18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Siðmenning þjóðar er ekki síst metin eftir þeirri mannúð sem hún sýnir lítilmögnum sínum, jafnt á velgengnistímum og eins þegar á móti blæs. Þó er oft lítið til skiptanna hjá sumum þjóðum og margar bera skarðan hlut frá borði þegar úthlutað er matvælum, heilbrigði, lífslengd og möguleikum til að nýta hæfileika sína. En við Íslendingar erum heppin þjóð, þó í harðbýlu landi sé. Við erum efnuð fjölskylda.í ættbálki þjóðanna og höfum nógan mat, heilbrigði okkar er góð og langlífi okkar er meira en með öðrum þjóðum. Við höfum á margvíslegan hátt mátt rækta með okkur og reyna það sem í okkur býr og vinnusemi okkar og auðna hefur leitt til þess að þjóðartekjur okkar hafa verið með þeim hæstu í heimi.

Á s.l. árum hefur þó verið teflt djarft með sveiflukenndan aðalatvinnuveg að bakhjarli og stærstu fjárfestingar okkar hafa ekki reynst arðbærar. Í metnaði okkar hefur gætt óhófs og í vímu hinnar nýríku þjóðar, þar sem afi og amma eða jafnvel foreldrar höfðu e.t.v. ekki alltaf til hnífs og skeiðar, hefur verið bruðlað og aðstæður vanmetnar. Því erum við nú stödd í öldudal og horfumst með kvíða í augu við það að á eftir hinum feitu árum fylgja hin mögru. En þó að engan hafi dreymt feitar kýr eða magrar, þá erum við vel í stakk búin til að styðja hvert við annað þegar nú harðnar á dalnum.

Það er álitamál hvort er vandasamara að stjórna á gnægtarárum eða hallæris. En eitt er víst, að meiri mannúðar og samhjálpar er þörf þegar í harðbakkann slær. Andstreymið veldur öryggisleysi og stjórnmálamenn sækjast þá einkum eftir festu. Festunni er oft beitt til að hemja tölur, því að í velmegunarþjóðfélögum eru tölugildi orðin að mælikvarða á mannlegt líf. Þá er ekki spurt um gleði, gæsku, starfsmetnað og hugarró né heldur einmanakennd, ótta, brostnar vonir eða gremju. Heilir hópar af fólki verða að tölum á blaði, sem trufla æskilega útkomu á dæmi, og tölunum er þá breytt til að dæmið komi rétt út. Það er samt undarlegt hvað sumar tölur virðast varnarlausari en aðrar og gjarnari á að breytast, því að til eru tölur sem eru nánast friðhelgar og eru aldrei snertar. Þessar tölur fara oft margar saman og eru háar og kannske þess vegna verri viðureignar. Sumar þeirra fela sig í bönkum og þangað er erfitt að ná til þeirra. En festa stjórnmálamannanna verður að hörku og bitrum raunveruleika fyrir fólkið á bak við tölurnar, sem var fórnað fyrir dæmin.

Íslenska fjölskyldan í samfélagi þjóðanna hefur kosið sér fulltrúa til að ráða málum sínum. Sumir þeirra hafa tekið að sér að vera sú áhöfn sem stýrir fleyi okkar út úr vandanum — og hvernig hefur þeim tekist til? Stefnumarkmið þeirra gefa til kynna að efnahagsvandinn ógnar þeim, en jafnframt segjast þeir vilja sýna skilning á kjörum þeirra sem þyngst framfæri hafa. Og þeir taka á málunum með festu. En festan verður að hörku sem beinist að þeim sem síst skyldi og mannúðin, hún er ekki með. Kannske vita þeir þetta og hafa slæma samvisku og e.t.v. þess vegna vildu þeir ekki leyfa öðrum kjörnum fulltrúum að ræða áformin eða hafa áhrif á stefnu sína, en komu henni í framkvæmd í krafti brbl. án þinghalds.

Flestir eru sammála um að efnahagsvandinn hafi verið þannig vaxinn að það þyrfti að grípa í taumana. Það var ljóst að þau áföll sem þjóðarbúið hafði orðið fyrir kröfðust leiðréttingar á þeirri skiptingu þjóðarteknanna sem verið hafði. En það er bæði ástæðulaust og ómannúðlegt að þeir sem veikastir eru skuli þurfa að bera hlutfallslega langstærstu byrðarnar. Hvers vegna þurfti að ögra fólki með því að leggja á það ófrelsi, svipta það samningsrétti? Ekki örvar það samvinnu og samhjálp. Það má ekki vanmeta velvilja þjóðarinnar og það hve reiðubúin hún er til samstöðu til að leysa vandann, en fara verður með sanngirni og sérhver verður að bera sinn skerf af byrðunum.

Hver hefur svo forgangsröðin verið og á hvað hafa megináherslur verið lagðar?

