22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

94. mál, samstarfsnefnd um iðnráðgjöf

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hjá hv. fyrirspyrjanda, Páli Péturssyni, gætti að mínu mati nokkurs misskilnings á hlutverki þeirrar samstarfsnefndar sem gert er ráð fyrir í lögum um iðnráðgjafa. Eins og fram kom hjá hæstv. iðnrh. hafa engar greiðslur farið fram til nefndarinnar sem slíkrar enn sem komið er. Ekki á ég von á að það verði háar fjárhæðir sem þar verði fram reiddar miðað við þær reglur sem settar hafa verið um þóknanir til nefnda.

En verkefni samstarfsnefndarinnar er að tryggja tengsl iðnráðgjafa, sem hafa aðsetur úti í landshlutunum og eru ráðnir af landshlutasamtökum eða iðnþróunarfélögum sem taka yfir starfssvæði viðkomandi landshlutasamtaka eða iðnþróunarfélags, við þær stofnanir og stjórnvöld hér í Reykjavík sem sinna iðnaðarmálefnum, þ. á m. iðnrn., Iðntæknistofnun, Framkvæmdastofnun, byggðadeild, að mig minnir, og einnig var skipaður í nefndina á sínum tíma formaður Samstarfsnefndar um iðnþróun, sem starfar á grundvelli þál. sem samþykkt var hér á hv. Alþingi um iðnaðarstefnu. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið í raun að þeir starfsmenn, sem eru að ryðja brautina úti í landshlutunum, hafi tengsl við þá aðila sem fara með þessi mál hér syðra, þróunarstofnanir iðnaðarins og stjórnvöld. Það hafa orðið nokkur skipti á starfsmönnum í hinum einstöku umdæmum á þeim tíma sem iðnráðgjafar hafa starfað, þannig að það hafa nýir menn þar komið til starfa. Yfirleitt hefur vel tekist til, held ég, um ráðningu þeirra og starfsemi þeirra. Þeim mun þýðingarmeira er í rauninni fyrir þá sem koma þarna nýir á vettvang að hafa trygg tengsl við þá aðila sem eiga að styðja við starfsemi þeirra af stjórnvalda hálfu. Því treysti ég því að áfram verði skilningur á nauðsyn þessa samræmingarstarfs. Í rauninni var það valið fremur en að vera að hugsa til þess að stofnuð yrðu sérstök útibú úti í landshlutunum frá t.d. Iðntæknistofnun Íslands, sem vissulega gat verið til álita, en hefði orðið mun kostnaðarmeira að mínu mati en sú leið sem varð ofan á.