22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

399. mál, verðlagseftirlit með þjónustugjöldum bankanna

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Sjálfsforræði peningastofnana í þessu landi er mikið, bæði til að afla fjár og eins til að ráðstafa hagnaði að eigin geðþótta. Nú nýlega, um mánaðamót ágúst-sept., hækkaði gjaldskrá bankanna og jafnhliða var ýmsum nýjum þjónustugjöldum bætt við. Er nú svo komið að hvert viðvik bankaþjónustunnar er gjaldfært nema ef vera skyldi það að leggja peninga inn í banka. Það er eitt af því fáa sem enn þarf ekki að greiða sérstaklega fyrir. Afleiðing þessara hækkana varð mikið misræmi í þjónustugjöldum í bankakerfinu og er túlkun gjaldskrárinnar frá því í maí með ýmsu móti.

Þessar hækkanir urðu án undanfarandi auglýsinga eða annarra tilkynninga til viðskiptavina. Hver hefur eftirlit með slíkum hækkunum og leyfir þær eða eru bankarnir þarna sjálfráðir? Það eru einmitt þessir sömu viðskiptavinir sem horft hafa á launin sín hækka aðeins um 12% síðan í mars meðan lánin þeirra hafa hækkað til frambúðar um a.m.k. 34% og nauðsynjavörur allt að 90%. Því var lofað í bráðabirgðalögum ríkisstj. að einungis yrðu leyfðar óhjákvæmilegar verðhækkanir. Tilheyrðu þessar hækkanir á þjónustugjöldum bankanna svokölluðum óhjákvæmilegum verðhækkunum eða ná ríkisáætlanir ekki til bankanna?

Þegar þurfalingar leita á náðir bankanna er viðkvæðið oft að engir peningar séu til. Samt liggur nú inni hjá Seðlabanka 31 umsókn um leyfi til að stofna bankaútibú. Fyrir hvaða fé á að reisa þau útibú? Er von til þess að hækkun á gjaldskrá bankanna fjármagni slíkt? Varla. Reynslan sýnir okkur að bankana virðist samt ekki hafa vantað fé fram að þessu til að reisa sér vegleg glæsihús yfir starfsemi sína — og fá hús byggjast hraðar en einmitt bankar. Oftlega hef ég óskað þess að skólabyggingar, dagvistarheimili og sjúkrastofnanir væru þeirri náttúru gæddar að geta risið jafnhratt og bankar.

En ég vil líka vekja athygli á því, að þó að bankahúsin hafi risið hratt hafa laun starfsmanna bankanna ekki fylgt á eftir því að meðaltekjur starfsmanna peningastofnana á ársverk árið 1981 voru um 10 þús. kr. lægri en meðaltekjur landsmanna í heild. Jafnframt er launamismunur kynja með mesta móti í peningastofnunum, þar sem karlar á öllu landinu höfðu um 51% hærri meðallaun fyrir hvert ársverk en konur árið 1981, en í bönkum var hlutfallið um 62%.

Sjálfsforræði bankanna er mikið, en á þeim að líðast á tímum aðhalds og sparnaðar að fjárfesta óhóflega í byggingum yfir fé sem óðum minnkar? Er sanngjarnt að þeir selji þjónustu sína æ dýrar og að því er virðist eftirlitslítið til að fjármagna slíkt? Því spyr ég hæstv. viðskrh.: Hvernig er háttað verðlagseftirliti með þjónustugjöldum bankanna? Og í öðru lagi: Eru fyrirhugaðar einhverjar breytingar á því?