22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

399. mál, verðlagseftirlit með þjónustugjöldum bankanna

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Eins og reyndar hefur áður fram komið hér í málflutningi álít ég að hluti af því vandamáli sem hér hefur verið lýst, bæði af hv. fyrirspyrjanda, Guðrúnu Agnarsdóttur hv. 3. landsk. þm., og hæstv. viðskrh., sé að bankarnir flestir, sem hér um ræðir, ráða sér ekki nema að hluta til sjálfir. Afskipti ríkisvalds af bankastarfsemi eru óhollur þáttur í íslensku efnahagslífi — óhollur vegna þess að þar fara fram að tjaldabaki ráðstafanir fyrir tilstilli ríkisstj. sem hún þarf ekki að standa reikningsskil á. Það er hægt að leyfa bönkunum að ráða sínum þjónustugjöldum til málamynda, en það er ekki hægt að leyfa þeim að stjórna sínu eigin fé. Fólk áttar sig almennt ekki á því, hver raunverulega ræður ríkjum í Landsbanka, Búnaðarbanka og Útvegsbanka. Ríkisstj. getur gefið bankastjórnum fyrirmæli, sem þær verða að standa við jafnvel þótt bankinn sé þess ekki megnugur. Þetta hefur gerst í tengslum við kjarasamninga, þar sem ríkisstj. heitir atvinnurekendum fyrirgreiðslu í bankakerfinu gegn því að þeir samþykki samningana. Þetta hefur líka gerst þegar skort hefur fé í bönkum til að standa undir lánafyrirgreiðslu t.d. vegna afurðalána. Aftur á móti hefur lítið borið á vilja ríkisstjórna til að hafa holl áhrif á bankastarfsemina, t.d. að framfylgja lögum frá 1979 um raunávöxtun sparifjár eða aðhald í rekstri. — En að lokum mætti kannske spyrja að því, hvort það sé raunverulega með vilja og vitund hæstv. viðskrh., þegar vextir eru almennt lækkaðir, að dráttarvextir eru enn 60–80% á ársgrundvelli.