Hugsið ykkur húsbónda á bágstöddu heimili, þar sem matur er naumur. Hvernig litist ykkur á að vera í forsjá hans ef hann veldi stærstu bitana handa sjálfum sér, en skammtaði lítilræði ofan í börnin og aðra lítilmagna? Hvernig litist ykkur á hann á þrengingartímum, þegar fjölskyldan berðist í bökkum og ætti ekki fyrir nauðþurftum handa öllum, ef hann þá tæki stórlán á næsta bæ til að snyrta hlaðvarpann og byggja þar gríðarstóra flugstöð til að aðkoman að bænum hans væri glæsilegri? Þegar enn er sjóðþurrð til framkvæmda og eyðsla á heimilinu tæki hann aftur stórlán á næsta bæ, þar sem þegar er skuldað frá fyrri árum sem nemur 60% af allri framleiðslu býlisins þetta árið. Hvernig haldið þið að heimilismönnum væri innanbrjósts ef það kæmi í ljós að einn úr fjölskyldunni varðveitti stóran seðlabankakistil fullan af peningum sem hann vildi ekki nýta. til að hlaupa undir bagga á neyðartímum — nei, hann ætlaði að nota skerf úr honum til að byggja stórt og myndarlegt peningahús til að geyma þessa peninga og aðra sem kynnu að bætast við? Hvernig litist ykkur á húsbóndann ef hann léti það viðgangast að heimilisfénu væri eytt í að kaupa stóra og skrautlega peningakassa til að geyma þær fáu krónur sem fólkið hefði undir höndum?

Á þessum bæ væri lítið fé eftir til mannræktar og menntunar eða til að sinna þeim sjúku og öldruðu, fötluðu og vanmáttugu eða til að styrkja framleiðsluhætti heimilisins. Þarna væri ekki gott að búa. Þá væri betra að flytja á annan bæ. Þar er húsmóðirin vökul og meðvituð um þarfir og getu heimilismanna. Hún leggur á þá byrðar eftir þoli þeirra og þegar að þrengir tekur hún ekki meira en aðrir. Hún hugar að innri þörfum heimilisins, því að hjá henni sitja mannúð og mannrækt í fyrirrúmi. Þess vegna finnst henni miklu meira um vert að nota fé til að tryggja börnum sínum samfelldan skóladag með fjölbreyttu viðeigandi námsefni til að búa þau undir lífið heldur en að reisa stórhýsi á heimreiðinni. Hún sýnir hófsemi í fjölda og búnaði peningakassa á heimili sínu og reynir að telja heimilismanninn sem gætir seðlabankakistilsins á að hætta nú við húsbygginguna, en nýta sjóðinn í þágu heimilisins. Ef það gengur ekki þá má vera að hún grípi til örþrifaráða eins og brbl. Hún beitir þeim ekki til að skerða rétt vinnandi fólks, heldur setur þau um kistilinn og kemur í veg fyrir að féð fari í byggingu peningahúss, en renni heldur til framkvæmda á heimilinu svo að hún þurfi ekki að taka fleiri lán á næsta bæ.

Festa hennar verður ekki að hörku því að hin nánu tengsl hennar við lífið hafa gefið henni lífssýn og gildismat sem setur mannleg verðmæti ofar efnislegum, manngildi ofar auðgildi. Hún veit hve mikilvægt það er að varðveita tengslin milli huga og hjarta, þannig að hinir mannlegu þættir gleymist ekki í ákafri sókn að markmiði og hinir tæknilegu efniskenndu þættir verði allsráðandi. Hún veit að þessi tengsl eru nauðsynleg til að meta lífið og manninn og þegar þau rofna er hætta á því að brotið verði gegn lífinu. Hún veit að þegar þessi tengsl milli huga og hjarta hafa rofnað, þá geta menn farið í vinnuna sína og fundið upp ennþá afkastameiri kjarnorkusprengjur í dag en í gær án þess að það trufli tilfinningar eða siðgæðisvitund þeirra.

Hún veit að skylda hennar er að hlúa að og rækta börn sín og hún byggir yfir þau skóla og vistheimili, en ekki yfir peninga. Eldri börn sín styður hún með námslánum og ágóðann af fríhöfninni sinni lætur hún renna til skólamála. Hún metur framtag heimilismanna að verðleikum og hjá henni finnast ekki láglaunakonur, því að hún hefur fyrir löngu orðið fyrir hugarfarsbreytingu sem leiddi til þess að á hennar bæ eru allir jafnréttháir án tillits til kyns, aldurs, húðlitar eða trúarbragða.

Hún greiðir ekki minna þeim sem annast lífið en þeim sem annast vélarnar. Þegar konurnar á heimili hennar eignast börn sín, þá tryggir hún afkomu þeirra fyrstu mánuðina til að næði gefist til þeirra samskipta sem nauðsynleg eru þroska barnanna og öryggi og ánægju móðurinnar, því að hún veit að börnin eru mesti auður fjölskyldunnar.

Hún er hófsöm í lántökum og fjárfestingum, reisir sér ekki hurðarás um öxl og veit að verðbólgan stafar ekki aðallega af því að launin séu of há, heldur miklu fremur af rangri fjárfestingu. Þegar hún hugsar um sparnað og hagræðingu á heimilinu, þá byrjar hún ekki á því að hræða þá sem einna lengst hafa unnið hjá henni í þvottahúsi og eldhúsi og stefna atvinnuöryggi þeirra í hættu.

Henni er annt um landið sitt og hún vill verja það uppblæstri og illri umgengni, en nýta það með forsjá. Hún er trú sinni lífssýn og stendur við sitt þó að rödd hennar sé ólík hinum.

Íslenska þjóðarheimilið þarf á fleiri slíkum einstaklingum að halda, sem aðhyllast viðhorf hennar, því að hér hefur lengi ríkt blinda á forgangsröð. Og til að vísa blindum veginn eru margir hvítir stafir, sem gerðir eru af lífsgildum og verðmætamati kvenna, og þá má nota til að rata á farsælli forgangsröð en áður.

Ég þakka áheyrnina.