22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

400. mál, bankaútibú

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég veit að hæstv. viðskrh. hefur gleymt að svara þeirri fsp. sem ég bar fram til hans um viðhorf hans til þess frv. sem hér liggur nú fyrir Alþingi um stöðvun bæði byggingar Seðlabankahússins og stöðvun á frekari útþenslu útibúa bankanna í kerfinu. Ég held að hyggilegt væri fyrir Alþingi að samþykkja slíkt meðan menn eru að ná áttum í þessu máli. Ég held að ef menn haldi áfram á sömu braut verði enn frekari útþensla og fjármagn verði nýtt til ónauðsynlegra verka en mörg önnur eru, sem er brýn nauðsyn á að hrinda í framkvæmd, á sama hátt og hér hefur verið lýst. Ég ítreka því mína fsp. til hæstv. viðskrh., hvort hann telji nú ekki rétt að samþykkja stöðvun á framkvæmdum og útþenslunni á bankakerfinu sem heild með því að stöðva allar frekari uppsetningar útibúa meðan menn ná áttum í því hvernig á að haga þessum málum með sem skynsamlegustum hætti, þannig að það komi þjóðinni að betra gagni en sú stefna sem ríkt hefur — og ekki ber þá að undanskilja fyrrv. ríkisstj. — í bankamálum.