana og vaxta, — þegar svo var komið að verðbólgan í landinu var orðin 130%, — þegar svo var komið að húsbyggjendur voru að verða gjaldþrota — þegar svo var komið að stöðvun atvinnufyrirtækja víða um land var fyrirsjáanleg og atvinnuleysi blasti við fleiri heimilum á Íslandi en nokkur dæmi eru um, — þá varð eitthvað til bragðs að taka.

Nauðsynlegt var auðvitað að draga úr þjóðarútgjöldunum. Launakostnaður er einn stærsti þáttur þjóðarútgjaldanna. Úr þeim kostnaði varð því að draga. Þeir stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar sem segja kjósendum sínum annað eru að skrökva að þeim vísvitandi og verðskulda ekki traust landsmanna.

Það er gjarnan sagt að í raun og veru hafi ekkert annað verið gert af hálfu þessarar ríkisstj. en að ráðast á launin. En þetta er ekki rétt. Ég minni á það, að samkv. framlögðu fjárlagafrv. er í fyrsta sinn í mörg ár ætlunin að draga úr samneyslu um 2–3%. Það getur að vísu orðið til þess, að við fáum ekki alveg þá sömu þjónustu opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, og við helst viljum, en það er þó stefna og markmið núv. ríkisstj. að draga þannig úr útgjöldum að haldið sé uppi nauðsynlegri þjónustu og tryggingu gagnvart þeim sem minna mega sín í lífinu.

Ég minni einnig á það að draga skal úr fjárfestingu um 10–15% á þessu og næsta ári og þar á meðal og ekki síst úr opinberri fjárfestingu. Auðvitað vildum við að ýmsar nytsamar framkvæmdir sjái dagsins ljós. Auðvitað er það ákveðið hættuspil að draga úr fjárfestingu atvinnuveganna vegna þess að fjárfesting í atvinnurekstri á vissulega að skila arði og vera undirstaða þess að unnt sé að greiða hærra kaup og bæta lífskjörin. En það er ekki unnt að borga þá peninga sem ekki eru til. Og við getum hvorki né viljum auka enn erlenda skuldabyrði. Við gerum okkur sömuleiðis grein fyrir að fjárfesting bæði af opinberri hálfu og atvinnuvega og atvinnufyrirtækja hefur ekki verið byggð á þeirri forsjálni sem nauðsynleg er. Skýringin er fyrst og fremst óðaverðbólgan, sú staðreynd að okkur Íslendinga hefur skort viðmiðun og mælikvarða á hvað er hagkvæmt í framkvæmdum og fjárfestingu. Þess vegna hefur fjárfestingin ekki verið svo arðbær sem skyldi og oft og tíðum orðið til þess að skerða lífskjörin í stað þess að bæta þau. Þess vegna skiptir líka öllu máli að þessu leyti að sigrast á verðbólgunni.

Samræmdar aðgerðir í ríkisfjármálunum og peningamálunum eru nauðsynlegar, ef það á að takast. Þannig hefur verið unnt að lækka vexti verulega nú tvívegis í kjölfar lækkaðrar verðbólgu. Lánstími húsnæðislána hefur verið lengdur og lán hækkuð um 50%, sem er áfangi á þeirri leið að lánuð verði allt að 80% af byggingarkostnaði til þeirra sem byggja sína fyrstu íbúð.

Dregið hefur verið úr tekjusköttum einstaklinga, með hækkun persónuafsláttar og barnabóta, sem er áfangi á þeirri leið að fella niður tekjuskatt á almennum launatekjum.

Felldur hefur verið niður skattur á ferðamannagjaldeyri. Fleira mætti nefna, ef tíminn leyfði. Margháttaðar ráðstafanir hafa þannig verið gerðar af stjórnvöldum aðrar en í launamálum, en kjarni málsins er sá, að ekkert skerðir lífskjörin meira en verðbólgan sjálf. Sú röksemd var einu sinni höfð uppi af hálfu Alþýðusambands Íslands — fyrir nokkrum misserum — að lækkun verðbólgu úr 80% í 60% jafngilti 4% kjarabót vegna þess að verðbætur á laun kæmu ávallt seinna en verðhækkanirnar. Ef við beitum álíka röksemdafærslu við núverandi aðstæður, þegar verðbólgan hefur á skömmum tíma minnkað úr 130% í 30%, jafngildir það 20% kjarabót. En þetta var röksemdafærsla annarra, ekki nauðsynlega mín.

Sumir tala um að ríkisstj. hafi farið of geyst í sakirnar, ætlað að ná of miklum árangri á of skömmum tíma. Ég er algerlega ósammála þessari skoðun og tala þar af nokkurri reynslu.

Vorið 1978 hafði þáverandi ríkisstjórn tekist að ná verðbólgunni úr 60% í 26%, en þá var langlundargeð fólks þrotið. Mönnum fannst þetta of lítill árangur á of löngum tíma.

Ég er sannfærður um það að launþegahreyfingin mun ekki ganga gegn núverandi ríkisstj. með krepptan hnefann, eins og hún gerði vorið 1978. Ef aðgerðirnar veturinn og vorið 1978 hefðu fengið að sýna sig í verki hefðum við ekki þurft að ganga í gegnum fimm ára vinstristjórnartímabil í kjölfar þeirra.

Ég bið ykkur að hugleiða hvernig staðan væri í dag ef aðgerðirnar 1978 hefðu náð fram að ganga. Þeir sem hugleiða það munu að mínum dómi ekki taka þátt í neinum aðgerðum nú til þess að hrinda þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir.

