22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

80. mál, kostnaður af kynningu á efnahagsaðgerðum Sjálfsæðisflokks og Framsóknarflokks

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi ferðaskýrsla hæstv. forsrh. var mjög fróðleg, ekki síst í ljósi þess, að Þjóðhagsstofnun og ríkisfjölmiðlar hafa að mínum dómi staðið sig alveg þokkalega í að koma því á framfæri við þjóðina hvernig ríkisstj. miðaði í efnahagsmálunum. Auk þess býr þessi ríkisstj. yfir allnokkrum blaðakosti. Það munu vera á 2. hundrað þúsund eintaka sem fara á borð landsmanna á hverjum degi, sem beint eða óbeint mega teljast málgögn þessarar ríkisstj. í einum fjórum blöðum, þar sem eru Morgunblaðið, Tíminn, Dagblaðið og Lögbirtingablaðið.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort bensínið á flugvélar Landhelgisgæslu og flugmálastjórnar sé ókeypis. Og ég er ekki alveg viss um að þessir örfáu dropar, sem sparneytni jeppinn eyðir, séu heldur ókeypis fyrir þjóðarbúið. Einhvers staðar verður það gert upp í lokin. Það liggur því auðvitað beint við að spyrja í endann: Má stjórnarandstaðan senda hæstv. ríkisstj. reikning upp á 373 650 kr. eftir þann áróður sem hún hyggst kannske koma á framfæri við landsmenn hér á næstunni? Og fáum við ókeypis aðgang að flugvél Landhelgisgæslunnar og skrúfuþotu flugmálastjórnar ef við förum fram á það?