21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér kost á að hefja hér máls á allalvarlegu máli, sem ég tel vera, en það er ástandið sem skapast hefur við Ísafjarðardjúp vegna stöðvunar á rækjuveiðum þar vestra. Það er, a.m.k. í mínum huga og þeirra sem þarna eiga hlut að máli, sem eru a.m.k. nokkuð á annað hundrað manns, æði alvarlegt mál þegar slíkt gerist og þarf e.t.v. að gerast.

Ástæðan fyrir þessu er sú, að þann 14. nóvember s.l. voru rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi stöðvaðar með öllu eftir að hafa staðið í röskan hálfan mánuð. Þær hófust, ef ég man rétt, um 28. október. Þetta er ákveðið fyrirvaralaust og að því er mér er tjáð af hlutaðeigandi aðilum þar vestra, sem eru rækjusjómenn, án þess að nokkuð hafi verið við þá rætt um það ástand sem þarna var að skapast og kynni að skapast. Ný hygg ég að öllum hv. þm. sé ljóst að um viðkvæmnismál er að ræða þegar loka á heilum veiðisvæðum. Það er mikið viðkvæmnismál, auk þess að vera mikil spurning um fjárhagsstöðu, þegar til slíkra aðgerða er gripið og því æskilegast að það sé gert, eftir því sem hægt er, í sem nánustu samkomulagi og samstarfi við þá aðila sem hlut eiga að máli. Mér er tjáð að svo hafi ekki verið og ber að harma það. Auk þess fullyrða sjómenn þar vestra að aðgerðum af þessu tagi, lokun alls Djúpsins og allra veiðisvæða þar, hafi ekki áður verið beitt. Þeir halda því fram, sem ég mun víkja að á eftir, að innan þessa svæðis séu veiðisvæði þar sem seiðagengd sé undir leyfilegum mörkum.

Ég vek athygli á því að hér er um að ræða algera stöðvun hjá sjómönnum. Það eru 70 einstaklingar, sem þarna eiga hlut að máli, sem hafa stofnað til ærins kostnaðar við undirbúning vertíðar, upp á tugi eða hundruð þúsunda hver um sig, og hafa sagt upp vinnu þeirri sem þeir voru í vegna þess að gefin var heimild til veiða. Þegar hún var gefin tjá þeir mér að ekki hafi verið taldir neinir annmarkar á að veiðum yrði haldið áfram. Ekkert benti til þess, þegar leyfið var gefið, að til stöðvunar þyrfti að koma, allra síst að til þess þyrfti að koma að loka heildarsvæðinu. — Auk þess hafa á annað hundrað manns í landi misst atvinnu vegna þessarar lokunar. Það er vægast sagt alvarlegt ástand á ekki stærra svæði en þarna er um að ræða þegar hátt í 200 manns missa atvinnu sína, ekki síst á þeim tímum sem nú ganga yfir íslenskt þjóðfélag og ég tala nú ekki um yfir launafólk í landinu.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér bréf sem ég hef fengið í hendur. Það er dagsett á Ísafirði 16/11 1983 og er svohljóðandi. Það er til hæstv. sjútvrh.:

„Þann 14. nóvember var Ísafjarðardjúpi lokað fyrir rækjuveiðum. Ákvörðunin var byggð á rannsóknaleiðangri í Djúpinu vikuna á undan lokuninni. Tekin voru sýni um allt Djúpið. Samkv. meðaltalsútreikningum var seiðamagn meira en heimilt er til veiða. Við erum að sjálfsögðu hlynntir því að ekki sé veitt á þeim svæðum þar sem seiðamagn er of mikið. Nú er það aftur á móti ljóst samkvæmt áðurgreindum leiðangri að Djúpið undan Æðey og þar með allir Jökulfirðirnir var með mjög lítið seiðamagn, langt undir leyfðum mörkum. Það eru því eindregin tilmæli okkar að Djúpinu verði svæðisskipt og leyfðar veiðar í þeim hluta þess þar sem seiðamagn eru undir leyfðum mörkum. Jafnframt verði sóknarþunginn minnkaður um helming þann tíma sem aðeins er heimilt að veiða í hluta af Djúpinu. Að sjálfsögðu fylgdist fiskifræðingurinn Guðmundur Skúli Bragason með veiðunum og gæti þá lagt fram tillögur um breytingar eða lokun eftir því sem seiðamagnið gæfi tilefni til.

