22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

80. mál, kostnaður af kynningu á efnahagsaðgerðum Sjálfsæðisflokks og Framsóknarflokks

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins út af spurningu hv. þm. Árna Gunnarssonar. Ég get ekki lofað honum því að ég fari á hverju ári í fundaferð en það eru miklar líkur til þess, því ég lít á það sem skyldu mína að uppfræða almenning um það sem ríkisstj. er að gera og gefa mönnum tækifæri til að spyrja. Það er töluvert annað en að skýra frá í fjölmiðlum þar sem almenningur hefur ekki aðgang að. Ég mun því taka ábendingu hv. þm. til athugunar. (Gripið fram í: Ætli árin verði svo mörg?) Það er ómögulegt að vita, hv. þm. Ég sé vonarsvip á hv. þm. en hann kann nú að þurfa að vera þar nokkuð lengi.

En um bæklinginn. Vitanlega má deila um efni hans og menn geta haft sína skoðun á því. Ég leyfi mér að fullyrða að þar sé ekkert ofsagt og engu logið, en það hefði svo sem vel komið til greina að gefa út miklu ítarlegri bækling, t.d. bækling eins og hv. þm., fyrrv. iðnrh., gaf út, sem sumir hafa kallað áróðursrit fyrir Alþb. og var ekki gefið út með samþykki þeirrar ríkisstj. sem þá sat, eins og ég sagði áðan.

Ég vil líka taka það fram að á þeim fundum sem ég mætti á og voru níu, þá hygg ég að ég hafi hvergi minnst á stefnu neins stjórnmálaflokks heldur aðeins stefnu ríkisstj. og jafnvel ekki hallað á Alþb. og ekki á hv. þm. Svavar Gestsson í því sambandi. Þess var áreiðanlega gætt.