21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hvað átti nú þessi lestur hjá hæstv. viðskrh. að þýða? Hvað átti hann að þýða? Hvað sagði hann? Hann sagði það, að Ísland hefur einu sinni áður, og raunar oft, en m.a. í minni tíð samþykkt að hækka kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nú, að sjálfsögðu, enda var deilan ekki um það, heldur hitt — hver borgar þetta? Hæstv. viðskrh. er mát í því máli og les upp gamla lagatexta vegna þess að hann getur engu svarað, hann er í vandræðum.

Hann ætti að fletta upp í fjárlagafrv. hæstv. núv. ríkisstj., sem núv. hæstv. fjmrh. mætti líka gera, á bls. 188, en þar stendur með leyfi forseta:

„Útstreymi á lánahreyfingum ríkissjóðs er tvíþætt: Hlutafjár- og eiginfjárframlög ríkissjóðs og afborganir af áhvílandi lánum. Hlutafjár- og eiginfjárframlög ríkissjóðs eru áætluð 75 millj. á árinu 1984. Hér er um að ræða eftirtalin framlög:

1. Í samræmi við lög nr. 13/1981 er ríkisstj. heimilað að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld Útvegsbankans í Seðlabanka Íslands. Föst árleg greiðsla að fjárhæð 7.5 millj. kr. skoðast sem eiginfjárframlag ríkissjóðs til bankans. Er þetta þriðja greiðslan af tólf.

2. Stofnfjárframlag til Alþjóðaframfarastofnunarinnar, IDA, nemur alls 3 660 þús. kr., vegna væntanlegra ákvarðana aðildarríkjanna um sjöunda stofnfjárframlagið til stofnunarinnar. Á árinu 1983 runnu 3 660 þús. til 1DA. Auk þess voru teknar 3 660 þús. kr. að láni hjá Seðlabanka Íslands til að ljúka greiðslu sjötta stofnfjárframlags Íslands til stofnunarinnar.

3. Samkvæmt lögum nr. 32/1982 var ríkisstj. falið að semja um aukningu á hlutafjáreign Íslands í Alþjóðabankanum. Á árunum 1984–1987 verður hlutafjárframlag Íslands 11 856 þús. kr., föst upphæð á hverju ári.

4. Á fundi Norðurlandaráðs 1983 var samþykkt að auka hlutafé Norræna fjárfestingabankans úr 400 millj. SDR í 800 millj. SDR. Framlag Íslands þarf að nema að jafngildi 110 þús. SDR á ári hverju á tímabilinu 1984–1986. Hlutafjárframlag Íslands 1984 er því áætlað 3 306 þús. kr.“

Hér er m.ö.o. skrá yfir þær skuldbindingar sem ríkissjóður ætlar sér og á lögum samkv. að standa við á árinu 1984 og gera verður ráð fyrir í fjárlagafrv. Það sem ég var að spyrja um var þetta: Hvaðan koma Seðlabankanum fjármunir til þess að borga þessa upphæð öðruvísi en ríkissjóður standi á bak við það? Í frv. stendur auðvitað að Seðlabankinn eigi að greiða þetta fé. En venjan hefur verið sú að það hefur verið litið á þessa fjármuni sem lán Seðlabankans til ríkissjóðs. Nú er staðan hins vegar þannig að hæstv. fjmrh. neitar að greiða þessa fjármuni með þeim hætti sem gert hefur verið á undanförnum árum, eins og hann viðurkenndi hér áðan, og ætlar sér í staðinn að láta Seðlabankann um að greiða þessa upphæð. Það er þetta grundvallaratriði sem ég er hér að fara fram á upplýsingar um. Ég er að óska eftir upplýsingum. Það væri t.d. fróðlegt ef hæstv. fjmrh. læsi upp það bréf sem hann kveðst háfa í höndunum frá Seðlabankanum um þetta mál, þannig að fyrir þd. liggi afgerandi upplýsingar í þessu efni, vegna þess að þegar þingnefndin afgreiddi málið þá var gert ráð fyrir því að ríkissjóður stæði á bak við þessa greiðslu. Um það var talað í þingnefndinni, m.a. þegar Þórhallur Ásgeirsson ráðuneytisstjóri í viðskrn. kom á fund n. Þá var um það rætt að ríkissjóður stæði á bak við þessa greiðslu, þó að Seðlabankinn leggi þetta fram. (Gripið fram í: Þórhallur fjallaði ekkert um þetta mál.) Sigurgeir fjallaði um hitt málið — reyndar voru þau bæði rædd við Þórhall vegna þess að Þórhallur þekkir þau bæði mjög vel. Og í þessum efnum liggur þetta þannig að spurningin er þessi: Hvaðan á að taka fjármuni úr Seðlabankanum til að borga þessa hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Hæstv. ráðherrar hafa ekki getað svarað þeirri spurningu enn þá, lesið hér upp úr gömlum lagatextum, sem segir auðvitað ekki neitt í þessu máli.