22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

80. mál, kostnaður af kynningu á efnahagsaðgerðum Sjálfsæðisflokks og Framsóknarflokks

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég get ekki alveg tekið undir það sem hv. tveir þm., sem töluðu hér á undan, sögðu. Ég held nefnilega að ríkisstjórnir á hverjum tíma eigi að gegna vissri upplýsingaskyldu gagnvart fólkinu í landinu. Ég sé þess vegna ekkert því til fyrirstöðu þótt hæstv. forsrh. gerði það að reglu að fara um landið einu sinni á ári til að kynna stefnu ríkisstj. Það er ekkert á móti því, ekki neitt.

Hitt er svo önnur saga, hvernig þetta er gert. Það er spurningin um það hvort viðkomandi hæstv. ráðh. er að kynna flokk sinn sérstaklega og sjálfan sig eða hvort hann er að mæla fyrir stefnu hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma. Ég held að það sé í rauninni ekkert athugavert við þau fundahöld sem hæstv. forsrh. efndi til. Hins vegar þótti mér útgáfan á bæklingnum fyrir neðan allar hellur, og þeim fjármunum sem fóru til þess var illa varið, einfaldlega vegna þess að þessi bæklingur hafði nákvæmlega ekkert upplýsingagildi fyrir almenning í landinu og auk þess var hann forljótur.

Ég segi þetta vegna þess að ég held að ríkisstjórnir á undanförnum árum hafi gert allt of lítið af því að uppfræða landslýð um það á hvaða leið þær væru hverju sinni. Af þeim sökum þótti mér nákvæmlega ekkert athugavert við fundahöld hæstv. forsrh. Hafi hann hins vegar á þessum fundum eingöngu notað tímann til þess að reka áróður fyrir Framsfl., þá væri það ámælisvert. En það held ég að hæstv. forsrh. hafi ekki beinlínis gert, heldur var hann að verja mjög erfiðar aðgerðir ríkisstj. Og ég held að menn verði að horfa á þetta í talsvert öðru ljósi en því, að það hafi verið varið einhverjum peningum til þessara hluta. En ég óska jafnframt eftir því að hæstv. forsrh. komi nú hér í stólinn og lýsi því yfir að hann ætli að gera þetta á hverju ári. Þá væri orðinn dálítill bragur á þessu.