21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er nú alveg óhjákvæmilegt að fá betri skýringar á þessu máli áður en það fer lengra. Það hefur komið fram hér í þessari umr.hæstv. fjmrh. telur að ríkissjóður eigi ekki að taka á sig neinar ábyrgðir vegna hækkunar á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 43.5 millj. SDR í 59.6 millj. SDR. En þó stendur í aths. með lagafrv. að þar sé leitað heimildar fyrir ríkisstj. til að taka þátt í áttundu almennu hækkun kvóta í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr samtals 61 milljarði SDR í 90 milljarða SDR. Við þetta hækkar kvóti Íslands eins og ég at um áðan.

Ég vil inna eftir því og get ekki fyrir mitt leyti tekið þátt í afgreiðslu málsins frekar hér í deild öðruvísi en að það sé ljóst hvernig Seðlabankinn ætlar að greiða þessa sérstöku hækkun. Af hvaða fé? Hvaða uppspretta fjármuna er það sem Seðlabankinn hefur sérstaklega yfir að ráða til þess að rækja og sinna þannig alþjóðlegum skuldbindingum? Hvaða fjármunir eru það? Hvaða reikningur er það í Seðlabankanum sem allt í einu opnast núna síðustu daga með bréfaskriftum til hæstv. fjmrh.? Hvaðan kemur Seðlabankanum þetta fé? Er þetta kannske fé sem varð til í bankanum sjálfum — eins og Jóhannes Nordal greindi frá að væri notað til að byggja fyrir? Þeir væru að saga niður gabbró fyrir peninga sem verða til í bankanum án þess að nokkur maður eiginlega borgi þá. Það er dálítið sérkennileg peningaframleiðsla og verðmætasköpun sem á sér stað í þessari stofnun, að því er virðist, að mati forráðamanna hennar. Og eru þeir þá að ganga á þessa sömu fjármuni, þessa gabbrópeninga fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Er það byggingarsjóðurinn kannske sem á að standa undir þessari kvótaaukningu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Verður þá sparað í gabbróinu á meðan verið er að borga, eða hvað er hér á seyði? Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að þeir Seðlabankamenn geri grein fyrir því hvaðan þessir peningar eru komnir. Hvaða fjármunir eru það sem hér er um að ræða?

Og hvernig stendur á því að Seðlabankinn ætlar að leggja þetta fram án þess að ríkisvaldið komi þar í raun og veru nokkurs staðar nærri eða ríkissjóður? Auðvitað getur Seðlabankinn ekki átt neina peninga í þessu skyni það segir sig alveg sjálft. Seðlabankinn hefur tekjur af sköttum, sem hann leggur á landsmenn, sína viðskiptamenn, m.a. atvinnuvegi í stórum stíl. Auðvitað tekur Seðlabankinn þessa peninga af viðskiptum sínum við landsmenn og sérstaklega atvinnuvegina. Á þá að fara að skattleggja atvinnuvegina hér sérstaklega fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Er hæstv. fjmrh. að leggja það til að atvinnuvegirnir verði skattlagðir alveg aukalega í þeim kröppu kringumstæðum sem nú eru í okkar efnahagslífi í þágu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Hvaða leikaraskapur er þetta? Hvaða feluleikur er þetta af hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. í þessu máli? Geta þeir kannske svarað fyrir þetta hv. 1. þm. Suðurl. og hv. 2. þm. Reykv., formaður og varaformaður Sjálfstfl.? Geta þeir greint frá því hvernig þeir ætla að leysa þetta innanflokksvandamál sem hér er bersýnilega uppi? Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar.

Hér er á ferðinni í raun og veru stóralvarlegt mál, vegna þess að hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar var búin að afgreiða þetta mál samhljóða, gerandi ráð fyrir því að með það yrði farið eins og venja er til varðandi hækkanir á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og síðast var gert árið 1979 í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar. En þegar kemur að afgreiðslu málsins hér í deild þá lýsir hæstv. fjmrh. því yfir að Seðlabankinn sé þarna með aukapeninga til þess að borga í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég mun ekki greiða atkvæði á móti þessu máli. Ég treysti mér hins vegar ekki til að stuðla að frekari framgangi þess með atkvæði mínu fyrr en ég hef fengið betri skýringar frá hæstv. ráðherrum á þessu máli. Það er óhjákvæmilegt að þær fáist hér fram strax við þessa umr.