Það er von okkar að tillögur þessar, sem brjóta ekki í bága við verndarsjónarmið en gætu tryggt lágmarksatvinnu fyrir sjómenn og það verkafólk sem á afkomu sína undir rækjuveiðum, njóti velvildar rn. og fáist staðfestar sem fyrst.“

Hér er um það að ræða að rækjusjómenn sjálfir undirstrika að þeir hafa ekki uppi óskir — ég tala nú ekki um kröfur — um að veiða á þeim svæðum sem talið er varhugavert að veiða á vegna mikils seiðamagns, en óska eindregið eftir því að Djúpinu verði svæðisskipt og leyfðar verði veiðar á þeim svæðum þar sem seiðamagn er undir mörkum sem reglugerð leyfir og einnig verði dregið úr sóknarþunga um helming frá því sem nú er meðan það ástand varir. Mér er tjáð að verði dregið úr sóknarþunga um helming megi minnka líkur á seiðadrápi, sem út úr þessum rannsóknaleiðangri kom, um 70 til 80%.

Ég skal ekki fara nánar út í það, en ég tel að hér sé um það alvarlegt mál að ræða að mig langar til að beina tveimur eða þremur spurningum til hæstv. sjútvrh., sem eru svohljóðandi:

1. Verður þeim tilmælum rækjusjómanna um að Djúpinu verði svæðisskipt og leyfðar veiðar þar sem seiðamagn er undir leyfðum mörkum neitað?

2. Á ekkert tillit að taka til þeirrar tillögu rækjusjómanna sjálfra að minnka sóknina um helming þann tíma sem heimilt yrði að veiða í hluta af Djúpinu, þrátt fyrir að talið sé að slík sóknarminnkun þýddi að líkur á seiðadrápi minnkuðu um 70 til 80%?

3. Hvernig er hugsað að standa að rannsóknum á næstunni í Djúpinu? Því hefur verið haldið fram í mín eyru að allar líkur bentu til þess að ekki yrði rannsakað í Djúpinu fyrr en eftir áramót. Ég tel það afskaplega óeðlilega ákvörðun, ef það yrði úr, og þess vegna er spurningin um hvernig rannsóknum verði hagað þarna á næstunni.

4. Finnst ekki hæstv. sjútvrh. eðlilegt að haga lokun svæða við rækjuveiðar með svipuðum hætti og varðandi togaraflotann við þorskveiðar, þ.e. að færa flotann til á svæðum eftir því sem tilefni gefst til og útkomur úr rannsóknaleiðöngrum sýna?

Ég skal ekki, herra forseti, taka lengri tíma í þetta að sinni, en ég taldi og tel að þetta mál sé svo alvarlegt fyrir þá aðila sem þarna eiga hlut að máli að það beri að gera allt sem hugsanlegt er til þess að komast hjá meiri vandræðum en þegar eru orðin. Ég undirstrika eigi að síður að engin krafa er gerð um að veiða í Djúpinu á þeim svæðum þar sem fyrir liggja rannsóknir að er mikið eða yfirgnæfandi seiðamagn miðað við það sem fiskifræðingar telja eðlilegt séu veiðar leyfðar. En þetta er það alvarlegt að ég tel að gera beri allar þær ráðstafanir og hliðra til með öllum þeim hætti sem hægt er bæði gagnvart veiðiskapnum og einnig taka tillit til þeirra aðila sem hér eiga hlut að máli og hafa byggt sína afkomu á þessum veiðum, a.m.k. á þeim tíma árs sem nú er.