18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Með myndun núv. ríkisstj. urðu harkalegri umskipti í íslenskum stjórnmálum en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir vordagana lagðist ískaldur hægri vindur yfir allt mannlíf á Íslandi og næddi í gegnum merg og bein, sérstaklega þó þeirra sem við lökust kjörin búa. Þjónustan við aldraða, fattaða og sjúka. og nemendur í framhaldsnámi er skorin niður svo nemur mörg hundruð millj. kr. á ári. Á sama tíma rjúka upp verslunarhallirnar. Formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur telur nú að hækka mætti laun í verslun um 60% ef miðað er við áformin um stórfellda lengingu á verslunartíma hér í höfuðborginni og verslunarfjárfestingu sem á engan sinn líka.

Eftir fimm ára varðstöðu Alþb. um lífskjörin, fétagslegar framfarir á mörgum sviðum, trygga atvinnu á Íslandi einu landa Vestur-Evrópu og varnarbaráttu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar hafa orðið kaflaskipti. Nú er ekki lögð áhersla á að vernda lífskjörin. Nú eru almenn laun lágtekjufólks skorin niður um 30%, þrisvar sinnum meira en nemur falli þjóðartekna. Nú eru ekki uppi áform um félagslegar úrbætur. Nú hæðist forsrh. Framsfl. að félagslegri þjónustu og ráðherrar hans hafa aðeins áhuga á því að skera niður og skerða réttindi m.a. aldraðra og öryrkja. Nú er ekki lengur rætt um fulla atvinnu, nú hafa hin manneskjulegu sjónarmið verið hrakin til hliðar, flæmd úr stjórnarráðinu eins og fjmrh. lýðveldisins komst að orði úr þessum ræðustól á fimmtudaginn var.

Nú er ekki gert ráð fyrir að draga úr eða stöðva hernámsframkvæmdir. Nú er ljóst að þær verða meiri á næstu árum en um áratugaskeið. Nú er ekki lögð áhersla á uppbyggingu íslensks atvinnulífs í iðnaði og sjávarútvegi. Nú eru gerðir uppgjafarsamningar við Alusuisse og sendimenn iðnrh. hendast út um allan heim til að falbjóða orkulindir Íslendinga. Þannig eru kaflaskiptin alger og í raun hrikalegri en nokkur gat gert sér í hugarlund því stjórnarflokkarnir gerðu kjósendum sínum ekki grein fyrir þessum áformum fyrir síðustu kosningar. Þvert á móti báru öll fyrirheit stjórnarflokkanna merki þess að þeir mundu fylgja allt annarri stefnu en þeirri sem nú hefur verið framkvæmd. Þannig hafa stjórnarflokkarnir báðir svikist aftan að kjósendum sínum.

Gleggsta dæmið í þessu efni, góðir hlustendur, eru húsnæðismálin. Þar lofaði Geir Hallgrímsson 80% fyrir kosningar. Þegar félmrh. tók við lofaði hann 50%, en þegar leið á sumarið lækkaði hann loforðið niður í 30% . Nú um miðjan október liggur fyrir að ríkisstj. hefur ekkert gert í húsnæðismátum nema að lofa. Ríkisstj. hefur lofað útborgun um 300 millj. kr. viðbótarlána í næsta mánuði. Engin fjáröflun hefur verið ákveðin í þessu skyni og engir peningar eru enn til. Félmrh. lofar 1 000 millj. kr. á lánsfjáráætlun næsta árs til Byggingarsjóðs ríkisins en aðrir ráðamenn vilja skera áformin niður um 400 millj. kr. Allt húsnæðismálakerfið er í uppnámi og í hers höndum vegna loforðablaðurs forsrh. og félmrh. Þeir hafa ekki hikað við að notfæra sér örvæntingu skuldugra húsbyggjenda til áróðursframleiðslu á liðnu sumri sem á engan sinn líka.

