21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Áður en ég svara fsp. sem til mín hefur verið beint vil ég fyrst fara nokkrum orðum um mál þetta.

Á þessu hausti hafa rækjusvæðin í Ísafjarðardjúpi verið könnuð þrisvar sinnum með sérstöku tilliti til fiskseiða. Fyrsta könnunin var framkvæmd í ágústlok og sú næsta um mánaðamótin sept.-okt. Þessar athuganir sýndu að það var talsvert um seiði í Ísafjarðardjúpi, en þó í bæði skiptin undir þeim lokunarmörkum sem hafa verið sett og gilt hafa í mörg ár. Á þessum forsendum hófust rækjuveiðar og voru þær leyfðar 28. okt. Eftir að veiðarnar hófust kom í ljós að ekkert lát hafði orðið á seiðagöngum inn í Djúpið. Er mér tjáð að engin leið sé að segja fyrir um þær, heldur verði þær að athugast hverju sinni. Er þá komin skýringin á því hvers vegna lokun var ákveðin með svo skömmum fyrirvara.

Það er vissulega rétt að mjög óheppilegt er að slíkt sem þetta skuli þurfa að gerast svo snögglega. Hins vegar er skýringin sú, að ákveðið var að reyna allt til þess að koma þessum veiðum af stað. en á síðustu stundu kemur í ljós að ástandið er orðið eins slæmt og raun ber vitni. Könnunin átti sér stað í Ísafjarðardjúpi

30. okt. til 8. nóv. á einum rækjubátanna, en þá voru veiðarnar hafnar. Sú athugun gaf til kynna að í Ísafjarðardjúpi væru 20–30 millj. þorsk- og ýsuseiða og meira af smásíld og smáloðnu.

Einnig var vitað að rækjubátar hentu jafnvel heilum hölum, þar sem það var algjörlega óvinnandi fyrir þá að hreinsa fiskseiðin úr rækjuaflanum. Seiðamergð sem þessi hefur ekki verið í Ísafjarðardjúpi síðan haustið 1978, en þá voru rækjuveiðar bannaðar í Djúpinu fram til áramóta.

Samkv. þessari könnun. sem fór fram í Ísafjarðardjúpi, veiddi rækjubáturinn, sem ég gat um áðan, að jafnaði 2 500 þorsk- og ýsuseiði á rækjutonn. Viknaflinn er 6 tonn af rækju og veiddust því á viku á einum bát að jafnaði 15 þús. þorsk- og ýsuseiði. 32 bátar granda þá á viku tæplega hálfri millj. þorsk- og ýsuseiða. Á þeim fjórum vikum sem lokunin gæti verið í gildi, ef hún þarf að vera alveg fram að 10. des.. sem að vísu er ekki endanlega vitað, mundu bátarnir granda 2 millj. þorsk- og ýsuseiða. Ef helmingur af þessum seiðum nær fjögurra ára aldri, eins og mætti ætla, eða jafnvel meira, þá væru hér um 2 þús. tonn af þorski og ýsu við fjögurra ára aldur. Þar fyrir utan er mikið af smásíld og smáloðnu — í meira magni en þorsk- og ýsuseiðin. Það má þá gera ráð fyrir á sömu forsendum að það mundu tapast a.m.k. 4 þús. tonn af þorski, ýsu, síld og loðnu.

Ísafjarðardjúpinu var sem sagt einfaldlega lokað vegna þess að seiðamergðin var verulega yfir lokunarmörkum. Það voru sem sagt um 2 500 þorsk- og ýsuseiði og 2 900 síldarseiði á hvert rækjutonn. Ef þetta er yfirfært yfir í verðmætamat, þar sem síldarseiðin eru lægra metin en þorsk- og ýsuseiðin, eru þetta 3 475 seiði, en lokunarmörkin, sem eru að mínu mati allhá, eru 2 650. Þessi mörk hafa verið í gildi um nokkurn tíma, en eru að mínu mati allhá.

Það þótti ekki mögulegt að loka afmörkuðum svæðum, enda eru seiði á ferð og flugi og hefur margra ára reynsla sýnt fram á haldleysi svæðalokana í Ísafjarðardjúpi. Reynsla er hins vegar fyrir því, að seiði eru að mestu gengin úr Djúpinu um áramót og ekki er ástæða til að ætla annað en að svo verði einnig nú.

