21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er býsna fróðlegt að koma hér í þingsalinn og sjá vandræðaganginn hjá hæstv. ráðherrum og hve aumingjalegir þeir eru í svörum varðandi þær einföldu spurningar sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur borið hér fram. Það er ekki von á góðu ef annað er eftir þessum fáeinu mínútum sem ég hef haft tækifæri til að fylgjast með landsstjórninni hér í verki í þingsalnum.

Það er greinilegt að aðalverkefni hæstv. viðskrh. er að bjarga andlitinu á hæstv. fjmrh. og hæstv. fjmrh. að reyna að klóra sig fram úr ábyrgð sem hann ber þó engu að síður samkv. lögum.

Það stendur skýrt í lögum um Seðlabanka Íslands, í 20. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Seðlabankinn hefur með höndum framkvæmd greiðslusamninga við önnur ríki svo og viðskipti við alþjóðafjármálastofnanir í umboði ríkisstj.

Í 22. gr. sömu laga um Seðlabanka Íslands segir: „Seðlabankinn er fyrir ríkisins hönd fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum“, fyrir ríkisins hönd. Hver er fjmrh. ríkisins? Hv. þm. Albert Guðmundsson er hæstv. fjmrh. og fyrir hönd þess ríkis, sem hann er fjmrh. yfir, annast Seðlabankinn þessar færslur og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er þess vegna algjörlega ljóst að það er ríkisstj. sem er hinn ábyrgi aðili, samkv. lögum um Seðlabanka Íslands, gagnvart þessari greiðslu.

Nú væri æskilegt að hæstv. forsrh. upplýsti hvort ríkisstj. hefur gert samþykki í þessu máli og þá hvort hæstv. fjmrh. hefur staðið að þeirri samþykki eða hvort hann hefur verið í minni hluta. Ég sé að hæstv. viðskrh. er önnum kafinn við að kenna hæstv. fjmrh. hvað hann á að segja hérna í ræðustól. Það er greinilegt að þeir eru eitthvað illa lesnir heimastílarnir hjá hæstv. fjmrh. núna. Er hæstv. viðskrh. búinn að kenna honum lexíuna, svo að hægt sé að halda áfram að ræða málið? (FrS: Hann var á landsfundi Alþb.) Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur greinilega mikinn áhuga á landsfundum ýmissa stjórnmálaflokka. Það er skiljanlegt.

En um efnisþátt málsins væri nauðsynlegt að hæstv. forsrh. upplýsti á hvern hátt málið var afgreitt í ríkisstj. Hvort hæstv. fjmrh. hefur greitt málinu þar atkvæði eða ekki. Hefur hæstv. fjmrh. nú þegar greitt því atkvæði í ríkisstj. að Seðlabankinn, skv. 20. og 22. gr. laga um Seðlabanka Íslands, annist þetta fyrir ríkisins hönd eða var hæstv. fjmrh. andvígur því í ríkisstj.? Þetta er spurning um einfaldar staðreyndir og það er óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. upplýsi þær hér.

Það er einnig nauðsynlegt að hæstv. viðskrh. svari mjög skýrt þeirri spurningu sem hv. þm. Svavar Gestsson bar hér fram: Hver á að greiða þessa peninga? Eða er fjármálastjórn landsins e.t.v. orðin svo auðveld að það sé einfaldlega hægt að segja að ef Seðlabankinn sé fjárhagslegur aðili að einhverri stofnun fyrir hönd ríkisins þá sé málið ekkert vandamál. Þá þurfi ekkert að svara því hver eigi að borga? Þá gerir bara Seðlabankinn það. Hæstv. fjmrh. getur komið hér í stólinn og bara velt vöngum og sagt: Það er bara Seðlabankinn sem gerir þetta. Þetta mál kemur mér ekkert við. Þarna er kannske komið að hinu fræga pennastriki. Bara búa til lítil lög með lítilli grein þar sem stendur: Seðlabankinn er fyrir ríkisins hönd fjárhagslegur aðili að útgerðinni á Íslandi. Þar er m.a. s. hægt að nota sama orðalag og hæstv. fjmrh. ber fyrir sig þegar hann er að reyna að skjóta allri ábyrgð af sér í þessu máli yfir á Seðlabankann. Nota hans eigin orð, tilvitnun í 22. gr., og segja: Seðlabankinn er fyrir ríkisins hönd fjárhagslegur aðili að útgerðinni á Íslandi. Þar með ætti ráðh., með nákvæmlega sömu rökum og hann hefur beitt hér, að geta komið upp í ræðustól og sagt: Málið er leyst. Það er bara Seðlabankinn sem borgar þetta. Ríkissjóður þarf þar hvergi nærri að koma.

Herra forseti. Röksemdir af þessu tagi geta varla verið alvörumál af hálfu hæstv. ráðh. Þess vegna er nauðsynlegt, eins og hv. þm. Svavar Gestsson hefur óskað hér eftir, að í fyrsta lagi verði bréfið frá Seðlabankanum lagt fram, í öðru lagi svari hæstv. forsrh. því hvernig fjmrh. greiddi atkvæði í ríkisstj., því að samkv. lögum um Seðlabanka hefur Seðlabankinn ekki heimild til að gera þetta nema samþykkt ríkisstj. liggi fyrir. Í þriðja lagi er nauðsynlegt að upplýst sé af hvaða tekju eða gjaldalið hjá Seðlabanka Íslands þessi upphæð á að greiðast.