Góðir hlustendur. Við spáðum því að ríkisstjórn hægri aflanna yrði fjandsamleg launafólki. Við báðum fólk um að taka þátt í að verja kjörin. En því miður voru þeir of fáir sem gerðu sér grein fyrir því, að kosningar eru kjarabarátta. Því miður eru vinstri menn og verkalýðssinnar á Íslandi of tvístraðir. Afleiðingarnar voru myndun ríkisstjórnar kerfis- og kaupránsflokkanna og stefna hennar liggur fyrir í verki. Það er ekki eftir neinu að bíða með að dæma um afleiðingarnar. Kaupið er nú lægra en verið hefur um áratuga skeið, eða allt frá 1953. Og ríkisstj. ætlar að halda kaupskerðingunni út næsta ár. Ríkisstj. hefur svipt launafólk samningsrétti, hún hefur troðið á frelsi einstaklingsins þrátt fyrir yfirlýsingar Sjálfstfl. um annað. Forustulið Sjálfstfl. virðast skipa valdabraskarar sem eru tilbúnir í hvað eina fyrir sex ráðherrastóla.

Sjálfstfl. kveðst þó vera á móti samningabanninu. Á það verður látið reyna á næstunni hvort Sjálfstfl. selur Framsfl. sannfæringu sína öðru sinni eða stendur við orð sín. Framsfl. hefur beitt sér af hörku fyrir samningabanninu. Þar með hafa þau sögulegu tíðindi gerst á Íslandi að Framsfl. hefur skipað sér yst til hægri í íslenskum stjórnmálum, því vinstri menn og samvinnumenn banna ekki frjálsa kjarasamninga. Það gera aðeins hægri menn og herforingjastjórnir. Framsfl. hefur gengið svo langt að nauðsynlegt er að sett verði í stjórnarskrána ákvæði sem hindra að gripið verði til svona gerræðis aftur.

Ríkisstj. hefur lokað þinginu lengur en nokkru sinni áður nú í sumar og þar með afnumið þingræðið einnig um skeið. Sjálfstfl. lofaði að kalla þingið saman 18 dögum eftir kosningar og fyrir því var meiri hluti á Alþingi. Þetta fyrirheit sveik Sjálfstfl. Framkoma hans og ríkisstj. í heild gagnvart stjórnarandstöðunni er einsdæmi, og það er lágkúrulegt af Steingrími Hermannssyni þegar hann reynir að verja sig með ósannindum um ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens í þessu sambandi.

Þessi þrjú dæmi, um kauplækkun, samningabann og lokun Alþingis Íslendinga, eiga að vera nægileg til að sýna að hér er að störfum hægri stjórn undir forustu Framsfl., en Steingrímur Hermannsson hefur tekið að sér að verða eins konar forfallaformaður í Sjálfstfl. þar til á landsfundi íhaldsins eftir nokkrar vikur. Þessi þrjú dæmi eiga líka að nægja til að ljóst verði að ríkisstj. hefur sagt þjóðinni stríð á hendur. Hún hefur sagt í sundur friðinn á Íslandi þegar mest á ríður að skapa samstöðu um erfið úrlausnarefni.

Þjóðin stendur nú frammi fyrir miklum efnahagslegum erfiðleikum, sem eiga rætur að rekja til erfiðra ytri aðstæðna, auk þess sem mörg verkefni voru óleyst þegar fráfarandi ríkisstj. fór frá, vegna sjálfheldunnar á Alþingi s.l. vetur. Þessi vandamál verða ekki leyst með sjónhverfingum eins og ríkisstj. Steingríms Hermannssonar beitir gagnvart verðbólgunni. Áður en varir kemur blekkingin í ljós, því að ríkisstj. hefur hvergi snert á raunverulegum ástæðum verðbólgunnar, hún hefur aðeins ráðist að kaupinu.

Alþb. lagði áherslu á þjóðarsamstöðu í stjórnarmyndunarviðræðunum í vor. Sjálfstfl. hafnaði þeim möguleika. Framsfl. fylgdi í kjölfarið og steig þó feti framar með því að heimta samningabann. Forsrh. hótaði launafólki hegningarlögunum. Þar með náðu kaupráns- og kerfisflokkarnir saman.

