18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Nú er sú stund loksins upp runnin að hæstv. forsrh. hefur gert Alþingi Íslendinga grein fyrir stefnu ríkisstjórnar sinnar og nú loksins fá réttkjörnir fulltrúar þjóðarinnar tækifæri til að fjalla um þessa stefnu, sem ríkisstj. hefur verið að framkvæma undanfarna mánuði.

Eins og hæstv. forsrh. kynnti okkur hér áðan er það eitt meginmarkmið núv. ríkisstj. að ná niður verðbólgunni. Í þeim tilgangi hefur ríkisstj. tekið harkalega á launaþætti efnahagslífsins, en látið aðra þætti þess liggja milli hluta. Í því efni sýnist mér að ríkisstj. vinni út frá þeirri grundvallarreglu að tilgangurinn helgi meðulin. Til þess að markmiðið náist skal engu eirt. Gerðir samningar launafólks eru að engu hafðir, réttur manna til að semja um laun sín er felldur niður og þyngstu byrðarnar eru lagðar á þá sem verst voru settir fyrir.

Hér er á ferðinni stefna sem brýtur á einum helgasta rétti mannsins — rétti hans til að hafa áhrif á aðstæður sínar og þar með á líf sitt, stefna sem ekkert mið tekur af þeim verðmætum sem liggja til grundvallar mannlífinu hvar sem er, hinum mannlegu verðmætum. Í þessari stefnu er manninum sjálfum ýtt til hliðar og sæti hans tekur reiknistokkurinn. Það mikilvægasta er að fá ákveðnar tölur út úr reikningsdæminu. Manneskjan sjálf og líf hennar eru aukaatriði.

Hvernig er svo þessi kaldranalega og karlmannlega stefna rökfærð og réttlætt? Jú, hjöðnun verðbólgunnar er kjarabót, segir hæstv. forsrh. En til þess að ná fram þeirri kjarabót, sem hann telur lækkun verðbólgunnar vera, þarf hann fyrst að skerða kjörin. Hér er m.ö.o. á ferðinni röksemdafærsla sem bítur í halann á sjálfri sér. Til þess að skaffa þjóðinni kjarabót þarf fyrst að skerða kjör hennar.

Einnig er í þessari röksemdafærslu að finna þá skoðun, að hjöðnun verðbólgunnar sé í sjálfu sér kjarabót og því sé það réttlætanlegt að launafólk leggi mikið á sig í þessum efnum. En hjöðnun verðbólgunnar er ekki endilega bein kjarabót í sjálfu sér. Hún er vissulega mikilvæg fyrir alla hagsýslu í landinu, viðskipti okkar við útlönd og afstöðu manna til verðmæta almennt, en minni verðbólgu fylgir ekki sjálfgefin kaupmáttaraukning við núverandi aðstæður. Lægra verðbólgustig eitt og sér færir launafólki ekki kaupið sitt óskert aftur. Hér er því verið að slá ryki í augu fólks. Það þarf fleira að koma til en hjöðnun verðbólgunnar til þess að kaupmáttur launa aukist á ný. En um það er ekkert að finna í stefnuræðu hæstv. forsrh.

Á sama tíma og núv. ríkisstj. beitir launafólki fyrir sig í stríðinu við verðbólguna segist hún hafa hug á því að vernda kaupmátt lægstu launa og lífskjör þeirra sem verst eru settir í þessu þjóðfélagi. Ef svo er, hvers vegna í ósköpunum skerti þá ríkisstj. verðbætur á laun samkv. prósentuhlutfalli þannig. að þeir sem lægstu launin höfðu fengu minnstu launahækkunina í krónum talið 1. júní og 1. okt. s.l.? Hefði þá ekki verið nær, eins og við kvennalistakonur höfðum ítrekað bent á, að reikna út krónutölu verðbóta á meðallaun, greiða þá krónutölu út á meðallaun og öll laun þar fyrir neðan og skerða verðbætur til helminga eða meira á öll laun þar fyrir ofan? Með þessu hefðu kjör þeirra lægst launuðu batnað þó nokkuð. Kjör þeirra, sem meðallaunin höfðu, hefðu staðið í stað, en byrðarnar lagst á þá sem hæstu launin höfðu og þar með sterkasta bakið í burðinn.

Samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar frá því í maí s.l. hefði þessi tilhögun komið eins út fyrir þjóðarbúið í heild og þær aðgerðir sem ríkisstj. lét gera. Verðbólgan hefði þess vegna hjaðnað nákvæmlega jafnmikið. Hvers vegna beitti ríkisstj. ekki þessari reikningsaðferð, ef henni var í mun að vernda lífskjör þeirra lægst launuðu? Hvaða réttlæti er í því að þeir sem minnst hafa fái fæstar krónurnar í sinn hlut og verði því að bera hlutfallslega þyngstu byrðarnar?