Það er alveg rétt, eins og kom fram hjá hv. þm.. að það voru svæði sem voru nokkuð undir lokunarmörkum, eða um 2 200 til 2 300 seiði ef ég man rétt, lengra úti í Djúpinu, en það ber einnig að geta þess að seiðin munu að sjálfsögðu ganga um þetta svæði og þess vegna ekki talið að það sé rétt að svæðisskipta Djúpinu. Er ég þá einnig kominn að hans fyrstu spurningu, hvort Djúpinu yrði svæðisskipt. Svarið við þeirri spurningu er nei.

Hámarksveiði á rækju í Ísafjarðardjúpi hefur verið ákveðin 2 100 lestir á vetrarvertíðinni. Ég vil einnig geta þess, að ekkert sambærilegt innfjarðarsvæði á Íslandi gefur af sér önnur eins verðmæti. Seiðin munu að sjálfsögðu ganga úr Djúpinu, en rækjan verður eftir. Hér er fyrst og fremst spurningin um hvernig ber að skipuleggja rækjuveiðarnar þannig að sem minnst sé drepið af seiðum á veiðitímabilinu.

Það er sjálfsagt að athuga í ljósi reynslunnar hvort ekki sé rétt að hefja rækjuveiðina hreinlega um áramót vegna þessarar reynslu. Ég er þeirrar skoðunar, að rétt væri að athuga það og ræddi það m.a. við rækjusjómenn, því það.sem er verst fyrir fólkið er að búa við óvissu, vita ekki fyrr en með nokkurra daga fyrirvara að nú verði veiðin stöðvuð og atvinnan sé glötuð. Það er mun betra, að mínu mati, að draga úr þessari óvissu, þannig að fólkið viti nákvæmlega að hverju er gengið. Mér finnst sjálfsagt að athuga í framtíðinni að rækjuveiðin hefjist ekki fyrr en um áramót.

Önnur spurningin var sú, hvort kæmi til greina að minnka sóknina um helming. Svarið við því er nei. Þriðja spurningin var: Hvernig á að standa að rannsóknum? Djúpið mun verða kannað upp úr næstu helgi eða í byrjun næstu viku og þá mun væntanlega koma í ljós hvort hugsanlegt er að hefja veiðarnar aftur. Ef það kemur í ljós og niðurstaðan verður sú að Hafrannsóknastofnunin mælir með því, þá verður að sjálfsögðu leyft að veiða rækju.

Það er algjörlega vonlaust að stjórna fiskveiðum við Ísland nema hlutlægar reglur séu hafðar þar að leiðarljósi. Þarna hafa verið skapaðar ákveðnar reglur, sem verður að fara eftir. Ef menn hætta að halda í slíkar reglur er engin leið að stjórna þessum hlutum. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir þeim vanda sem skapast af þessum sökum, en hins vegar megum við ekki líta á þetta eingöngu neikvætt, vegna þess að það er að sjálfsögðu mjög gott að það skuli vera svo mikið magn af seiðum í Djúpinu. Það bendir til þess að klakið í vor varðandi þorsk og ýsu hafi heppnast allsæmilega. Þótt það sé ekki nákvæm sönnun fyrir því, þá eru það að sjálfsögðu góðar fréttir að mikið skuli vera um seiði.

Hv. þm. spurði að lokum um hvort ekki væri rétt að hafa sams konar reglur varðandi rækjubátana og togarana. Ég tel að svo sé ekki. Þar er ekki um sams konar veiðar að ræða. Við erum annars vegar að tala um innfjarðarsvæði og hins vegar úthaf og þar geta ekki gilt sömu reglur.

Herra forseti. Ég vænti þess að svör þessi séu fullnægjandi. Ég vil endurtaka að ég hef fullan skilning á því, hvers konar vandamál skapast þegar slík lokun á sér stað, en það er hins vegar að mínu mati ekki verjanlegt að slíkt seiðadráp eigi sér stað eins og þarna hefði annars orðið. Í reynd getur ekkert réttlætt það, að mínu mati, við þau skilyrði sem nú eru komin upp í okkar sjávarútvegi. Það hefur oft komið fyrir áður að svæðum hefur verið lokað, t.d. var lokað í fjögur ár við Eldey og skapaði mjög mikinn vanda. Það var lokað á Breiðafirði, eftir því sem ég best man, um tveggja ára skeið. Þetta getur því miður alltaf komið upp og verður ekki hægt að ráða við. — En ég tel í ljósi reynslunnar að sjálfsagt sé að athuga það fyrir framtíðina að rækjuveiðar í Djúpinu hefjist ekki fyrr en um áramót. Þá veit fólkið nákvæmlega að hverju það gengur.