Alþb. taldi í vor og telur að grípa verði til víðtækra alhliða efnahagsráðstafana. Við vorum og erum reiðubúin til að mæta erfiðleikum þjóðarbúsins með jöfnunaraðgerðum. Við viljum standa að niðurskurði á milliliðakerfinu og sparnaði í niðþungri yfirbyggingunni, en við höfnum árásum á kjör fatlaðra og aldraðra. Við erum reiðubúin að taka þátt í því að ganga á sjálfvirkni efnahagskerfisins, en við erum andvíg því að sjúklingar greiði matarkostnað á spítölum. Við teljum að brýnasta verkefnið nú sé að afnema brbl. svo að launamenn geti með fullum myndugleika tekið þátt í lýðræðislegu samstarfi í samféfagi okkar. Við viljum að strax hefjist samningar um dýrtíðaruppbætur á laun og tafarlausar launabætur. Við viljum leggja grundvöll að traustara atvinnulífi, jafnframt því sem yfirbyggingin verður skorin niður og milliliðakerfið grisjað.

Verðbólguvaldurinn á Íslandi er fólginn í þeirri staðreynd að reynt er að skipta meiru en til er. Þegar verslunin hrifsar margfaldan hlut á við það sem verið hefur, þá veldur það verðbólgu. Þegar skipulagsleysið einkennir sjávarútveginn, undirstöðuatvinnuveg landsmanna, þá veldur það verðbólgu. Þegar milliliðirnir í landbúnaði eyða hundruðum milljóna í fjárfestingu, sem er að mestu óþörf, þá veldur það verðbólgu. Þegar ríkissjóður er rekinn með stórfelldum halla, þá veldur það verðbólgu. Þarna er dýrtíðarvaldurinn á Íslandi. Þeir aðilar sem þarna voru nefndir eru að reyna að knýja fram skipti á því sem ekki er til. Verðmætasköpunin stendur ekki undir hinu þunga bákni sóunarinnar. Þeir sem ekki þora að ráðast á þetta kerfi munu áfram búa við dýrtíð. Og enginn getur ætlast til þess, að kerfisflokkarnir tveir hrófli við tilverugrundvelli sínum, seinvirku, ranglátu og siðspilltu bákni fjármagnsaflanna.

Ríkisstjórnin ætlar þjóðinni að búa við kaupránið allt næsta ár, sama kaupmátt verkalauna og 1953. Það munu launamenn ekki þola, það geta þeir ekki liðið. Það er ekki spurning um vilja, heldur um getu. Rekstrargrundvöllur alþýðuheimilanna er brostinn. Ríkisstj. gumar af því með aðgerðum sínum að hún tryggi fulla atvinnu. Staðreyndin er sú, að ríkisstj. hefir magnað hættuna á atvinnuleysi með tillitslausum aðgerðum á öllum sviðum.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, herra forseti, hefur þá stefnu í innanríkismálum að lækka kaupið og skera niður félagslega þjónustu, í atvinnumálum að hefja til vegs erlenda auðhringa og í utanríkismálum að gera eins og Bandaríkjastjórn fyrirskipar. Þessi stefna stríðir gegn sjálfstæðisvitund landsmanna, réttlætiskröfum þeirra og jafnréttisviðhorfum. Þess vegna mun ríkisstj. þessi fá sömu útreið í næstu kosningum og samstjórn kerfisflokkanna fékk árið 1978. Þess vegna þurfa allir andstæðingar ríkisstj. að hefja undirbúning að traustu samstarfi sem leiðir þjóðina út úr því myrkri skammdegisins sem Steingrímur og Albert hafa lagt yfir borg og bæ. Vegvísirinn út úr myrkrinu er samstaða vinstri manna um félagsleg úrræði jafnréttis og lýðræðis. Því það má aldrei aftur gerast að afturhaldsöflin komist til valda í skjóli sundrungarinnar.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.