Ríkisstj. vill spara og draga úr umframneyslu og það er gott og gilt. Við þurfum að spara. En við hverja þarf að spara? Við þá sem velta hverri krónu á milli handa sér? Er það umframneysla Sóknarkonunnar sem þarf að draga úr? Nei og aftur nei. Það er ekkert sem réttlætir þær byrðar sem lagðar hafa verið á þær verst settu í þessu landi. Það hefði verið hægt að gera þetta allt öðruvísi og miklu réttlátar. Það hefði verið hægt að spara við þá sem einhvern sparnað þoldu. Ríkisstj. hefði meira að segja ge:að sparað ríkissjóði þessar 450 millj. sem varið var til svokallaðra mildandi en vægast sagt ómarkvissra aðgerða, því verðbótadreifingin samkv. tillögum okkar hefði séð til þess að þeir lægst launuðu væru betur settir en þeir áður voru. Ríkisstj. hefði þannig verið í lófa lagið að vernda lífskjör láglaunafólks í þessum aðgerðum sínum og ná samt sama árangri í baráttunni við verðbólguna. En hún gerði það ekki. Og hvers vegna gerði hún það ekki, fyrst hún segist vilja það?

Er það e.t.v. vegna þess að þeir lægst launuðu í þessu þjóðfélagi eru að miklum meiri hluta konur? Samkvæmt könnun Jafnréttisnefndar Reykjavíkur frá 1981 voru konur rúm 72% þeirra sem unnu ófaglært og þar með lægst launuðu störfin á vinnumarkaðnum. Treystir ríkisstj. því að þessar konur, sem bæði mynda undirstöðu atvinnulífsins í landinu og vinna húsmóðurstörfin heima fyrir umbunarlaust, — treystir hún því að þær þegi eins og endranær fullar umburðarlyndis og fórnfýsi eins og okkur konum er einlægt innrætt að gera frá blautu barnsbeini? Og ef umburðarlyndið þrýtur og þeim er loksins ofboðið, treystir ríkisstj. þá því, að þessar dauðþreyttu konur hvorki hafi orku til þess að hugsa sér möguleika á því að komast frá börnum og basli til að láta í sér heyra á fundum um kjaramál? Og þótt þær nú af útsjónarsemi komist á fund um kjaramál, er þá treyst á það í síðustu lög að þar heyrist ekki í þeim vegna þess að þær kunni ekki að tala það karlamál sem er notað á slíkum fundum?

Ég veit að ríkisstj. getur treyst á þetta allt saman hvað varðar hana jafnöldru mína, sem er ein með tvö börn, vinnur fulla vinnu á saumastofu fyrir 12 þús. á mánuði, borgar tæplega 6 þús. kr. á mánuði í pössun fyrir börnin sín og saumar heima öll kvöld og allar helgar fyrir fólk úti í bæ til að eiga fyrir mat handa sér og börnunum sínum. Ég veit að ríkisstj. getur treyst því að það heyrist ekkert í þessari konu. Hún á fullt í fangi með að standa á fótunum. Og það veit heilög hamingjan að þessi kona og fjöldi annarra sem býr við sömu aðstæður og hún hefur ekkert við niðurfellingu skatts á ferðamannagjaldeyri að gera. Hún lætur sig hvort sem er ekki dreyma um að komast í ferðalag til útlanda. Aðgerðir ríkisstj. í húsnæðismálum ganga ekki nærri nógu langt til þess að hún eigi nokkra von til þess að geta komið upp þaki yfir sig og börnin sín. Mæðralaunin, sem ríkisstj. af rausn sinni hækkaði við hana í júní, skiluðu sér öll aftur beint í ríkiskassann í júlí þegar dagvistargjöld á barnaheimilum voru hækkuð. Og hún hefur ekki ýkjamikið við aukinn persónaafslátt að gera, þar sem tekjur hennar eru hvort sem er svo lágar.

Ég vil biðja þing og þjóð að íhuga aðstæður hinna fjölmörgu sem búa við sömu aðstæður og þessi kona, þegar menn móta afstöðu sína til stefnu þessarar ríkisstj., ég vil biðja menn um að íhuga siðferðilegar forsendur aðgerða, sem bitna harðast á þeim sem enga rönd fá við reist, og ég vil biðja menn að íhuga hvernig mannlífi þeir vilja hlúa að í þessu landi.

Út frá því langar mig að víkja fáeinum orðum að stefnu þessarar ríkisstj. í menntamálum. Hæstv. menntmrh. vill auka tengsl fjölskyldu og skólastarfs og samheldni og samveru foreldra og barna. Hér virðist mér vera góð stefna á ferðinni — stefna sem tekur mið af hinum mannlegu verðmætum. En ég fæ einfaldlega alls ekki séð hvernig hæstv. menntmrh. á að geta komið þessu stefnumiði í framkvæmd á meðan stefna ríkisstj. í launamálum gerir það að verkum að foreldrar verða að vinna meira en nokkru sinni fyrr fyrir lífsnauðsynjum og hafa þar af leiðandi ennþá minni tíma til að sinna börnum sínum. Hafa menn hugsað út í það hvaða afleiðingar þetta kann að hafa fyrir börn þessa lands, fyrir framtíð þessarar þjóðar? Þetta vil ég að lokum biðja menn um að íhuga. — Ég þakka áheyrnina.