21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Nákvæmlega eins og 1979, þegar hv. þm., þáv. viðskrh. flutti frv. um nákvæmlega sömu hluti, hækkun á kvóta Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, nákvæmlega eins og þá þarf ríkissjóður ekkert að greiða. Og eins og hæstv. fyrrv. viðskrh. gerði sér grein fyrir þessum hlutum þá og flutti frv. hlýtur hann að gera sér grein fyrir því nú að sama gildir í þeim efnum. Ég er hér með frv. sem lagt var fyrir Alþingi þegar hv. 3. þm. Reykv. gegndi embætti viðskrh. og þar eru nákvæmlega sömu rökin og í því frv. sem við erum að ræða hér um í dag, sagt nákvæmlega það sama. En þá víkur hv. þm. að fjárlagafrv. og les þar upp á bls. 188: Lánahreyfingar út. Þar er um að ræða að gerð er grein fyrir því sem ríkissjóður kemur til með að greiða og það er ekki vikið að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þar. Af hverju? Vegna þess að hann kemur ekki til með að greiða krónu, ekki eina krónu. Hér er verið að tala um Alþjóðabankann og ég vonast til þess að hv. þm. sé ekki að rugla því saman. Hér er verið að tala um Norræna fjárfestingabankann. Ég vonast til að hv. þm. sé ekki að rugla því saman. Svo vildi hann fá upplýst af hvaða reikningum Seðlabankinn ætlaði að millifæra þetta. Það skyldi þó ekki vera af sömu reikningum og 1979 þegar hv. 3. þm. Reykv. gegndi embætti viðskrh.? Að það væri verið að millifæra af gjaldeyrisreikningum Seðlabankans erlendis, nákvæmlega sömu reikningum og þá voru til, sjálfsagt aðrar tölur í dag, en hvaðan annars staðar skyldi millifærslan geta átt sér stað af þessum reikningum, þeim hinum sömu og 1979?