Allir stjórnmálaflokkar hafa á orði í umr. sem þessum að þeir vilji bæta hag hinna lægst launuðu. Ég er sammála því að það á að bæta hag hinna lægst launuðu, en ég leyfi mér að segja að engin röksemd í kjaramálum hefur verið jafnmikið misnotuð og einmitt þessi. Sannleikurinn er sá, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að þeir sem hærri launin hafa og hinir sem meðallaun vilja gjarnan skríða upp eftir bakinu á hinum lægst launuðu og bera þá fyrir sig til þess að ná fram betri kjörum fyrir sjálfa sig. Það hefur yfirleitt mistekist að bæta kjör hinna lægst launuðu umfram aðra vegna þess að hinir hafa aldrei sætt sig við það. Það þarf ekki annað en að vísa til viðbragða verkalýðsforustu Alþb. 1978 þessu til staðfestingar. Og staðreynd er að þeir sem hafa lægstu launin sýna oft meiri þolinmæði og skilning á nauðsyn þess að atvinnufyrirtækin fái tækifæri til að rétta við en hinir sem við betri kjör búa.

Raunar er það mín skoðun, að ákveðinn launamunur sé ekki af hinu illa, heldur hvati fyrir fólk til að leggja sig meira fram, og slíkur launamunur kemur hinum lægst launuðu til góða vegna þess að hann eykur verðmætasköpunina og bætir því lífskjörin í landinu. Ég held að hinir lægst launuðu hafi fengið nóg af lýðskrumi, þegar haft er stöðugt á orði nauðsyn þess að bæta kjör þeirra, en athafnir fylgja ekki orðum eins og verkalýðsforusta Alþb. gerir sig seka um.

Spurningin er nú sú, hvort við getum sýnt ofurlítið meira langlundargeð og þrautseigju og með því tryggt sigur yfir verðbólgunni. En skortir okkur kannske þessa þolinmæði og þessa þrautseigju? Það er ósköp auðvelt að krefjast 30–40% kauphækkunar í krónutölu, en hver er nokkru bættari? Það er í það minnsta rétt að við gerum okkur grein fyrir því, að áframhaldandi verðbólguþróun hefði stefnt öllu í voða og þess vegna er það algerlega út í loftið að vera að tala um kjararýrnun vegna þess að spurningin vaknar um leið í huga manns: Við hvað er þá miðað? Hvernig hefðu íslenskir launþegar staðið hefði ekkert verið gert? 130% verðbólga í vor án aðgerða stjórnvalda hefði leitt til mun hærri verðbólgu nú í haust svo að hjól atvinnulífsins hefðu örugglega stöðvast og atvinnuleysi, eymd og volæði haldið innreið sína meðal landsmanna.

Það eru þess vegna orð að sönnu þegar við sjálfstæðismenn segjum að við séum nú á réttri leið. Íslendingar eiga um það að velja hvort þeir vilja nú tryggja sigur yfir verðbólgu, tryggja það að traustur grundvöllur sé byggður undir atvinnuvegi landsmanna, sem síðan geti orðið til þess að unnt sé að bæta þjóðarhag og kjör heimilanna og atvinnufyrirtækjanna í landinu, eða hleypa 100–200% verðbólgu aftur af stað.

En við skulum líka gera þá kröfu til stjórnvalda og okkar sjálfra, að þeim aðgerðum sem beitt hefur verið í baráttunni gegn verðbólgu og svo mikinn og góðan árangur hafa borið verði fylgt fram með nýrri atvinnustefnu, með því að ríkið dragi úr umsvifum sínum og skattheimtu, en veiti einstaklingum og atvinnufyrirtækjum, hvort sem þau eru rekin sem einkafyrirtæki eða á félagsgrundvelli, svigrúm, enda beri menn ábyrgð á gerðum sínum.

Herra forseti. Þótt þáttaskil í efnahagsmálum hafi hér aðallega verið gerð að umræðuefni vil ég ekki ljúka máli mínu án þess að geta þáttaskila á tveim öðrum sviðum.

Á sviði orkumála og stóriðju er ný sókn hafin eftir stöðnun undanfarinna ára og brotist er út úr sjálfheldu fyrrverandi iðnrh. og Alþb. með bráðabirgðasamkomulagi í álmálinu.

Á sviði öryggis- og varnarmála hefur núverandi ríkisstj. eytt margra ára óvissu. Það er ekki lengur til staðar neitunarvald sem kemur í veg fyrir framgang nauðsynlegra framkvæmda í þágu öryggis og friðar.

Við Íslendingar verðum að halda vöku okkar á mörgum sviðum. Tilraunin sem hófst með lýðveldisstofnuninni tekst ekki nema við kunnum fótum okkar forráð heima fyrir og getum tryggt efnahagslegt sjálfstæði okkar. Stjórnarfarslegu sjálfstæði höldum við ekki án efnahagslegs sjálfstæðis. Menningarlegt sjálfstæði okkar tekst okkur ekki heldur að vernda nema efnahagslegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði sé til staðar. Allt er þetta samofið.

Ég vonast til þess að vori, þegar haldið verður hátíðlegt 40 ára afmæli lýðveldisstofnunar á Íslandi, að þá hafi Íslendingar sýnt það og sannað að veturinn hafi verið vel nýttur og sigur unnist á verðbólgunni og þeim upplausnaröflum sem við höfum stundum átt við að glíma þegar mikið hefur legið við. Nú ætti öllum að vera ljóst, reynslunni ríkari, að við höfum ekki nema eina leið að fara-þá réttu leið sem við erum loks byrjuð að rata.

Ég þakka áheyrnina.