22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

400. mál, bankaútibú

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þessi umr., sem hér fer nú fram, er nokkuð undarleg og kemur vel í ljós hve mikil vanþekking er á ýmsu í sambandi við þessi mál. Það má kannske rekja sumt af því til fréttar í Tímanum í síðasta mánuði. Ég skil raunar ekkert í að slík blaðamennska skuli eiga sér stað, en þannig er nú oft með blöð yfirleitt.

Ég ætla að taka dæmi af Búnaðarbankanum af því að ég þekki þar best til. Það er verið að tala um að útibúum fjölgi, peningastofnunum fjölgi en hvað hefur skeð?

Í fyrsta lagi hefur það skeð, að almenningur í Grundarfirði og sveitarstjórn biðja Búnaðarbankann að taka yfir sparisjóðinn þar. Það gerist þar ekkert annað en það, að Búnaðarbankinn kaupir húsið sem sparisjóðurinn starfaði í og það fólk sem var í sparisjóðnum heldur áfram störfum.

Í öðru lagi er talað um að það hafi verið sett upp afgreiðsla í Þykkvabæ. Hvað hefur skeð þar? Útibússtjóri Búnaðarbankans á Heilu fær leigt eitt herbergi í Þykkvabænum svo að hann geti talað þar við þá viðskiptamenn sem skipta þar við bankann og þess óska.

Þetta er búið að viðgangast lengi, að útibússtjórinn á Hellu hefur farið niður í Þykkvabæ samkv. beiðni, en hefur orðið að sæta því að fá inni hjá hinum og þessum til að ræða við viðskiptamenn. Það er ekkert annað sem skeður. Þar er ekkert starfsfólk, enda sést það á þeim upplýsingum sem hæstv. viðskrh. gaf áðan að rekstrarkostnaðurinn er 131 þús. Það eru ferðalögin á milli Þykkvabæjar og Hellu og leiga á herbergi.

Eina fjölgunin sem um er að ræða er í Kópavogi. Þar er búið að standa til á annan áratug, að ósk bæjarstjórnar í Kópavogi, að Búnaðarbankinn fái betra útibú, vegna þess að bæði bæjarsjóður og ýmis fyrirtæki hafa verið með öll sín viðskipti frá fyrstu tíð við Búnaðarbankann.

Það væri hægt að ræða um þetta allt saman. Ég geri ráð fyrir að hægt væri að koma með upplýsingar um hina bankana og skýra þær með líkum hætti, en þegar er farið að athuga þessi mál held ég að sé yfirleitt verið að gera úlfalda úr mýflugunni.